| AB

Voronin upp á kant við þjálfarann

Andriy Voronin segist ekki láta vaða yfir sig þrátt fyrir að það gæti komið honum í vandræði.

Voronin kom inná þegar Úkraína lék gegn Ítalíu í gær í riðlakeppni Evrópukeppni landsliða. Hann brást ókvæða við ummælum Oleg Blokhin landsliðsþjálfara síðla leiks og þeir lentu í hörkurifrildi við hliðarlínuna. Blokhin segir að þetta háttalag gæti orðið Voronin dýrkeypt og vandaði honum ekki kveðjurnar: "Hann styrkti okkur ekki mikið þegar hann kom inná og hann var einn þeirra sem átti sök á því að Ítalar skoruðu sigurmarkið. Hann virðist hafa bætt þremur kílóum á sig nýlega. Enginn leikmaður hefur rétt á að svara þjálfara sínum fullum hálsi. Ef hann vill öskra svona getur hann gert það hjá Liverpool og öskrað á Rafa Benítez. Ég bað liðið afsökunar á þessu eftir leikinn því að ég átti einnig sök á þessu atviki. Andriy finnst greinilega ónauðsynlegt að biðjast afsökunar og ef hann heldur uppteknum hætti hef ég engin not fyrir hann í landsliðshópnum."

Voronin segist ekki láta bjóða sér slíka framkomu í sinn garð: "Þetta atvik er ekki til að hreykja sér af en ég er enginn smákrakki. Ég læt ekki neinn valta yfir mig eins og Blokhin gerði."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan