| Sf. Gutt

"Strákurinn" gekk frá Boro!

"Strákurinn" gerir það ekki endasleppt. Í dag skoraði hann þrennu og tryggði Liverpool sigur á Middlesborough. Liverpool lék ekki eins vel og gegn Inter Milan en Fernando gerði gæfumuninn. Sigurinn var gríðarlega mikilvægur því hann kom Liverpool upp í fjórða sætið í deildinni.

Liverpool hóf leikinn nokkuð vel en það voru gestirnir sem náðu forystu á 9. mínútu. Boro fékk aukaspyrnu úti á hægri kanti. Stewart Downing sendi fyrir markið. Tyrkinn Tuncay Sanli stökk upp, einn og yfirgefinn, fyrir framan mitt mark Liverpool og stýrði boltanum í markið. Boltinn fór líklega í öxl hans og í markið en leikmenn Liverpool heimtuðu rangstöðu. Mótmæli þeirra dugðu þó ekkert. Markið sló leikmenn Liverpool alveg út af laginu og leikmenn liðsins voru mjög óöruggir allt þar til jöfnunarmark kom á silfurfati. Á 28. mínútu hugðist Julio Arca skalla aftur til markvarðar síns. Boltinn fór þó beint á Fernando Torres sem lék inn í vítateiginn. Þar lék hann á markvörð Boro og sendi boltann af öryggi í markið. Þarna var lánið með Liverpool því markið var gjöf en það þurfti að klára færið og það gerði Fernando listavel. Hann var þó bara rétt að byrja. Einni mínútu seinna braut Sami Hyypia sókn Boro á bak aftur og í framhaldinu léku leikmenn Liverpool boltanum hratt á milli sín fram völlinn. Fernando fékk boltann frá Fabio Aurelio og hann var ekkert að tvínóna við hlutina heldur þrumaði boltanum í markið af um 25 metra færi. Boltinn hafnaði úti við stöng vinstra megin. Á einni mínútu hafði leikurinn snúist algerlega við. Boro gafst þó ekki upp og Tuncay jafnaði á 35. mínútu eftir fyrirgjöf frá vinstri. Það leit í fyrstu út fyrir að Tyrkinn hefði skallað í mark en dómarinn dæmdi markið af vegna þess að Tuncay hafði notað hendi við verknaðinn. Hárréttur dómur. Það var undarlegt að Tuncay skyldi bara ekki skalla boltann en sem betur fer ákvað hann að nota hendina! Rétt á eftir skoraði Jeremie Aliadiere fyrir Boro eftir gegnumbrot en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Aftur var rétt dæmt. Staðan var því vænleg fyrir Liverpool þegar flautað var til leikhlés. 

Liverpool virtist hafa öll ráð Boro í hendi sér í síðari hálfleik og á 61. mínútu leit allt út fyrir að úrslitin væru ráðin. Dirk Kuyt sendi þá langa sendingu upp að vítateig Boro. Fernando Torres sótti þá að varnarmanni sem virtist hafa boltann á valdi sínu. Skyndilega kom Mark Schwarzer út úr markinu og alla leið út af vítateigslínu. Fernando náði boltanum, lagði hann fyrir sig og í sömu hreyfingu sendi hann boltann í autt markið. Ódýrt mark en "Strákurinn" þakkaði gott boð og var þar með búinn að fullkomna þrennu sína! Frábær afgreiðsla! Það munaði svo litlu að hann skoraði fjórða mark sitt á 68. mínútu. Liverpool náði þá hraðri skyndi sókn og Steven Gerrard sendi á Fernando sem lék inn á teig vinstra megin. Hann þrumaði að marki en mark náði að slá boltann í horn. Gestirnir voru þó ekki af baki dottnir og náðu að minnka muninn á 83. mínútu. Stewart Downing slapp þá upp vinstra megin framhjá Yossi Benayoun og inn á teiginn þar sem hann renndi boltanum undir Jose Reina. Nú gat allt gerst en möguleikar Boro hurfu þó svo til tveimur mínútum síðar þegar Jeremie Aliadiere var rekinn af leikvelli. Hann og Javier Mascherano áttu einhver orð saman. Javier fálmaði framan í Frakkann sem svaraði í sömu mynt. Dómarinn rak Jeremie af velli. Þetta fálm þeirra var ekki neitt en fyrst dómarinn ákvað að lyfta spjaldi má segja að Javier hafi sloppið með skrekkinn. Javier var þó ekki bókaður en kannski sá dómarinn bara hvað Jeremie gerði. Leikurinn fjaraði út og Liverpool hafði sigur. Þetta var dagur Fernando Torres sem fór heim með boltann!

Liverpool: Reina, Finnan, Arbeloa, Hyypia, Aurelio, Kuyt (Riise 73. mín.), Leiva, Mascherano, Babel (Benayoun 62. mín.), Gerrard og Torres (Crouch 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Martin og Skrtel.

Mörk Liverpool: Fernando Torres (28., 29. og 61. mín.)

Gul spjöld: Jose Reina og Steve Finnan.

Middlesbrough: Schwarzer, Young, Wheater, Grounds, Pogatetz, O´Neil (Mido 59. mín.), Rochemback, Arca, Downing, Aliadiere og Sanli (Alves 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Turnbull, Boateng og Hines.

Mörk Middlesborough: Tuncay Sanli (9. mín.) og Stewart Downing (83. mín.).

Rautt spjald: Jeremie Aliadiere.

Gul spjöld: Jeremie Aliadiere, Tuncay Sanli, David Wheater, Fabio Rochemback og Luke Young.

Áhorfendur á Anfield Road: 43.612.

Maður leiksins: Fernando Torres. "Strákurinn" var ef til vill ekki allra besti leikmaður Liverpool í leiknum en það er nú ekki annað hægt en að velja hann. Fernando skoraði öll þrjú mörk Liverpool og mörkin tryggðu mikilvægan sigur! Í hverju marki fyrir sig sýndi hann mismunandi hæfileika sína. Strákurinn er einfaldlega ótrúlegur! 

Álit Rafael Benítez: Ég var mjög ánægður með leikinn Það skiptu mestu að ná sigri í kjölfar á Meistaradeildarleik. Eftir að við skoruðum þriðja markið eftir skyndisókn vorum við líklegir til að skora fleiri mörk. Það var lykilatriði að vinna leikinn og það tókst okkur. Við erum nú komnir í eitt af fjórum efstu sætunum með leik til góða og við erum því í góðri stöðu.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan