| Grétar Magnússon

Þolinmæði gæti verið lykillinn

Rafa Benítez telur að Liverpool gætu þurft að vera þolinmóðir þegar þeir mæta Arsenal á Anfield á þriðjudaginn í Meistaradeildinni.  Staðan er ágæt eftir 1-1 jafntefli í fyrri leiknum á Emirates leikvanginum.

Benítez segir að það erfiðasta sé að baki eftir að hafa náð mikilvægu útivallarmarki en hann telur þó að Arsenal geti vel borið sigur úr býtum á Anfield.

,,Ég held að það erfiðasta sé að baki, en við berum einnig mikla virðingu fyrir þeim vegna þess að þeir eru með gott lið og verða hættulegir í skyndisóknum," sagði hann.

,,Þeir sýndu það í síðustu umferð, þegar þeir gerðu jafntefli heima gegn AC Milan og sigruðu svo 2-0 á San Siro, að þeir geta unnið á erfiðum útivöllum.  Stuðningsmenn okkar hafa mikilvægu hlutverki að gegna gagnvart okkur.  Það er líklegt að þeir vilji að við sækjum þar sem við erum á heimavelli, en við verðum einnig að vera varkárir vegna þess hvernig þeir spila."

,,Við þurfum á stuðningsmönnunum að halda til að skapa magnað andrúmsloft, en við þurfum einnig á því að halda að þeir verði þolinmóðir.  Ég hef trú á stuðningsmönnum okkar vegna þess að þeir skilja leikinn."

Benítez telur að leikmenn sínir séu ferskir á þessum tímapunkti vegna skiptistefnu sinnar sem hann hefur notað mest allt tímabilið og þar af leiðandi geti leikmennirnir verið í góðu formi það sem eftir er tímabilsins.

,,Ég hef alltaf sagt það að þegar Alex Ferguson hvílir leikmenn sína þá er hann að breyta liðinu, en þegar ég geri það þá er ég að rótera liðinu," sagði Benítez.  ,,Ég útskýrði það fyrr á tímabilinu að ef lið vill vinna bikara þá er mikilvægt fyrir stjórann að nota allan leikmannahópinn.  Ég vildi að við værum á lífi í öllum keppnum."

,,Við getum aðeins unnið Meistaradeildina núna, en við eigum góða möguleika vegna þess að allir leikmennirnir hafa fengið sína hvíld.  Ég hef notað sama hóp leikmanna undanfarið og leikformið hefur verið gott.  Stundum er smá þreyta í mönnum en líkamlega þá er þetta í lagi."

,,Þegar við spiluðum gegn Arsenal í Meistaradeildinnin náðum við góðum úrslitum vegna þess að leikmennirnir voru sívinnandi fram til síðustu mínútu.  Það er vegna þess að leikmennirnir eru ekki of þreyttir þegar kemur að lokum tímabilsins."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan