| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Grísku guðirnir voru ekki á bandi Liverpool og liðið náði ekki að vinna Evrópubikarinn í sjötta sinn. Þetta er leikur Liverpool og AC Milan í hnotskurn.

- Evrópukeppni meistaraliða, eins og keppnin hét fyrst, fór fyrst fram leiktíðina 1955/56. Real Madrid varð fyrst liða til að vinna keppnina. Liðið vann þá Stade de Reimes 4:3 í úrslitum.

- Leiktíðina 1992/93 var keppnisfyrirkomulagi breytt og kallaðist keppnin þá Meistaradeildin. Það er þó enn keppt um sama bikar og áður var keppt um.

- Þetta var 52. úrslitaleikurinn um Evrópubikarinn.

- Liverpool er sigursælasta lið Englands á Evrópumótum. Liðið á ellefu Evróputitla á afrekaskrá sinni. Evrópukeppni meistaraliða 1977, 1978, 1981, 1984 og 2005. Evrópukeppni félagsliða 1973, 1976 og 2001. Stórbikar Evrópu 1977, 2001 og 2005.  

- Liverpool lék um Evrópubikarinn í sjöunda sinn.

- Þetta var annað tap Liverpool í úrslitaleik um Evrópubikarinn. Liðið tapaði 1:0 fyrir Juventus árið 1985.

- Liverpool vann tvo síðustu Evróputitila sína árið 2005. Liðið vann þá Evrópukeppni meistaraliða eftir að hafa unnið AC Milan 6:5 eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni. Stórbikar Evrópu fylgdi svo eftir 3:1 sigur á CSKA Moskva.

- Tólf leikmenn sem tóku þátt í þeim leikjum eru enn hjá Liverpool. Það eru þeir: Steven Gerrard, Sami Hyypia, Jamie Carragher, John Arne Riise, Jerzy Dudek, Steve Finnan, Harry Kewell, Xabi Alonso, Sanz Luis Garcia, Jose Reina, Mohamed Sissoko og Boudewijn Zenden.

- Liverpool og AC Milan hafa aðeins leikið einu sinni saman áður á Evrópumóti. Það var í Istanbúl fyrir tveimur árum þegar Liverpool vann Evrópubikarinn með ógleymanlegum hætti.  

- Þeir Steven Gerrard, Jamie Carragher, John Arne Riise, Steve Finnan, Harry Kewell og Xabi Alonso tóku þátt í báðum þessum leikjum.

- Þetta var í fimmta sinn sem sömu lið spila tvisvar til úrslita um Evrópubikarinn.

- Leikurinn var fimmtugasti og áttundi leikur Liverpool á leiktíðinni.

- Leikurinn var fimmtándi Evrópuleikur liðsins á leiktíðinni.

- Liverpool notaði tuttugu og sjö leikmenn á Evrópuvegferð sinni til Aþenu.

- Aðeins einn leikmaður spilaði alla leiki Liverpool í keppninni. Þetta var Xabi Alonso.

- Peter Crouch var markahæstur leikmanna Liverpool í Evrópukeppninni. Hann skoraði sjö mörk. Steven Gerrard og Sanz Luis Garcia skoruðu þrívegis. Craig Bellamy, Robbie Fowler og John Arne Riise skoruðu tvö mörk. Þeir Daniel Agger, Mark Gonzalez og Dirk Kuyt skoruðu eitt mark hvor.

- Liverpool heimsótti sex lönd á Evrópuferðalagi sínu á leiktíðinni.

- Steven Gerrard leiddi Liverpool til leiks í annað sinn í úrslitaleik um Evrópubikarinn. Hann fetaði þar með í fótspor Emlyn heitins Hughes. Hann var fyrirliði Liverpool 1977 og 1978. Phil Thompson var fyrirliði 1981. Graeme Souness leiddi liðið 1984. Phil Neal var fyrirliði 1985. Steven var fyrirliði í Istanbúl 2005.

- AC Milan spilaði sinn ellefta úrslitaleik um Evrópubikarinn og vann hann í sjöunda sinn.  Aðeins Real Madrid hefur unnið Evrópubikarinn oftar eða níu sinnum.

- Í þau sjö skipti sem AC Milan hefur unnið keppnina hefur Paolo Maldini verið fimm sinnum í sigurliði. Sigursælasti leikmaður keppninnar er Fransisco Gento. Hann vann sex titla með Real Madrid á árunum 1956 til 1966. 
 

Jákvætt:-) Liverpool lék til úrslita um Evrópubikarinn í sjöunda sinn og í annað sinn á þremur árum. Leikmenn liðsins léku í heild vel. Stuðningmenn Liverpool voru í miklum meirihluta á Olympíuleikvanginum í Aþenu og studdu frábærlega við bakið á liðinu sínu. 

Neikvætt:-( Liverpool tapaði leiknum og missti af Evrópubikarnum! Tapið var sérlega sárt því liðið lék vel en heppnin var ekki með því.

Þrír bestu leikmenn Liverpool samkvæmt Liverpoolfc.tv:

1. Jermaine Pennant. Hann átti stórfínan leik á hægri kantinum. Jermaine hætti aldrei að hlaupa og var alltaf að reyna að skapa færi. Hann var óheppinn að skora ekki í fyrri hálfleik þegar Dida varði vel frá honum.

2. Javier Mascherano. Argentínumaðurinn gerði einföldu hlutina vel og lagði hart að sér á miðjunni.

3. Xabi Alonso. Var nærri því að skora í fyrri hálfleik og spilaði boltanum vel.

 

 



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan