Markalaust á Villa Park
Liverpool sótti stig til Birmingham í tíðindalitlum leik. Fátt gerðist markvert en hart var barist. Liverpool lék ekki ýkja vel frekar en í öðrum leikjum á leiktíðinni en náði stigi á erfiðum útivelli. Liverpool hefur nú jafnmörg stig og Chelsea í efsta sæti þegar hlé hefst vegna landsleikja.
Rafael Benítez skellti báðum Kínaförunum inn í byrjunarliðið og tóku þeir stöður á miðjunni. Augu flestra beindust að Gareth Barry sem var í búningi Aston Villa en líklega hefur Rafael viljað að hann væri í gráum búningi! Leikurinn var ákaflega tíðindalítill framan af og fyrsta marktilraunin kom ekki fyrr en eftir tuttugu mínútur. Lucas Leiva átti þá skot sem fór lengst upp í stúku. Stuðningsmönnum Liverpool brá í brún fimm mínútum síðar þegar Fernando Torres haltraði af leikvelli eftir að hafa tognað aftan í læri. Liverpool spilaði einum færri næstu fimm mínúturnar en ekki var hægt að skipta inn manni fyrr því boltinn fór ekki út af. David Ngog komst loks inn á til að spila sinn fyrsta leik með Liverpool. Á 35. mínútu opnaðist vörn Liverpool illa og John Carew fékk boltann í dauðafæri í miðjum teignum. Jose Reina var vel á verði og varði með fæti. Frábær markvarsla hjá afmælisbarninu. Liverpool endaði hálfleikinn vel. Á 40. mínútu fékk Dirk Kuyt boltann hægra megin í teignum eftir fyrirgjöf frá vinstri en skot hans fór í hliðarnetið. Rétt á eftir lagði Robbie Keane boltann fyrir fætur David Ngog en skot hans fór rétt yfir.
Liverpool hóf síðari hálfleikinn af krafti og á 52. mínútu sendi Robbie á Xabi Alonso sem átti fast skot sem fór í varnarmann og yfir. Mínútu síðar sendi Andrea Dossena fasta sendingu fyrir markið. Brad Friedel tók enga áhættu og sló boltann yfir. Eftir þetta róaðist leikinn. En á 73. mínútu gerðist umdeild atvik. Javier Mascherano sendi þá frábæra sendingu inn fyrir vörn Villa. Robbie Keane náði boltanum og óð einn upp að vítateignum. Einn leikmanna Villa var þá búinn að ná honum og náði að tryfla hann í skotinu. Boltinn fór framhjá en Robbie lá eftir. Leikmenn Liverpool töldu að brotið hefði verið á Robbie en dómarinn dæmdi ekkert. Hugsanlega hefði átt að dæma eitthvað en það var erfitt að sjá hvað gerðist. Líklega gerði dómarinn rétt í að dæma ekkert. Aston Villa náði góðum leikkafla undir lokin. Á 85. mínútu átti Daninn Martin Laursen skalla rétt framhjá eftir aukaspyrnu. Leiktíminn rann út og niðurstaðan var sanngjörn. Líklega er þó Gareth Barry feginn að þessi leikur er frá!
Aston Villa: Friedel, L. Young (Milner 64. mín.), Laursen, Davies, Shorey (Gardner 79. mín.), Reo-Coker, Petrov, Barry, A. Young, Carew og Agbonlahor. Ónotaðir varamenn: Guzan, Harewood, Knight, Salifou og Routledge.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Dossena, Kuyt (Aurelio 70. mín.), Alonso, Mascherano, Leiva, Keane (Benayoun 79. mín.) og Torres (Ngog 30. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Agger, Babel og El Zhar.
Gul spjöld: Martin Skrtel og Andrea Dossena.
Áhorfendur á Villa Park: 41.647.
Maður leiksins: Javier Mascherano. Ólympíumeistarinn var gríðarlega sterkur á miðjunni hjá Liverpool og gaf ekki tommu eftir. Það var ekki að sjá að hann væri þreyttur eftir Kínaferðina.
Maður leiksins samkvæmt Liverpoolfc.tv: Javier Mascherano.
Rafael Benítez: Mér fannst þetta erfiður leikur. Við hefðum getað unnið hann en við hefðum líka getað tapað honum. En þegar upp er staðið geta bæði lið vel við unað að hafa fengið eitt stig.
Fróðleiksmoli: Liverpool hefur nú leikið fimmtán leiki í röð gegn Aston Villa án þess að tapa.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
-
| Sf. Gutt
Áramótakveðjur! -
| Sf. Gutt
Verðum að skrifa okkar eigin sögu! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Virgil van Dijk -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum