| HI

Rafa ósáttur við leik liðsins

Rafael Benítez er sáttur við úrslit leiksins gegn Porto í gær miðað við gang leiksins. Hann er hins vegar ósáttur við frammistöðu liðsins. Hann segir rauða spjaldið á Jermaine Pennant hafa verið réttan dóm og upplýsti að hann hafi haft í hyggju að skipta honum útaf áður en þetta rauða spjald kom.

"Ég hef ekkert við rauða spjaldið að athuga. Það var rétt ákvörðun. Vonandi mun Jermaine læra af þessu. Kannski hefur þetta jákvæð áhrif til framtíðar, það var algjör óþarfi að tækla í þessari stöðu. Það er erfitt að skilja af hverju hann gerði þetta, við höfðum rætt við hann um að halda sér á jörðinni og fara ekki út í fljótfærnislegar tæklingar. Við vorum meira að segja að ræða það á bekknum að skipta honum út af, en höfðum bara ekki tíma til þess."

Og Benítez var ósáttur við frammistöðu liðsins í fyrri hálfleik.

"Við vorum arfaslakir í fyrri hálfleik, það er ekki hægt að afsaka það. Við byrjuðum mjög, mjög illa og það er erfitt að útskýra af hverju því að undirbúningur okkar fyrir leikinn hafði verið góður.

Það var auðveldara að gera það sem átti að gera í seinni hálfleik, en skaðinn var þegar skeður. Við töpuðum boltanum allt of auðveldlega, við fengum á okkur dauðafæri og gáfum vítaspyrnu sem einnig var rétt ákvörðun.

En síðari hálfleikur var mun betri. Við urðum að sýna karakter og okkur tókst það. Við vorum skipulagðari, vinnslan var góð og það er hægt að taka ýmislegt jákvætt út úr frammistöðunni í seinni hálfleik. Við lékum gegn góðu liði og kvörtum ekki yfir úrslitunum."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan