| Grétar Magnússon

Hefjum vikuna með stæl

Rafa Benítez vill að leikmenn sínir byrji vikuna með því að komast aftur á topp úrvalsdeildarinnar með sigri á Everton á Anfield í kvöld.

Manchester United komust á topp deildarinnar með naumum sigri á Bolton um helgina og þó svo að Benítez segist ekki hafa miklar áhyggjur stöðu deildarinnar um þessar mundir segir hann að það verði mjög gott fyrir sjálfstraustið ef Liverpool kemst á toppinn að nýju.

,,Ég veit að það verður kannski smá taugaspenna í andrúmsloftinu vegna frábærrar stöðu okkar í deildinni," sagði Benítez.  ,,En það eina sem ég get sagt nú er að í ágúst vorum við ekki að hugsa um að vinna deildina í janúar.  Við verðum að vera rólegir, megum ekki missa stjórn á okkur, tökum einn leik í einu og í maí gæti verið að við séum í stöðu til að vinna titilinn."

,,Við viljum reyna að ná þremur stigum út úr öllum leikjum sem við eigum eftir og viljum byrja í kvöld gegn Everton.  Staðan í deildinni hefur ekki mikið að segja núna, en fyrir sjálfstraust leikmannana er klárlega betra að vera á toppnum.  Þar vil ég helst vera."

,,Við búumst við erfiðum leik gegn Everton vegna þess að þeir eru að spila vel um þessar mundir.  Þeir eru ekki að fá á sig mörk, þeir eru að skora og spila vel.  Við sigruðum þá á Goodison fyrr á tímabilinu en ég held að það verði erfiðara í kvöld."

Benítez segir að menn sínir verði að spila betur en gegn Stoke um síðustu helgi ef þeir ætli sér sigur gegn erkifjendunum.

,,Við spiluðum ekki vel gegn Stoke en maður verður að muna að það er erfitt að spila við þá á þeirra heimavelli," bætti Benítez við.  ,,Arsenal töpuðu þarna, Villa töpuðu þarna, þannig að maður sér að þetta er ekki auðvelt.  Þeir hafa náð í 18 af 21 stigi á heimavelli."

,,En að því sögðu, þá spiluðum við ekki vel.  Þennan dag var vörnin, miðjan, sóknin og allt starfsliðið ekki nógu gott.  Við þurfum að bæta okkur en gæðin eru til staðar og sjálfstraustið líka, vonandi getum við staðið okkur fyrir framan okkar eigin stuðningsmenn í kvöld og unnið leikinn."

,,Það er sérstök vika framundan vegna þess að það er ekki eðlilegt að maður spili tvo leiki í röð gegn erkifjendunum, en það er stórkostlegt fyrir stuðningsmennina og ennþá betra ef við vinnum báða leikina."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan