Grípum tækifærið!
Ýmsum finnst Liverpool ekki verðskulda að vera komið í úrslitaleikinn um Evrópubikarinn og benda á stöðu liðsins í deildinni síðustu ár. Rafael Benítez, framkvæmdastjóri Liverpool blæs á allt slíkt. Hann segir að sínir menn verðskuldi að vera komnir í úrslitin eftir langa Evrópuvegferð . Rafael vill að sínir menn grípi tækifærið og vinni Evrópubikarinn í Aþenu.
"Gerið ykkur að hetjum. Við erum hingað komnir af því að við höfum farið rétt að og við verðskuldum að vera hérna. Leikmennirnir hafa lagt hart að sér alla leiktíðina og ég mun segja þeim fyrir leikinn að láta ekki þetta tækifæri sér úr greipum ganga.
Ef við getum spilað vel og unnið leikinn þá væri það fullkomið. Ef ekki þá verða leikmennirnir að koma af velli vitandi að þeir gerðu sitt besta.
Við lögðum hart að okkur í æfingabúðunum og leikmennirnir eru einbeittir. Við vitum hvað við þurfum að gera en það er aldrei auðvelt að spila úrslitaleik í Meistaradeildinni. Það var ekki auðvelt síðast og það verður ekki auðvelt núna. Við berum mikla virðingu fyrir Milan. Þeir hafa mjög góðu og reyndu liði á að skipa. Við sáum í leik þeirra gegn Manchester United hverju þeir geta áorkað. Ef þeir spila aftur svoleiðis og ná að halda boltanum þá verður þetta erfiðara fyrir okkur. En við erum búnir að undirbúa hvernig við ætlum að hafa hemil á leikmönnum þeirra. Við ætlum líka að hafa stjórn á boltanum og svæðum á vellinum. Við erum tilbúnir núna.
Þetta verður erfiður leikur og ég held að liðið sem skorar fyrst muni eiga mjög góða möguleika á sigri. Okkar áætlanir miða alls ekki að því að fá aftur á okkur mark á fyrstu mínútu leiksins! Ef þú segðir við mig að leikurinn myndi þróast eins og í Istanbúl og lyktir yrðu þær sömu þá myndi ég taka því fegins hendi. En ég vil ekki þurfa að ganga í gegnum svoleiðis leik aftur því þá þyrfti ég á læknisaðstoð að halda! Lykilatriðið á morgun er að minnast þess hvers vegna við erum hingað komnir og og spila eins og við erum búnir að gera í Evrópuleikjunum alla leiktíðina."
-
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur -
| Sf. Gutt
Heilsteypt lið!