Stórsigur nyrðra
Eftir þrjú jafntefli í röð hrökk Liverpool í gang gegn Rangers í höfuðstað Skotlands. Mörkunum rigndi í sólinni og Liverpool vann stórsigur 4:0 fyrir troðfullum velli áhorfenda.
Heimamenn byrjuðu betur og þeir Lee McCulloch og Kenny Miller ógnuðu marki Liverpool á upphafskaflanum. Hvorugur hitti þó markið. Leikmenn Liverpool fóru svo að færa sig upp á skaftið. Yossi Benayoun komst í færi eftir að hafa leikið á fimm leikmenn Rangers en varnarmaður bjargaði á síðustu stundu. Liverpool komst svo yfir á 23. mínútu. Damien Plessis hamraði þá boltann að marki. Allan McGregor varði en hélt ekki boltanum. Fernando Toirres var vel vakandi í teignum og skoraði af stuttu færi. Þetta mark skildi liðin að í leikhléi. Liverpool gat þó þakkað Andrea Dossena það en hann bjargaði á marklínu undir lok hálfleiksins frá Nacho Novo.
Rangers hóf síðari hálfleikinn vel og Diego Cavalieri mátti hafa sig allan við að verja frá Jean Claude Darcheville á 50. mínútu. Liverpool jók á hinn bóginn forystuna á 56. mínútu. Varamaðurinn David Ngog fékk þá boltann á miðjum vallarhelmingi Rangers. Þaðan tók hann á rás og lék á einn mótherja og jafnvel fleiri áður en hann skoraði með þrumuskoti neðst í markhornið. Glæsileg rispa hjá Frakkanum unga og ekki amalegt að skora svona mark í sínum öðrum leik. Fjórum mínútum síðar skoraði Liverpool aftur. Krisztian Nemeth, sem var nýkominn inn sem varamaður, átti þá gott skot sem markvörður Rangers hélt ekki. Yossi, sem átti mjög góðan leik, hirti frákastið og skilaði boltanum í markið af stuttu færi. Sigur Liverpool var nú öruggur en hann átti eftir að vera enn stærri. Á 70. mínútu var brotið á Krisztian inni í vítateig. Xabi Alonso tók vítaspyrnuna og skoraði af miklu öryggi. Frábær sigur á tvöföldum bikarmeisturum Skotlands sem léku sinn fyrsta alvöruleik á leiktíðinni fyrr í vikunni. Reyndar gerðu þeir þá aðeins 0:0 jafntefli við Kaunas frá Litháen á heimavelli en 4:0 sigur á Ibrox getur aldrei talist annað en magnaður sigur og vel það.
Liverpool: Cavalieri (Reina, 62. mín.), Arbeloa (Darby, 46. mín.), Carragher (Hyypia, 46. mín.), Skrtel (Agger, 46. mín.), Dossena, Kuyt, Plessis (Alonso, 46. mín.), Gerrard (Spearing, 58. mín.), Benayoun (Pennant, 71. mín.) (Insua, 58. mín.), Keane (Nemeth, 58. mín.) og Torres (Ngog, 46. mín.).
Maður leiksins samkvæmt Liverpoolfc.tv: Yossi Benayoun.
Áhorfendur á Ibrox: 50.223.
Helsta heimild: Liverpoolfc.tv.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
Álit Rafael Benítez: Við sýndum frá upphafi að við vildum leika vel og leggja gott lið að velli. Bæði lið lögðu hart að sér í fyrri hálfleik en við náðum að halda boltanum vel og spila hratt. Við skoruðum eitt mark en þó við ættum í vandræðum undir lok hálfleiksins þá réðum við gangi mála í fyrri hálfleik. Fyrri hálfleikurinn var opnari og þá var auðveldara að láta boltann ganga.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!