Gerrard spilar, Torres í hópnum
Rafa Benítez staðfesti það í dag að Steven Gerrard muni spila gegn Preston í FA bikarnum á morgun. Fleiri gleðifréttir bárust því Fernando Torres verður í leikmannahópnum.
Benítez var á sínum fyrsta blaðamannafundi síðan hann jafnaði sig eftir nýrnasteinaaðgerðina og sagði hann: ,,Steven er í góðu lagi, hann hefur verið að æfa eins og vant er. Ég sagði í yfirlýsingunni minni að ég hefði rætt við hann. Ég styð hann 100 prósent. Það besta fyrir okkur er að hann einbeitir sér að knattspyrnunni, æfir vel og mun spila á morgun."
,,Allir hafa stutt hann. Við vitum hvað gekk á og það er ljóst að þetta er mjög sérstök staða en við verðum að styðja hann vegna þess að við treystum honum."
Benítez var spurður að því hvort Gerrard væri andlega tilbúinn til þess að spila og svaraði hann: ,,Hann mun spila, það þýðir fyrir mér að hann er tilbúinn. Hann er mjög góður atvinnumaður. Hann mun aðeins hugsa um fótbolta. Vonandi mun hann skora mörk, spila eins vel og hann hefur áður gert og þá munu allir tala um leikinn."
Benítez var spurður útí val sitt á byrjunarliðinu fyrir leikinn við Preston og hvort Fernando Torres yrði tiltækur eftir að hafa misst af síðustu sjö leikjum. ,,Ég mun tefla fram sterku liði og við munum reyna að halda áfram góðri spilamennsku okkar," sagði hann. ,,Kannski mun ég breyta einhverju en við munum engu að síður hafa mjög sterkt lið úti á vellinum."
,,Gerrard er að spila vel og hann hefur ekki spilað of marga leiki - hann var meiddur í byrjun tímabilsins. Þetta er ekki eins og með Dirk Kuyt, sem hefur spilað hvern einasta leik. Það sama gildir um Torres, sem hefur verið meiddur. Hann og Gerrard hafa ekki spilað alla leiki þannig að þeir geta spilað. Torres verður í hópnum. Ef við þurfum á honum að halda þá getur hann spilað. Hann er ekki 100 prósent klár vegna þess að hann er ekki kominn í nógu gott leikjaform. En hann er tilbúinn."
Einnig hafa þeir Fabio Aurelio og Martin Skrtel jafnað sig af meiðslum og segir Benítez að það sé eins og að hafa keypt þrjá nýja leikmenn að fá þá tvo og Torres til baka.
,,Þeir hafa staðið sig vel áður þannig að þetta verður eins og að kaupa þrjá nýja leikmenn," sagði Benítez. ,,Þeir eru nokkuð ódýr kaup því við þurfum ekki að eyða krónu í þá !"
Benítez var spurður hvort hann myndi kaupa einhverja leikmenn í janúarglugganum, hann svaraði því þannig: ,,Ef við þurfum á einhverjum að halda þá munum við reyna. En við erum í góðri stöðu og reynum að nota þá leikmenn sem við eigum nú."
Benítez bætti svo við að hann taldi FA Bikarinn mjög mikilvæga keppni fyrir Liverpool á tímabilinu.
Hann sagði: ,,Við munum reyna að komast áfram. FA Bikarinn er stórkostleg keppni fyrir okkur og við munum reyna að komast á Wembley. Þetta verður erfitt. Preston eru að gera vel í deildinni og við vitum að það er nóg hvatning fyrir menn að spila á móti Liverpool. Við vitum að þetta verður ekta bikarleikur."
Neil Mellor mun mæta sínum gömlu félögum en hann skoraði sex mörk í 21 leik fyrir félagið, Benítez sagði: ,,Mellor var góður leikmaður hjá okkur. Hann skoraði frábær mörk gegn Olympiacos og Arsenal. Það voru mikilvæg mörk. Hann er góður í að klára færin sin og hann getur skorað þau mörg - vonandi ekki í bikarkeppninni, heldur deildinni."
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!