Varaliðið vann Everton
Varalið Liverpool endaði leiktíðina með tilþrifum og lagði Everton að velli 3:1 á heimavelli sínum í Wrexham í kvöld. Paul Anderson (á mynd) átti stórleik á hægri kantinum. Harry Kewell sneri aftur eftir langvarandi meiðsli og lék í 35 mínútur. Gary Ablett tefldi fram sex Unglingabikarmeisturum í byrjunarliðinu. Þetta voru þeir David Roberts, Jay Spearing, Stephen Darby, Craig Lindfield, Robbie Threlfall og Charlie Barnett. Sá sjöundi Ryan Flynn kom inná sem varamaður. Strákarnir áttu sannarlega skilið að spila þennan leik eftir hetjudáðir sínar fyrir helgina. Emiliano Insúa og Nabil El Zhar, sem léku með aðalliðinu um helgina, voru í liðinu í kvöld. Bjarni Þór Viðarsson lék með Everton.
Liverpool byrjaði leikinn af krafti og tók strax öll völd á vellinum. Paul Anderson braut ísinn þegar hann náði boltanum eftir að varnarmenn Everton hreinsuðu frá marki og skoraði á 16. mínútu. Liverpool bætti við marki á 25. mínútu og var vissulega heppnisstimpill yfir því. Varnarmaður Everton skaut boltanum í hægri fót Nabil El Zhar og þaðan fór boltinn í netið. Liverpool sótti linnulaust að marki Everton og fóru Craig Lindfield og Nabil El Zhar mikinn í framlínu liðsins. Paul Anderson hefði átt að bæta þriðja markinu við í fyrri hálfleik en hann skaut yfir markið í dauðafæri.
Harry Kewell kom inná á 55. mínútu og var ekki lengi að láta að sér kveða á vinstri kantinum. Hann lék á tvo varnarmenn Everton og kom boltanum fyrir markið á Craig Lindfield sem skoraði eins og svo oft áður á þessu tímabili. Harry var nálægt því að leggja upp annað mark en skot Paul Anderson var frábærlega varið. Everton tókst síðan að minnka muninn á 78. mínútu þegar Kieran Agard komst inn fyrir vörn Everton og skoraði af öryggi. En sigur Liverpool var öruggur og hefði getað verið miklu stærri. Sannarlega góður endir á leiktíðinni!
Liverpool: Roberts, Darby, Insua, Hobbs, Huth (Kewell 55), Barnett (Ryan 77. mín.), Anderson, Spearing, Lindfield (Brouwer 67), El Zhar og Threlfall. Ónotaðir varamenn: Oldfield og Woodward.
Maður leiksins samkvæmt Liverpoolfc.tv: Paul Anderson skoraði frábært mark og átti frábæran leik á hægri kantinum. Það var mjög spennandi að fylgjast með honum.
Sem fyrr segir þá var þetta síðasti leikur Liverpool í varaliðsdeildinni. Liverpool hlaut 26 stig í 18 leikjum og hafnaði í fimmta sæti af tíu liðum. Bolton Wanderers vann deildina með 33 stigum.
-
| Sf. Gutt
Tilboðum hafnað -
| Sf. Gutt
Meiðslafréttir -
| Sf. Gutt
Áramótakveðjur! -
| Sf. Gutt
Verðum að skrifa okkar eigin sögu! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Virgil van Dijk -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku!