Tími til kominn!
Liverpool sýndi mikinn styrk með því að leggja Manchester United að velli á Anfield Road um hádegisbilið í dag. Liverpool sneri tapstöðu sér í hag og vann magnaðan og sætan sigur. Þetta var fyrsti deildarsigur Liverpool gegn Manchester United á heimavelli frá því í nóvember 2001. Það var því ekki að undra að stuðningsmenn Liverpool skyldu fagna í sólinni þegar flautað var til leiksloka!
Báðir framkvæmdastjórarnir tefldu nýju mönnunum sínum fram í þessum mikilvæga leik. Albert Riera var í liði Liverpool og það sama má segja um Dimitar Berbatov í liði gestanna. Þeir Steven Gerrard og Fernando Torres voru á hinn bóginn á varamannabekknum hjá Liverpool. Leikmenn Liverpool virtust ekki vera vaknaðir í góða veðrinu þegar leikurinn hófst. Strax í byrjun átti Dimitar skot sem fór í höndina á Martin Skretel og það hefði vissulega verið hægt að dæma vítaspyrnu. Liverpool slapp þó ekki á 3. mínútu og aftur var það Dimitar sem gerði usla í vörn Liverpool. Hann fékk boltann hægra megin í teignum og lék upp að endamörkum. Þar sendi hann boltann til baka út á Carlos Tevez og Argentínumaðurinn sendi boltann af öryggi út í hægra hornið frá vítateignum. Vörn Liverpool var galopin og Javier Mascherano lék vinn sinn sleppa frá sér þannig að hann fékk frítt skot. Leikmenn Liverpool voru alveg slegnir út af laginu fyrst á eftir markinu og útlitið var langt frá því gæfulegt. En liðið hresstist þó smá saman.
Á 12. mínútu fékk Liverpool hornspyrnu frá hægri sem Fabio Aurelio sendi fyrir. Ewdin Van der Sar kom út úr markinu en missti boltann yfir sig. Dirk Kuyt fékk boltann við fjærstöngina en náði ekki föstu skoti og landi hans var kominn á svæðið og náði að verja. Það vart hert tekist á og stuðningsmenn Liverpool höfðu áhuga á að fá vítaspyrnu þegar hart var sótt að Albert Riera inni í vítateignum. Spánverjinn var mjög sprækur á vinstri kantinum og notaði hvert tækifæri til að herja á vörn gestanna. Á 27. mínútu dró verulega til tíðinda. Xabi Alonso átti þá skot, utan teigs hægra megin, sem hrökk í höndina á Patrice Evra sem var inni á teignum. Boltinn hrökk svo fyrir markið í átt að Wes Brown sem Albert sótti að. Edwin kom æðandi út úr markinu og hugðist bægja hættunni frá með því að slá boltann í burtu. Það tókst ekki betur til en svo að hann sló boltann í sköflunginn á Wes og af honum rúllaði boltinn í markið! Algjör gjöf hjá vörn Manchester United en henni var vel tekið á Anfield Road! Strax í næstu sókn munaði litlu að Carlos kæmi United aftur yfir en hann mokaði boltanum yfir úr góðu færi í teignum. Fátt gerðist meira markvert fram að leikhléi og liðin voru jöfn þegar það kom.
Leikmenn Liverpool voru nú glaðvaknaðir og þeir komu gríðarlega ákveðnir til leiks í síðari hálfleik. Liverpool átti skæðar sóknir og varnarmenn United urðu að vera vel vakandi. Á 56. mínútu komst Yossi Benayoun inn á vítateiginn eftir góða sendingu frá Robbie Keane en færið var þröngt og Edwin náði að verja. Rétt á eftir átti Javier skot utarlega úr teignum vinstra megin en boltinn fór framhjá markinu. Þar vantaði mann inn á teig til að stýra boltanum í markið. Liverpool hafði nú öll völd en það vantaði að koma boltanum í markið. Á 68. mínútu var Steven Gerrard skipt inn á fyrir Yossi. Hann var greinilega smá tíma að átta sig og litlu síðar missti hann boltann til Ryan Giggs sem líka kom inn sem varamaður. Veilsverjinn var snöggur að átta sig og skaut góðu bogaskoti að marki. Jose Reina var hins vegar vel á verði og sló boltann yfir. Þetta var í fyrsta sinn sem gestirnir ógnuðu í seinni hálfleiknum. Nýliðinn Albert fór af velli á 71. mínútu og stuðningsmenn Liverpool klöppuðu honum verðskuldað lof í lófa því hann sóð sig sannarlega vel í frumraun sinni. Ryan Babel leysti Spánverjann af hólmi.
Það var svo á 77. mínútu sem Liverpool náði að skora markið sem liðið verðskuldaði. Javier Mascherano reyndi þá að leika upp að endamörkum vinstra megin. Hann virtist vera að missa boltann og Ryan Giggs ætlaði að láta boltann rúlla aftur fyrir endamörk en Javier hafði aðrar hugmyndir. Hann renndi sér á boltann og sópaði honum út í teiginn. Þar fékk Dirk, sem átti stórleik, boltann. Hann leit upp og sá landa sinn Ryan Babel á auðum sjó úti í teignum. Dirk sendi hánákvæma sendingu út á Ryan sem skaut að marki. Skotið virtist ekki heppnast fullkomlega því boltinn fór í jörðina en það var hið besta mál því við þetta sveif boltinn hárnákvæmt framhjá Edwin og varnarmönnum United og í markið! Auðvitað gerðist þetta allt fyrir framan The Kop! Stuðningsmenn Liverpool gengu af göflunum af fögnuði og skyldi engan undra! Rétt á eftir hefði United átt að missa manna af velli þegar Nemanja Vidic felldi Robbie Keane sem var að sleppa einn í gegn. Hann slapp með gult spjald. Liverpool hafði öll tök til leiksloka og gestirnir náðu ekkert á ógna. Vörnin var svo styrkt þegar Sami Hyypia leysti hinn óþreytandi Javier af hólmi á 87. mínútu. Rétt áður ætlaði Rafael að skipta Robbie af velli og setja David Ngog inn á en hætti við á síðustu stundu þegar Javier varð fyrir meiðslum. Á lokamínútunni fékk Nemanja sitt annað gula spjald og var vikið af velli eftir að hafa keyrt harkalega á Xabi í loftbardaga. Liverpool átti svo að skora þriðja markið þegar Ryan Babel lék Wes upp úr skónum uppi við endamörkin og sendi fyrir markið á Dirk en Edwin náði að verja af stuttu færi. Verðskulduðum sigri Liverpool varð ekki ógnað og stuðningsmenn Liverpool fögnuðu gríðarlega þegar yfir lauk. Það var svo sannarlega tími til kominn að leggja Manchester United að velli. Ekki spillti gleðinni að Liverpool fór í efsta sætið!
Liverpool verðskuldaði sannarlega þennan sæta sigur. Ekkert virtist ætla að ganga, frekar en í síðustu rimmum liðanna, þegar meistarararnir náðu að komast yfir snemma leiks. En leikmenn Liverpool bitu í skjaldarrendur og sneru leiknum sér í hag af mikilli ákveðni. Frábær sigur sem vonandi gefur liðinu góðan skammt af sjálfstrausti fyrir komandi leiki!
Liverpool: Reina, Arbeloa, Skrtel, Carragher, Aurelio, Benayoun (Gerrard 68. mín.), Alonso, Mascherano (Hyypia 87. mín.), Riera (Babel 71. mín.), Kuyt og Keane. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Dossena, Torres og Ngog.
Mörk Liverpool: Wes Brown, sm. (27. mín.) og Ryan Babel (77. mín.).
Manchester United: Van der Sar, Brown, Ferdinand, Vidic, Evra, Rooney, Scholes (Hargreaves 66. mín.), Carrick (Giggs 46. mín.), Anderson (Nani 78. mín.), Tevez og Berbatov. Ónotaðir varamenn: Kuszczak, Evans, O´Shea og Fletcher.
Mark Manchester United: Carlos Tevez (3. mín.).
Rautt spjald: Nemanja Vidic.
Gul spjöld: Carlos Tevez, Nemanja Vidic, Luis Nani.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.192.
Maður leiksins: Ryan Babel. Hollenski strákurinn spilaði ekki nema í nítján mínútur eftir að hafa komið inn sem varamaður. Einhverjir aðrir leikmenn Liverpool léku kannski betur en hann kom mjög ákveðinn til leiks og fór strax að herja á vörn gestanna. Svo skoraði hann sigurmarkið í leiknum! Vegna þess var Ryan maður leiksins! Rökrétt ekki satt?
Maður leiksins samkvæmt Liverpoolfc.tv: Javier Mascherano.
Rafael Benítez: Þetta var virkilega góður sigur. Við fengum á okkur mark snemma leiks en við sýndum mikinn styrk og vorum betri aðilinn gegn sterkum mótherjum. Við lögðum hart að okkur í síðari hálfleik og vorum betra liðið á vellinum. Sigurinn var mjög mikilvægur fyrir sjálfstraust leikmannanna og við vitum að við getum lagt hvaða lið sem er að velli.
Fróðleiksmoli: Þetta var 50. deildarsigur Liverpool á Manchester United.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
Hér eru myndir úr leiknum af Fox Sport.
Sigurmarkinu fagnað:-)
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni