Tvö töpuð stig á Villa Park
Liverpool tapaði dýrmætum stigum í toppbaráttunni gegn Aston Villa í kvöld. Darwin Nunez var svo sannarlega ekki hetja kvöldsins, en einhvern veginn læðist að manni sá grunur að hann sofni samt vært í kvöld.
Annars er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið hörkuleikur og það var góð barátta í okkar mönnum allan leikinn. En við fórum illa með tvö upplögð færi, Nunes í lokin og Jota í fyrri hálfleik. Það reyndist dýrt.
Liverpool byrjaði leikinn betur en svo komst Aston Villa aðeins upp á lappirnar, skoruðu ágætt mark á 17. mínútu sem var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Leikurinn var í ágætu jafnvægi þegar Garcia ákvað að setja smá fútt í leikinn og gefa boltann beint á Jota. Portúgalinn rauk inní teig, renndi boltanum á Salah sem lagði hann snyrtilega í þaknetið. Staðan 0-1.
Á 38. mínútu jafnaði Tielemans fyrir Villa. Enn eitt markið sem verður til eftir endalaust klafs og vesen inní teignum. 1-1, áfram gakk.
Mínútu síðar komst Jota í dauðafæri hinum megin en klúðraði því eftirminnilega. Ætlaði að sveigja boltanum framhjá Martinez í fjær en skotið var algjörlega misheppnað og fór 2-3 metra framhjá. Óvanalegt að sjá Jota klikka svona rækilega.
Í uppbótartíma skoraði Watkins svo laglegt skallamark og kom heimamönnum yfir 2-1. Blaut tuska í andlit okkar manna og verulega pirrandi að sjá hann hlaupa frítt inn í miðjan teig til að stanga boltann í netið. Staðan 2-1 í hálfleik.
Liverpool var betra liðið í seinni hálfleik, en Villa minnti reglulega á sig með snörpum skyndisóknum. Rashford var nálægt því að skora á 50. mínútu, eftir smá bras á Alisson, en Konaté var mættur til að bjarga málunum.
Á 60. mínútu átti Jota frábæran snúning og skot sem small í þverslánni, hefði verið verulega sætt að sjá þann bolta örlítið neðar því Martinez var hvergi nærri. En í næstu sókn kom jöfnunarmarkið. Alexander-Arnold skoraði það eftir stoðsendingu frá Salah. Boltinn hafði viðkomu í Digne minnir mig, en var á leið í markið svo Trent fær það skráð á sig.
Á 66. mínútu komu Bradley og Nunez inná fyrir Trent og Jota. Það reyndist ekki heillavænleg skipting. Nunez brenndi af dauðafæri á 69. mínútu og Bradley fór meiddur af velli á 89. mínútu. Hann stóð sig reyndar ljómandi vel fram að því, svo það sé nú sagt.
Á 71. mínútu bjargaði Alisson okkur enn eina ferðina og c.a. 10 mínútum síðar kom síðasta færi Liverpool, en misskilningur milli Nunez og Szoboszlai varð til þess að ekkert kom út úr því.
Maður er drullusvekktur, sérstaklega út í Nunez kallinn. Það er orðið dálítið erfitt að verja hann og maður sér ekki fyrir sér að hann sé framtíðarmaður í þessu liði. Því miður. En það verður samt ekki annað sagt en að þetta hafi verið nokkuð góð frammistaða hjá okkar mönnum. Villa Park er mjög erfiður heimavöllur og Aston Villa tapar varla leik þar, ég held að þeir hafi kannski tapað einum leik þar í vetur. Er ekki viss. Okkar menn lögðu sig að minnsta kosti alla fram.
Liverpool: Alisson, TAA (Bradley á 66. mín., Quansah á 89. mín.), Konaté, Van Dijk, Robertson, Mac Allister (Diaz á 90.mín.), Gravenberch, Szoboszlai, Jones, Salah, Jota (Nunez á 66. mín.).
Ónotaðir varamenn: Kelleher, Tsimikas, Elliot, Endo, Chiesa
Mörk Liverpool: Salah á 29. mín. og Trent Alexander-Arnold á 61. mín.
Maður leiksins: Erfitt að gera upp á milli Mac Allister og Konaté, mér fannst þeir bestir í kvöld. Salah var líka mjög öflugur og Robertson kláraði leikinn með sóma, var óheppinn að fá ekki skráða stoðsendingu.
Margt jákvætt í þessum leik, þótt maður sé hundsvekktur með tvö töpuð stig. Nú mætum við City á sunnudaginn, en þeir töpuðu fyrir Real Madrid í kvöld og eru þar með úr leik í Meistaradeildinni. Það væri ansi hressandi að ná sigri á sunnudaginn - og að sama skapi stressandi að tapa. Endum þetta á þessum djúpu nótum.
YNWA!
-
| Heimir Eyvindarson
Joe Gomez úr leik fram á vor -
| Heimir Eyvindarson
Spáð í spilin - Erfitt verkefni á Villa Park í kvöld -
| Heimir Eyvindarson
Enn eitt metið í hættu í kvöld -
| Sf. Gutt
Sigur í kveðjuleik Jürgen Norbert Klopp! -
| Sf. Gutt
Í minningu Bob Paisley -
| Mummi
Stórviðburður í vændum – Miðasala hafin á árshátíð Liverpoolklúbbsins -
| Sf. Gutt
Yfirlýsing Liverpool félaganna -
| Sf. Gutt
Jafntefli í síðasta leiknum! -
| Sf. Gutt
Frábær árangur á Goodison Park! -
| Sf. Gutt
Síðasti grannaslagurinn á Goodison Park!