Rauði herinn fer til Aþenu!!!!!!
Fyrsti dagur maí var óvenjulega rauður í ár! Rauði herinn fer til Aþenu eftir að hafa slegið Chelsea úr leik í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Liverpool jafnaði Englandsorrustuna í venjulegum leiktíma. Hvorugt liðið náði að gera út um rimmuna í framlengingunni sem fylgdi. Liverpool vann hins vegar í vítaspyrnukeppni og tryggði sér þar með rétt til að leika um Evrópubikarinn í annað sinn á þremur árum! Allir lögðust á eitt innan vallar sem utan í kvöld og sá samtakamáttur skilaði Liverpool sætum sigri.
Það var rafmagnað andrúmsloft þegar flautað var til leiks á Anfield Road í kvöld. Stemmningin var sannarlega ekki minni en hún var fyrir tveimur árum þegar sömu lið gengu á hólm með það sama undir. Það mátti greinilega sjá að leikmenn beggja liða voru mjög spenntir. Bæði lið léku fast og varnir þeirra voru mjög sterkar. Ekkert bar til tíðinda uppi við mörkin þar til á 22. mínútu. Þá felldi Joe Cole Steven Gerrard út við hliðarlínu vinstra megin á móts við vítateigslínuna. Steven tók aukaspyrnuna sjálfur. Líklega áttu flestir von á fyrirgjöf inn á teiginn. Þess í stað renndi Steven boltanum þvert fyrir vítateiginn. Daniel Agger reif sig frá varnarmönnum Chelsea og mætti boltanum við vítateiginn þaðan sem hann stýrði boltanum neðst í vinstra horið óverjandi fyrir Petr Cech. Allt gekk af göflunum af fögnuði á Anfield Road! Snilldarlega útfærð aukaspyrna og Daniel svaraði fyrir gagnrýnina sem hann fékk eftir fyrri leik liðanna! Liverpool var nú búið að jafna rimmuna. Ekki minnkaði baráttan við það að mark var komið. Eftir hálftíma koma fyrsta færi Chelsea. John Obi Mikel sendi þá frábæra sendingu á Didier Drogba sem slapp inn á teig hægra megin. Hann komst þar einn gegn Jose Reina og þrumaði að marki. Boltinn fór beint á Jose sem varði. Chelsea endaði fyrri hálfleikinn af krafti og undir lok hans fékk Michael Essien gott færi. Frank Lampard tók hornspyrnu. Didier framlengdi boltann fyrir markið. Michael fékk boltann í góðu færi en náði ekki að skalla boltann sem fór í öxlina á honum og framhjá.
Liverpool hóf seinni hálfleik af miklum krafti og hafði yfirhöndina lengst af honum. Fyrsta færi hálfleiksins fékk Liverpool. Jermaine Pennant sendi góða sendingu fyrir frá hægri. Peter Crouch skallaði boltann niður í hornið við fjærstöngina. Petr náði hins vegar að verja naumlega með fótunum. Hann missti boltann frá sér en John Terry hreinsaði frá áður en meiri hætta varð af. Liverpool réði nú gangi mála. Eftir klukkutíma leik sendi John Arne Riise frábæra sendingu inn á teig. Dirk Kuyt stökk manna hæst og skallaði að marki en boltinn small í þverslánni. Þar skall sannarlega hurð nærri hælum. Enn slapp mark Chelsea tuttugu mínútum fyrir leikslok. Jermaine komst inn á teig hægra megin en Michael Essien komst fyrir skot hans og bjargaði í horn. Chelsea færði sig upp á skaftið undir lok leiksins. Ashley Cole tók góða rispu inn á teiginn vinstra megin fimmtán mínútum fyrir leikslok og sendi fyrir markið. Inni á markteig var margt um manninn en Jamie Carragher náði að bjarga áður en Didier Drogba náði til boltans. Reyndar dæmdi dómarinn markspyrnu! Litlu seinna var Jose Reina vel á verði þegar hann greip boltann utarlega í teignum eftir gott úthlaup áður en Dider Drogba náði honum. Framlenging varð ekki umflúin hvort sem mönnum líkaði betur eða verr.
Það var hart barist í framlengingunni. Rétt undir lok fyrri hálfleiks framlengingarinnar skoraði Liverpool. Xabi Alonso átti þá bylmingsskot af löngu færi sem Petr varði. Hann hélt ekki boltanum sem hrökk út í teiginn. Þar var Dirk Kuyt fyrstur að átta og sendi boltann af öryggi upp í þaknetið. Línuvörðurinn batt hins vegar endi á mikinn fögnuð Rauðliða með því dæma rangstæðu. Þar hafði þó línuvörðurinn rangt fyrir sér! Spennan jókst jafnt eftir því sem leið að lokum framlengingarinnar. Það lá fyrir að líklega myndi mark frá öðru hvoru liðinu gera út um leikinn. Það munaði litlu að Liverpool næði því marki rétt undir lok framlengingarinnar. Liverpool sótti inn á teig. Robbie Fowler, sem var nýkominn inn sem varamaður, lagði boltann út á Dirk sem lék á varnarmann og skaut föstu skoti að marki. Skotið fór hins vegar beint á Petr sem varði vel. Þetta var síðasta færi leiksins og Englandsorrustan réðst í vítaspyrnukeppni. Hún fór fram við Anfield Road enda vallarins. Líkt og í vítaspyrnukeppninni í Cardiff síðasta vor þá fór Jose Reina á kostum í markinu á meðan félagar hans sýndu mikið öryggi af vítapunktinum. Boudewijn Zenden, Xabi Alonso, Steven Gerrard og Dirk Kuyt skoruðu allir fyrir Liverpool á meðan Frank Lampard var eini leikmaður Chelsea sem kom boltanum framhjá Jose Reina. Jose varði frá þeim Arjen Robben og Geremi. Um leið og vítaspyrna Dirk Kuyt fór inn fyrir marklínuna var ljóst að niðurstaðan í þessari Englandsrimmu var sú sama og fyrir tveimur árum. Stuðningsmenn Liverpool um allar jarðir fögnuðu niðurstöðunni innilega. Rauði herinn fer til Aþenu og vonandi ber sú för sama ávöxt og sú sem farin var til Istanbúl fyrir tveimur árum!!!!!!
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Riise, Pennant (Alonso 78. mín.), Gerrard, Mascherano (Fowler 118. mín.), Zenden, Kuyt og Crouch (Bellamy 106. mín.). Ónotaðir varamenn: Padelli, Arbeloa, Hyypia og Gonzalez.
Mark Liverpool: Daniel Agger (22. mín.).
Mörk Liverpool í vítaspyrnukeppninni: Boudewijn Zenden, Xabi Alonso, Steven Gerrard og Dirk Kuyt.
Gult spjald: Daniel Agger.
Chelsea: Cech, Ferreira, Essien, Terry, A. Cole, Mikel, Makelele (Geremi 118. mín.), Lampard, J. Cole (Robben 98. mín.), Drogba og Kalou (Wright-Phillips 107). Ónotaðir varamenn: Cudicini, Boulahrouz, Bridge og Diarra.
Mark Chelsea í vítaspyrnukeppninni: Frank Lampard.
Gult spjald: Ashley Cole.
Vítaspyrnukeppnin:
1:0. Boudewijn Zenden skorar með öruggu skoti úti við stöng vinstra megin við markvörðinn.
1:0. Jose Reina skutlar sér til hægri og ver frá Arjen Robben.
2:0. Xabi Alonso skorar með skoti sem fer undir Petr Cech.
2:1. Frank Lampard skorar með föstu skoti yfir Jose úti við stöng vinstra megin.
3:1. Steven Gerrard skorar með með öruggu skoti vinstra megin við Petr Cech.
3:1. Jose skutlar sér til hægri og ver frá Geremi.
4:1. Dirk Kuyt skorar með öruggu skoti neðst í vinstra hornið. Hollendingurinn tryggði þar með Liverpool sigur!
Áhorfendur á Anfield Road: 42.554.
Liðin skildu jöfn 1:1 eftir tvo leiki. Liverpool vann 4:1 í vítaspyrnukeppni!
Maður leiksins: Jose Reina. Þessi magnaði spænski markvörður hélt markinu hreinu í kvöld og það skipti sköpum. Hann varði frábærlega frá Didier Drogba í fyrri hálfleik og var mjög öruggur í öllum sínum aðgerðum allan leikinn. Hann varði svo tvær vítaspyrnur í vítaspyrnukeppninni. Þær markvörslur gerðu útslagið um að Liverpool leikur í annað sinn um Evrópubikarinn á þremur árum!
Rafael Benítez var auðvitað í sjöunda himni eftir þennan magnaða sigur. "Kannski var þetta sætari sigur en þegar við unnum Chelsea árið 2055 og ég er virkilega, virkilega stoltur af leikmönnunum mínum. Stuðningsmenn okkar voru stórkostlegir og stemmningin var ótrúleg. Við ætlum okkur að njóta þessa sigurs. Þetta er gríðarlega mikilvægur sigur fyrir félagið og framtíðina."
-
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur -
| Sf. Gutt
Heilsteypt lið!