Fernando Torres kláraði Chelsea!
Fernando Torres kláraði Chelsea með tveimur mörkum undir lokin á Anfield Road í dag. Liverpool lék sinn besta leik í langan tíma og vann 2:0 sannfærandi og sanngjarnan sigur. Þetta var fyrsti deildarsigur Liverpool á þessu ári og vonandi kemur hann liðinu í gang á nýjan leik í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.
Leikmenn Liverpool komu gríðarlega ákveðnir til leiks í snjókomunni á Anfield Road í dag og það var ljóst að nú átti að vinna sigur hvað sem það kostaði. Á 11. mínútu átti Xabi Alonso skot utan teigs sem Petr Cech sló yfir mark sitt. Á 19. mínútu náði Javier Masherano föstu skoti fyrir utan teig. Petr varði en missti boltann sem hrökk út í teig. Því miður var enginn leikmaður Liverpool á svæðinu til að taka frákastið. Á 32. mínútu fékk Fernando Torres boltann í teignum. Hann sneri sér við og náði skoti en Brasilíumaðurinn Alex henti sér fyrir boltann og bjargaði. Vörn Chelsea var geysilega sterk en Lundúnaliðið reyndi lítið að sækja. Á 42. mínútu náði Albert Riera föstu skoti sem Petr varði. Tékkinn hélt ekki boltanum sem hrökk í Ashley Cole og af honum rúllaði boltinn framhjá auðu markinu. Ekkert hafði verið skorað þegar flautað var til leikhlés og gátu leikmenn Chelsea vel við þá stöðu unað.
Hafi Liverpool verið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik þá herti liðið enn tökin í þeim seinni. Hver sóknin rak aðra í átt að Kop markinu og Chelsea komst varla fram fyrir miðju löngum stundum. Á 53. mínútu náði Fernando skoti en Alex komst fyrir skot hans. Þremur mínútum seinna lék Alvaro Arbeloa inn á teiginn en laust skot hans fór beint á Petr. Á 60. mínútu gerðist umdeilt atvik. Frank Lampard renndi sér þá fyrir Xabi á miðjum vellinum. Hann sparkaði boltanum í burtu en fór svo í Xabi sem lá eftir. Dómarinn, sem var vel staðsettur, rak Frank umsvifalaust af velli. Leikmenn Chelsea urðu óðir yfir því ranglæti sem þeir töldu sig vera beitta en leikmenn Liverpool kvörtuðu ekki! Dómurinn var þó vissulega harður.
Gangur leiksins breyttist svo sem ekkert við þetta því Liverpool hélt bara áfram að sækja. Á 68. mínútu átti Xabi skot sem fór í Alex. Boltinn breytti um stefnu og virtist stefna í markið en hann fór í þverslána og Petr blakaði honum svo yfir. Chelsea átti loks marktilraun þegar stundarfjórðungur var eftir. Salomon Kalou átti þá skot úr teignum sem fór beint á Jose Reina sem átti náðugt síðdegi í markinu. Yossi Benayoun hafði rétt áður komið inn sem varamaður og hann lét vel að sér kveða og færði aukinn hraða í sóknina. Á 80. mínútu átti hann hörkuskot utan teigs sem Petr varði í horn. Þremur mínútum seinna var skallaði frá marki Chelsea. Yossi fékk boltann og þrumaði að marki en boltinn strauk þverslána og fór yfir. Illur grunur fór að læðast að stuðningsmönnum Liverpool um að enn eitt jafnteflið yrði að veruleika en svo fór sem betrur fer ekki!
