Ég mun berjast fyrir sæti mínu
Jermaine Pennant segir, eins og aðrir leikmenn félagsins sem ekki hafa verið keyptir í sumar, ekki óttast samkeppni um stöður í byrjunarliðinu. Allmargir kantmenn hafa verið nefndir til sögunnar sem líkleg kaup Rafa Benítez í sumar en Pennant segist ekki hafa haft áhyggjur af því.
Af þeim leikmönnum sem hafa verið keyptir í sumar er enginn þeirra náttúrulegur hægri kantmaður sem ætti að segja eitthvað um það hvað Rafa Benítez finnst um Pennant sem leikmann. Pennant óx ásmegin eftir því sem leið á tímabilið og má kannski segja að hans besti leikur fyrir félagið hafi verið sá síðasti á tímabilinu, úrslitaleikurinn í Meistaradeildinni gegn AC Milan 25. maí.
Pennant hefur haldið þessu góða leikformi í sumar og hefur hann spilað vel á undirbúningstímabilinu. Ryan Babel og Yossi Benayoun geta spilað nokkrar stöður framarlega á vellinum og því ætti samkeppninum um sæti í byrjunarliðinu að aukast og Pennant veit af því, þó svo að þeir Babel og Benayoun séu ekki náttúrulegir hægri kantmenn. Pennant hefur svotil allan sinn feril þurft að sanna sig en hann var dýrasti ungi leikmaður Bretlands þegar Arsenal keyptu hann frá Notts County.
,,Stjórinn sagði á fundi að hann vill að leikmennirnir sýni á æfingum á hverjum degi að þeir séu að berjast um sæti í liðinu. Með því að gera það þá bætir maður sig sem leikmaður. Það hefur svo keðjuverkandi áhrif á liðið í heild sem kannski endurspeglar sig í betra gengi og fleiri sigrum."
,,Æfingarnar hjá Liverpool eru alltaf hraðar, líkamlegar og keyrslan er mikil þar sem allir eru tilbúnir í slaginn. Maður verður að vera tilbúinn ef maður vill spila vegna þess að æfingarnar skipta öllu máli. Ef maður gerir ekki sitt besta á æfingum þá veit maður að sæti manns í byrjunarliðinu er farið."
,,Ég vil ekki sýna Birmingham neina óvirðingu, vegna þess að þeir eru gott lið með góðan stjóra sem eru komnir aftur í Úrvalsdeildina, en við erum að tala um Liverpool hérna. Saga félagsins og hversu stórt það er, þýðir að maður getur ekki slakað á í eina mínútu."
Pennant byrjaði feril sinn hjá félaginu ekki sem best og sumir stuðningsmenn létu hann heyra það í upphafi tímabilsins. Betri frammistaða eftir áramót hefur væntanlega hjálpað honum eitthvað en sennilega eru nokkrir sem enn hafa ekki látið sannfærast um ágæti Pennant.
,,Stuðningsmennirnir biðja um stóra hluti og ef maður er ekki að standa sig í hverjum leik, eða ekki að leggja sig 100% fram, þá láta þeir mann vita af því. Þeir hafa að sjálfsögðu rétt á því vegna þess að þetta er Liverpool, risastórt félag." Segir Pennant sem var einn af sex leikmönnum sem tók þátt í æfingu með innfæddum unglingum í Hong Kong í gærdag.
,,Ég held að ég hafi haft stuðningsmennina á mínu bandi seinni hluta tímabilsins og ég held að stjórinn og liðsfélagar mínir hafi verið ánægðir líka. Á seinni helmingi tímabilsins sýndi ég betur hvað í mér býr og vonandi mun ég halda áfram að sýna mitt rétta andlit í byrjun þessa tímabils. Ég er orðinn vanur því hverju leikmennirnir og stjórinn búast við og ég hef aðlagast öllu hér 100%. Vonandi get ég haldið áfram að spila vel og bætt mig enn frekar."
Jermaine bætir við: ,,Ég get aðeins gert mitt besta hverju sinni, en kannski bjuggust stuðningsmennirnir við meira frá mér í byrjun, en ég þurfti alltaf tíma. Að flytja til Liverpool var ný byrjun hjá stóru félagi þannig að það tók mig smá tíma að komast inní hlutina. En ég gafst ekki upp og stjórinn og leikmennirnir höfðu mikla trú á mér."
,,Stjórinn tók mig á eintal og sagði mér hvað ég væri að gera rétt og hvað rangt en hann sagði mér líka að halda áfram að reyna vegna þess að þetta myndi koma fyrir rest. Hann sagði aldrei að hann hefði ekki trú á mér. Hann var alltaf 100% á bakvið mig og þess vegna tókst mér að komast yfir erfiðasta hjallann."
Margir stuðningsmenn benda á frammistöðu Pennants í sigri gegn Chelsea í janúar sem snúningspunktinn. Þar skoraði hann sitt eina mark með liðinu til þessa og var það ekki af verri endanum, viðstöðulaust skot sem fór í slána og inn. Pennant telur hinsvegar að hann hafi verið byrjaður að spila almennilega nokkrum vikum fyrr.
,,Auðvitað var markið gegn Chelsea einn af snúningspunktunum en ég held að gegn Bolton á nýársdag, og nokkrir leikir fyrir Chelsea leikinn hafi verið mikilvægir," segir Pennant. Þeir gáfu mér mikið sjálfstraust og ég hélt áfram að byggja á því það sem eftir var."
,,Það að skrifa undir hjá Liverpool var auðvitað það stærsta í þessu öllu saman vegna þess að maður fer ekki til svona félags ef maður á í vandræðum eða er með hugann við annað. Stjórinn fer í gegnum allt hjá manni og skoðar allt sem tengist manni þannig að hann veit ýmislegt áður en hann kaupir mann."
Pennant, sem stóð sig vel eftir að hann kom inná gegn South China á þriðjudaginn, vonast eftir því að fá fleiri tækifæri til að sýna sig og sanna sem byrjunarliðsmann áður en tímabilið hefst. Liverpool leika við Portsmouth í úrslitaleiknum á þessu móti í Hong Kong á morgun, föstudag.
,,Ég held að ég hafi bætt mig mest í skilvirkni sem og í síðasta boltanum sem fer inní teig. Það er engin ástæða til að hafa hraða og tækni ef maður getur ekki skilað boltanum almennilega frá sér því þá er allt til einskins. Ef maður klárar þetta með góðri sendingu þá er hægt að flokka mann sem góðan leikmann."
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!