Annað deildartapið í röð
Liverpool tapaði öðrum deildarleik sínum í röð þegar liðið tapaði 1:0 fyrir Fulham. Liverpool er enn í þriðja sæti en Arsenal er nú stigi á eftir og á leik til góða. Sigurinn var mikilvægur fyrir heimamenn því hann kvað svo gott sem niður falldrauginn sem hafði ásótt þá síðustu vikurnar. Reyndar mun Fulham enn geta fallið en það þarf mikið að gerast til að svo geti endað. Rafael Benítez tefldi fram mikið breyttu liði frá því á þriðjudagskvöldið gegn Chelsea. Aðeins tveir leikmenn, Jose Reina og Jermaine Pennant, voru í byrjunarliðinu frá því kvöldið góða. Harry Kewell var í aðalliðshópi Liverpool í fyrsta sinn í rétt tæpt ár.
Það var nú ekki að sjá að Fulham væri að berjast fyrir sæti sínu í deildinni framan af leik. Sóknarleikur Liverpool var með ágætum og vörn heimamanna réði lítið við þá Robbie Fowler og Craig Bellamy. Eftir fimm mínútur komst Craig í færi hægra megin í teignum en Antti Niemi varði. Nokkrum mínútum seinna sendi Robbie frábæra sendingu á Craig sem komst í svipað færi en það fór á sama veg. Það var ekki fyrr en á 22. mínútu að heimamenn fengu færi. Vincenzo Montella klippti þá boltann að marki Liverpool en skotið fór í Xabi Aonso í markteignum. Rendar fór boltinn í hendi Spánverjans en hann hélt henni þétt að sér. Rétt á eftir börðust þeir Xabi og Michael Brown um boltinn. Boltinn fór á braut og um leið leit dómarinn frá þeim. Þá notaði Michael tækifærið og skallaði Xabi í andlitið svo úr blæddi. Dómarinn sá ekki atvikið en það var með ólíkindum að línuverðir skyldu ekki sjá hvað gerðist. Þetta var ruddalega gert og auðvitað átti Michael ekkert annað skilið en rautt spjald. Hann verður vonandi dæmdur í leikbann síðar. Eftir hálftíma skallaði Brian McBride yfir eftir hornspyrnu. Fimm mínútum síðar komst Craig enn í færi nú eftir laglegan undirbúning hjá þeim Robbie Fowler og Jermaine Pennant. Craig skaut hins vegar framhjá úr góðu færi. Á lokamínútu hálfleiksins Braust Jermaine upp hægra megin og sendi fyrir markið. Robbie fékk boltann fyrir opnu marki en hann náði ekki að stýra honum í markið. Þetta var besta færið sem Liverpool fékk. Reyndar var með ólíkindum að Liverpool væri ekki með örugga forystu þegar flautað var til hálfleiks og reyndar hefði liðið átt að vera manni fleiri. Allt þetta átti eftir að koma í bakið.
Lengi vel gerðist ekkert í síðari hálfleik. Eftir rúma klukkutíma komst Craig enn einu sinni í færi. Nú fékk hann boltann eftir hornspyrnu en Finninn varði frá honum. Heimamenn náði svo allt í einu að skora á 69. mínútu. Varamaðurinn Clint Dempsey fékk boltann fyrir utan teig. Hann sendi út til hægri á Liam Rosenior. Vörn Liverpool hikaði og vildi fá rangstöðu sem ekki var dæmd. Liam sendi fyrir og Clint skoraði örugglega úr dauðafæri. Mikill fögnuðust braust nú út hjá stuðningsmönnum Fulham sem sáu nú fram á sigur sem myndi tryggja sæti þeirra liðs í deildinni. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu þó á 77. mínútu þegar Harry Kewell kom inn fyrir Mark Gonzalez sem enn og aftur náði ekki að sýna hvað í honum á að búa. Harry hefur ekki leikið með Liverpool eftir að hann fór meiddur af velli í úrslitaleik F.A. bikarsins fyrir rétt tæpu ári. Það var gott að sjá Ástralann aftur inni á knattspyrnuvelli. Þremur mínútum eftir að hann kom inn á sendi hann góða sendingu fyrir markið. Inni á markteignum munaði aðeins hársbreidd að Robbie næði að stýra boltanum í markið. Hann náði bara ekki til boltans. Fjórum mínútum seinna skoraði Gabriel Paletta með skalla eftir aukaspyrnu en var dæmdur rangstæður. Undir lokin fékk Liverpool fjölda af hornspyrnum en það kom ekkert út úr þeim. Nokkrum andartökum fyrir leikslok var Papa Bouba Diop rekinn af leikvelli fyrir að negla Mohames Sissoko niður. Hann hefði getað verið farinn út af fyrr og hvað þá Michael Brown. Heimamenn náðu að halda út og þeir fögnuðu innilega með stuðningsmönnum sínum þegar flautað var til leiksloka. Liverpool lék ekki vel í þessum leik en miðað við færin í leiknum þá hefði þessi laikur aldrei átt að tapast. Ekki í fyrsta sinn sem Liverpool tapar á þessari leiktíð með þessari uppskrift.
Fulham: Niemi, Rosenior, Christanval, Knight, Bocanegra, Radzinski (Volz 90. mín.), Brown, Diop, Davies, Montella (Dempsey 53. mín.) og McBride (Helguson 86. mín.). Ónotaðir varamenn: Lastuvka og Routledge.
Mark Fulham: Clint Dempsey (69. mín.).
Rautt spjald: Papa Bouba Diop.
Gul spjöld: Papa Bouba Diop og Michael Brown.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Paletta, Hyypia, Insua (Finnan 75. mín.), Pennant (El Zhar 65. mín.), Alonso, Sissoko, Gonzalez (Kewell 77. mín.), Fowler og Bellamy. Ónotaðir varamenn: Padelli og Hobbs.
Gul spjöld: Robbie Fowler og Álvaro Arbeloa.
Áhorfendur á Graven Cottage: 24.554.
Maður leiksins: Sami Hyypia. Enn lék finnski foringinn vel. Hann stóð upp úr liðinu og barðist eins og ljón allan leikinn. Leikskilningur hans er frábær og það er hending ef sóknarmaður nær að snúa á hann.
Rafael Benítez taldi að Liverpool hefði átt að gera út um leikinn í fyrri hálfleik. "Við áttum fimm opin marktækifæri í fyrri hálfleik og þau hefðu átt að duga okkur til að vinna leikinn. Ef leikir eiga að vinnast þarf að nota færin sín. Svo einfalt er það nú. Þeir áttu tvö færi og skoruðu eitt mark."
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!