Mínútu fyrir leikslok sótti Liverpool enn og aftur. Steven Gerrard sendi út til vinstri á Fabio Aurelio. Brasilíumaðurinn leit upp og sendi svo frábæra sendingu fyrir markið. Við markteigshornið nær náði Fernando Torres að skjóta sér fram fyrir Alex og skalla boltann í markið. Glæsilegur skalli og allt gekk af göflunum á Anfield Road innan vallar sem utan! Fernando var umkringdur af félögum sínum í fagnaðarlátunum og Jose Reina gerði sér ferð fram völlinn til að taka þátt í fögnuðinum fyrir framan The Kop! Nú var ekki slegið af og á lokamínútunni átti Steven fast skot utan teigs sem Petr varð að hafa sig allan við að slá yfir. Öðrum leikmanni Chelsea hefði svo átt að vera vikið af velli þegar José Bosingwa sparkaði í bakið á Yossi þegar Ísraelsmaðurinn skýldi boltanum úti við hornfána! Línuvörðuinn stóð við hliðina á þeim þegar þetta gerðist. Ótrúlegt atvik! Fimm mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og það var komið fram í þann tíma þegar Liverpool gulltryggði sigurinn. Martin Skrtel Hreinsaði þá fram völlinn. Dirk Kuyt vann skallaeinvígi uppi við vítateig Chelsea. Ashley Cole fékk boltann en Yossi rændi boltanum af honum og rauk inn í vítateiginn. Ashley elti Yossi og renndi sér fyrir hann. Hann náði að sparka boltanum frá honum en ekki tókst betur til en svo að boltinn fór beint á Fernando Torres sem var í miðjum teig fyrir miðju marki. "Stráknum" varð ekki skotaskuld úr því að renna boltanum í markið. Aftur magnaðist upp mikill fögnuður í Musterinu og langþráðum sigri var vel fagnað! Nú verður bara að fylgja þessum magnaða sigri eftir með því að komast á sigurbraut og gera atlögu að meistaratitlinum það sem eftir lifir leiktíðar! Nú er tækifærið!
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Aurelio, Kuyt, Alonso, Mascherano (Babel 83. mín.), Riera (Benayoun 74. mín.), Gerrard og Torres (Ngog 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Dossena, Agger og Lucas. Ónotaðir varamenn: Mascherano, Alonso, Gerrard og Arbeloa.
Mörk Liverpool: Fernando Torres (89. og 90. mín.).
Gul spjöld: Javier Mascherano, Xabi Alonso, Steven Gerrard og Alvaro Arbeloa.
Chelsea: Cech, Bosingwa, Alex, Terry, Ashley Cole, Ballack, Mikel, Lampard, Kalou (Stoch 85. mín.), Anelka (Drogba 69. mín.) og Malouda (Deco 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Hilario, Ivanovic, Ferreira og Mancienne.
Rautt spjald: Frank Lampard.
Gul spjöld: Ashley Cole, John Obi Mikel og John Terry.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.174.
Maður leiksins: Fernando Torres. Spánverjinn barðist vel í sókninni allan leikinn. Hann gerði svo út um leikinn með tveimur mörkum í blálokin. Frábærlega gert hjá Fernando sem þarna skoraði mörk sem gætu reynst þau mikilvægustu á leiktíðinni.
Rafael Benítez: Við uppskárum verðskuldaðan sigur með því að skora undir lok leiksins. Við vorum betra liðið. Þetta var mjög mikilvægur sigur. Ég sagði fyrir leikinn að það væri enn mikið eftir og það hefur ekkert breyst. Við erum í góðri stöðu og það er mikið eftir af leiktíðinni.
Fróðleiksmolar: - Liverpool er í öðru sæti í deildinni. - Þetta var fyrsti deildarsigur Liverpool á þessu ári. - Fernando Torres hefur nú skorað átta mörk á þessari leiktíð. - Fyrir þennan leik hafði Fernando Torres ekki skorað mark á Anfield Road á þessari leiktíð. - Liverpool vann Chelsea í báðum deildarleikjunum á þessari leiktíð. Það hefur ekki gerst frá því á leiktíðinni 1989/90 þegar Liverpool varð síðast Englandsmeistari!
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni