| Sf. Gutt

Ótrúlegur sigur!

Liverpool vann síðbúinn og ótrúlegan útisigur á Portsmouth. Liverpool lenti tvívegis undir en herjaði fram 3:2 sigur á lokamínútunni og komst með honum á topp deildarinnar.

Rafael Bénítez kom öllum í opna skjöldu með liðsuppstillingu sinni á Fratton Park. Hann stillti upp þriggja manna vörn og setti ungliðann David Ngog einan í sóknina. Fjórir eða fimm fastamenn voru á bekknum og stuðningsmenn Liverpool vissu varla hvað sneri upp eða niður. Heimamönnum hefur gengið illa upp á síðkastið en þeir fengu fyrsta færið í leiknum eftir fimm mínútur en Jose Reina varði af öryggi frá Peter Crouch sem náði skoti úr teignum. Nokkrum mínútum seinna sendi Alvaro Arbeloa góða sendingu inn á vítateiginn á Yossi Benayoun. Hann var í góðu færi við markteiginn en hitti boltann ekki vel og skotið fór í hliðarnetið. Á 11. mínútu fékk Liverpool aukaspyrnu rétt utan teigs. Fabio Aurelio, sem átti mjög góðan leik, skaut góðu skoti framhjá varnarveggnum en boltinn strauk stöngina og fór framhjá. Um miðjan hálfleikinn átti Javier Mascherano hörkuskot utan teigs sem David James varði í horn. Liverpool réði lengst af gangi mála í hálfleiknum en lék þó ekki vel og ekkert hafði verið skorað þegar flautað var til hálfleiks.

Liverpool hafði áfram undirtökin eftir leikhlé en það virtist ekkert ætla að ganga að skora. Heppnin var svo með Liverpool á 55. mínútu þegar Daniel Agger hitti ekki boltann eftir fyrirgjöf. Hann féll við og boltinn fór í hönd hans en dómarinn dæmdi sem betur fer ekki neitt. Fjórum mínútum seinna hefði Liverpool svo átt að ná forystu. Jose Benayoun lék frábærlega á tvo varnarmenn Pompey og sendi svo út til hægri á varamanninn Dirk Kuyt sem leysti David Ngog af hólmi snemma í hálfleiknum. Hann renndi boltanum fyrir markið á landa sinn Ryan Babel en hann hitti ekki boltann fyrir opnu marki af stuttu færi. Ótrúlegt var að hann skyldi ekki skora.

Þetta kom heldur betur í bakið á Liverpool því á 62. mínútu skoruðu heimamenn. Peter Crouch laumaði þá boltanum inn fyrir vörn Liverpool. David Nugent fékk boltann og lék inn á teiginn þar sem hann renndi honum framhjá Jose og í markið. Fagnaði David tryllingslega enda mikill stuðningsmaður Everton! Heimamenn nutu forystunnar ekki lengi því á 69. mínútu náði Liverpool að jafna og átti Peter Crouch drjúgan þátt í því. Hann fékk boltann úti á kanti þar sem sótt var að honum. Hann ákvað að senda boltann aftur á David í markinu. Sendingin tókst ekki nógu vel því Yossi elti boltann og David varð að bægja hættunni frá með því að handleika boltann. Dómarinn mat sendinguna frá Peter viljandi og dæmdi því óbeina aukaspyrnu í miðjum teignum. Heimamenn stilltu sér allir upp fyrir framan mark sitt og ljóst var að erfitt yrði að koma boltanum frmhjá skaranum. Xabi Alonso, sem kominn var til leiks, renndi boltanum á Fabio sem hamraði hann neðst í hægri hornið. Frábært mark hjá Brasilíumanninum sem þarna náði að hitta svo til eina auða blettinn á marki heimamanna! Liverpool setti nú meiri kraft í leik sinn og virtist hafa náð forystu, á 76. mínútu, þegar Dirk fékk stungusendingu sem hann afgreiddi í markið framhjá David. Dómarinn dæmdi þó markið af vegna rangstöðu. Var það rangur dómur! Rafael setti taldi nú rétt að setja Fernando Torres inn á. Það voru þó bikarmeistararnir sem komust aftur yfir. Nadir Belhadj sendi aukaspyrnu fyrir markið frá hægri. Í miðjum vítateignum náði Hermann Hreiðarsson að skalla boltann að marki. Boltinn fór í jörðina og skoppaði framhjá Jose sem misreiknaði boltann eftir að hann fór í jörðina. Allt gekk nú af göflunum af fögnuði hjá heimamönnum. Allt stefndi í tap Liverpool en annað varð uppi á teningnum á ótrúlegum lokakafla.

Á 82. mínútu virtist Yossi vera kominn á auðan sjó en David kom út úr markinu og bjargaði með góðu úthlaupi. Þremur mínútum seinna náði Liverpool svo að skora. Fernando Torres slapp þá inn í teig hægra megin eftir mistök Sylvain Distan. Hann lék svo upp að endamörkum og sendi út í teiginn á Dirk Kuyt. Hann lék laglega á Sylvian og þrumaði svo boltanum upp í hornið nær úr þröngu færi við markteigshornið án þess að David kæmi nokkrum vörnum við. Frábært mark hjá Hollendingnum og fyrsta mark hans frá því í nóvember gat ekki komið á betri tíma! Leikmenn Liverpool reyndu nú allt sem þeir gátu til að herja fram sigur. Komið var fram á lokamínútuna þegar það tókst. Javier fékk þá boltann í teignum og sendi hann út til vinstri á Yossi. Ísraelsmaðurinn náði hárnákvæmri fyrirgjöf við endamörkin sem rataði beint á höfuðið á Fernando Torres sem skallaði fast að marki frá markteignum. David hafði hendur á boltanum en gat ekki komið í veg fyrir að hann hafnaði upp í þaknetinu. Stuðningsmenn Liverpool, sem voru fyrir aftan markið, trylltust af fögnuði þegar þeir sáu boltann liggja í markinu og það gerðu leikmenn Liverpool líka. Mögnuð endurkoma var hér með fullkomnuð og markið hans Fernando kom Liverpool í efsta sæti deildarinnar. Ótrúlegur sigur svo ekki sé meira sagt!

Portsmouth: James, Johnson, Campbell, Distin, Hreiðarsson, Basinas, Davis, Mullins (Kranjcar 46. mín.), Belhadj, Crouch og Nugent. Ónotaðir varamenn: Begovic, Lauren, Mvuemba, Pamarot, Kanu og Gekas.

Mörk Portsmouth: David Nugent (62. mín.) og Hermann Hreiðarsson (78. mín.).

Gult spjald: Hermann Hreiðarsson.

Liverpool: Reina, Carragher, Skrtel, Agger, Dossena (Alonso 67. mín.), Arbeloa, Mascherano, Aurelio, Babel (Torres 76. mín.), Ngog (Kuyt 56. mín.) og Benayoun. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Hyypia, Riera og El Zhar.

Mörk Liverpool: Fabio Aurelio (69. mín.), Dirk Kuyt (85. mín.) og Fernando Torres (90. mín.).

Áhorfendur á Fratton Park: 20.524.

Maður leiksins: Dirk Kuyt. Hollendingurinn kom mjög sterkur til leiks sem varamaður og bætti sóknarleik Liverpool til mikilla muna. Hann skoraði tvívegis en annað markið var ranglega dæmt af. Jöfnunarmark hans var alveg magnað en það var ekki síður mikilvægt því það lagði grunn að þessum ótrúlega sigri Liverpool.

Rafael Benítez: Ég hafði trú á sigri því liðið sýndi mikinn skapstyrk og ætlaði sér sigur. Liðið býr yfir miklum skapstyrk og það er mikið sjálfstraust í því. Við verðskulduðum að vinna leikinn því við lögðum hart að okkur og spiluðum vel. Svona stundir gefa liðinu mikið í þeirri baráttu sem framundan er.

Fróðleiksmolar: - Liverpool er í fyrsta sæti í deildinni. - Fabio Aurelio skoraði fyrsta mark sitt á leiktíðinni. - Dirk Kuyt skoraði sitt áttunda mark á leiktíðinni. - Fernando Torres skoraði sitt níunda mark á leiktíðinni. - Fernando skoraði þarna sitt þriðja mark á einni viku. Öll hafa þau komið á síðustu tveimur mínútum leikja. - Jamie Carragher lék sinn 560. leik með Liverpool. - Fernando lék sinn 70. leik með Liverpool. Hann hefur skorað 42 mörk í þessum leikjum. - Liverpool vann Portsmouth í báðum deildarleikjunum á þessari leiktíð.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan