| Heimir Eyvindarson

Enn eitt metið í hættu í kvöld

Mo Salah hefur verið duglegur við að slá hin ýmsu met þegar kemur að markaskorun. Í kvöld getur hann slegið met Luis Suarez frá tímabilinu 2013-2014 og færst nær tveimur metum til viðbótar hið minnsta. 

Mo Salah er kominn með 23 mörk í deildinni í vetur, þar af hafa 14 komið á útivelli. Leiktíðina 2013-2014 skoraði Luis Suarez alls 14 mörk á útivelli í deildinni, en engum leikmanni Liverpool hafði þá tekist það í sögu úrvalsdeildarinnar. Í látunum á Goodison Park á dögunum jafnaði Salah árangur Suarez og hefur því þá sex útileiki sem eftir eru til að slá metið. Fyrsti leikurinn af þessum sex er í kvöld, gegn Aston Villa á Villa Park í Birmingham.

Frá því að Salah kom til Liverpool hefur hann skorað 8 mörk í deildinni gegn Aston Villa, þar af 3 á Villa Park.

En það eru fleiri met í hættu, þótt þau muni ekki falla í kvöld og kannski ekki fyrr en á næstu leiktíð - ef við fáum að njóta krafta Salah þá. Hann hefur nú skorað 42 mörk úr vítaspyrnum og er orðinn jafn Jan Mølby á þeim lista, en þarf fimm til viðbótar til að ná Steven Gerrard sem trónir á topnnum með 47 mörk skoruð úr vítum.

Salah hefur sýnt fáheyrt öryggi á punktinum í vetur, markið hans gegn Wolves í síðasta leik var 9. markið hans af vítapunktinum í vetur. Engin vítaspyrna hefur farið forgörðum hjá Egyptanum það sem af er. 

Eitt merkilegt met enn er í augsýn Salah. Hann hefur nú skorað 101 mark á Anfield og er í 3. sæti yfir þá leikmenn í Úrvalsdeild sem hafa skorað flest mörk á einum og sama vellinum. Í 2. sæti er Sergio Aguëro, með 106 mörk á Etihad og á toppnum er Thierry Henry með heil 116 mörk á Highbury. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan