Liverpool skaut Skytturnar í kaf!
Liverpool skaut Skytturnar í kaf á ótrúlegum lokakafla þriðja þáttar þríleiks liðanna. Liverpool vann 4:2 í mögnuðum leik og komst þar með í undanúrslit Meistaradeildarinnar í þriðja sinn á fjórum árum! Það er næsta víst að þessi magnaða Englandsorrusta verður lengi í minnum höfð. Leiksviðið var Anfield Road og þar skapaðist enn eitt Evrópukvöldið sem fer beinustu leið í þjóðsagnasafn Liverpool F.C.
Rafael Benítez gerði eina breytingu á liði sínu frá Evrópuleiknum í síðustu viku. Peter Crouch kom í byrjunarliðið en Ryan Babel var settur á bekkinn. Skytturnar komu mjög ákveðnar til leiks og leikmenn Liverpool áttu í mestu vandræðum á upphafskafla leiksins. Það kom því ekki á óvart þegar Arsenal náði forystu á 13. mínútu. Emmanuel Adebayor komst upp að markinu vinstra megin. Jose Reina lokaði á hann en vörn Liverpool náði ekki að koma boltanum í burtu. Alexander Hleb fékk svo boltann rétt utan vítateigs og sendi frábæra sendingu inn á vítateiginn. Þar fékk Abou Diaby boltann og þrumaði honum í markið utarlega úr teignum. Jose Reina kom engum vörnum við þótt skotið færi á nærstöngina. Markið vakti leikmenn Liverpool ekki og Arsenal ógnaði af og til með snöggum sóknum. Liverpool kom Arsenal loksins í vandræði á 30. mínútu. Fabio Aurelio sendi inn að markinu frá vinstri. Manuel Almunia sló boltann frá og varnarmaður bjargaði í horn. Steven Gerrard tók hornspyrnuna frá hægri og sendi fyrir markið. Boltinn rataði beint á höfuðið á Sami Hyypia sem skallaði boltann í fjærhornið. Boltann fór í stöng og inn. Glæsilega gert hjá finnsku goðsögninni. Markið vakti leikmenn Liverpool af værum blundi og leikmenn liðsins fóru nú loksins að sýna sitt rétta andlit. Arsenal varð fyrir áfalli undir lok hálfleiksins þegar Mathieu Flamini varð að fara af velli vegna meiðsla. En það var ljóst að Liverpool hafði nú undirtökin.
Liverpool hóf síðari hálfleikinn af krafti og Peter Crouch náði skoti að marki sem Manuel varði. Það gerðist fátt fram eftir hálfleiknum. Liverpool var sterkari aðilinn en færi sköpuðust ekki fyrr en á 69. mínútu. Peter skallaði langa sendingu inn á teignn. Fernando Torres tók við boltanum vinstra megin í teignum. Hann sneri sér snöggt við og lagði boltann fyrir sig á einu augnabliki. Hann þrumaði svo boltanum upp í hornið fjær með glæsilegu skoti. Algjör snilld og þvílíkt skot! Það verður engu logið á "Strákinn." Arsene Wenger skipti fljótlega tveimur sóknarmönnum inn á. Hann vissi sem var að eitt mark myndi koma Arsenal áfram. Á 73. mínútu hefði Emmanuel Adebayor átt að skora. Sending kom inn á vítateiginn en hann stýrði boltanum framhjá þegar hann hefði getað lagt boltann fyrir sig. Algert dauðafæri. Sex mínútum fyrir leikslok hófst einn magnaðasti lokakafli leiks sem sést hefur á Anfield Road. Liverpool sótti þá en gestirnir brutu sóknina á bak aftur. Varamaðurinn Theo Walcott náði boltanum rétt utan síns eigin vítateigs. Hann setti undir sig hausinn og rauk fram völlinn. Hann lék framhjá fjórum leikmönnum Liverpool og inn á vítateiginn. Hann sendi svo boltann fyrir markið á Emmanuel Adebayor sem skoraði af öryggi. Frábær rispa Theo skapaði markið. Nú var staðan sú að Arsenal myndi fara áfram. Stuðningsmenn voru enn að fagna þegar varamaðurinn Ryan Babel lék inn á vítateiginn. Hann féll þar og dómarinn dæmdi vítaspyrnu. Leikmenn Arsenal voru sannfærðir um að dómurinn hefði verið rangur en dæmt var á Kolo Toure. Vissulega var snertingin lítil og gremja leikmanna Arsenal var skiljanleg. Steven Gerrard tók vítaspyrnuna og skoraði af miklu öryggi. Stuðningsmenn Liverpool gengu af göflunum af fögnuði en fylgismenn Arsenal trúði ekki sínum eigin augum. Tveimur mínútum áður leit allt út fyrir að Arsenal hefði tryggt sér áframhald! leikmenn Arsenal reyndu að jafna því jafntefli kæmi liðinu áfram. Tíminn leið og leikmenn Liverpool vörðust grimmilega. Á lokamínútunni var sókn Arsenal brotin á bak aftur. Dirk Kuyt negldi fram á völlinn. Boltinn lenti við miðjuna og þar náði Ryan Babel honum. Hollendingurinn tók á rás upp að marki Arsenal. Cecs Fabregas elti hann en hann hafði ekki roð í Ryan sem lék inn á vítateiginn og renndi boltanum af öryggi í markið fyrir framan The Kop. Nokkrum andartökum seinna var flautað til leiksloka. Allt sprakk af fögnuði af Anfield Road! Evrópuvegferð Liverpool þessa leiktíðina er enn ekki á enda!
Liverpool vann samanlagt 5:3 og mætir Chelsea í undanúrslitum.
Liverpool: Reina, Carragher, Skrtel, Hyypia, Aurelio, Gerrard, Alonso, Mascherano, Kuyt (Arbeloa 90. mín.), Torres (Riise 87. mín.) og Crouch (Babel 78. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje, Voronin, Benayoun og Leiva.
Mörk Liverpool: Sami Hyypia (30. mín.), Fernando Torres (69. mín.), Steven Gerrard, víti (86. mín.) og Ryan Babel (90. mín.).
Arsenal: Almunia, Toure, Gallas, Senderos, Clichy, Eboue (Walcott 72. mín.), Flamini (Silva 42. mín.), Fabregas, Diaby (Van Persie 72. mín.), Hleb og Adebayor. Ónotaðir varamenn: Lehmann, Song, Bendtner og Justin Hoyte.
Mörk Arsenal: Abou Diaby (13. mín.) og Emmanuel Adebayor (84. mín.).
Gul spjöld: Philippe Senderos og Kolo Toure.
Áhorfendur á Anfield Road: 41.985.
Maður leiksins: Sami Hyypia. Finnska goðsögnin átti stórleik eins og svo oft áður á þessari leiktíð. Markið hans var gulli betra því það kom Liverpool inn í leikinn eftir erfiða byrjun. Reyndar telst þetta mark líklega eitt það mikilvægasta á leiktíðinni. Sami stóð svo vaktina í vörninni eins og hans er von og vísa.
Álit Rafael Benítez: Lykillinn að sigrinum var staðfesta leikmannanna. Mér fannst við leika miklu betur í síðari hálfleik en í þeim fyrri. Við lékum mjög illa í fyrri hálfleik en þegar við skoruðum þá fengu leikmenn okkar trú á sjálfa sig og við fórum að sýna hvað í okkur býr. Ég held að nokkrir leikmanna þeirra hafi leikið í úrslitaleiknum fyrir tveimur árum svo þeir búa yfir reynslu en við eigum líka reynda leikmenn. Núna ætla ég að njóta kvöldsins með fjölskyldunni.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC...
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Sky...
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Fox sport...
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!