| Sf. Gutt

Þar kom að því að Rafa varð reiður!

Það er til þess tekið hversu yfirvegaður Rafael Benítez er. Hvort sem vel gengur illa eða vel þá virðist fátt virðist raska ró hans. Finnst sumum að hann mætti sýna meiri tilfinningar. En það kom að því um helgina að Rafa varð reiður. Lucas Leiva segir, í viðtali við Daily Mirror, að stjórinn hafi lesið yfir leikmönnum Liverpool í leikhléinu gegn Havant & Waterlooville. Það var nú líka kannski ástæða til! Staðan var jú jöfn hjá sigursælasta liði enskrar knattspyrnu og utandeildarliðs!

"Rafa lét mörg þung orð falla í hálfleik. Hann sagði okkur umbúðalaust hvað við þyrftum að gera til að bæta leik okkar enda var varnarleikur okkar ekki burðugur þegar við fengum mörkin á okkur. Við vissum að við áttum að vinna leikinn enda erum við í efstu deild og þeir fimm deildum fyrir neðan okkur. Við spiluðum einfaldlega ekki nógu vel í fyrri hálfleik og framkvæmdastjórinn lét okkur vita af því. Hann las okkur pistilinn til að fá okkur til að skilja að við þyrftum að bæta leik okkar og hann sagði að við mættum ekki gera fleiri mistök. Við vissum alveg upp á okkur skömmina að við lékum ekki vel í fyrri hálfleik en við bættum okkur að minnsta kosti eftir leikhlé. Þá lékum við miklu betur og unnum sigur. Nú þurfum við bara að bæta okkur fyrir næsta leik."

Rafael sjálfur gerir þó lítið úr meintum reiðilestri sínum.

"Ég vil nú ekki tala mikið um svona hluti en það var fullur skilningur á því að við þurftum að bæta okkur. Svo einfalt var það nú."

Það er vonandi að eldmessa Rafael Benítez dugi eitthvað þannig að leikmenn Liverpool fari nú að rífa sig upp og leika betur í næstu leikjum. Ekki veitir af!

 





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan