| Grétar Magnússon

Hléið kom á góðum tíma

Rafael Benítez segir að leikmenn sínir hafi notið góðs af því að vera í fríi frá knattspyrnu í smá tíma en liðið spilaði síðast leik þann 7. febrúar.  Leikmennirnir fengu t.a.m. frí frá æfingum um síðustu helgi.

Fram að leiknum við Portsmouth 7. febrúar var liðið búið að leika marga leiki á stuttum tíma, m.a. vegna þess að endurtaka þurfti leikinn við Everton í FA Bikarnum.  Benítez hvetur sína menn til að taka upp þráðinn frá því sem frá var horfið gegn Mark Hughes og hans mönnum á sunnudagin.

,,Hvíldin var okkur góð," sagði Benítez.  ,,Við höfðum spilað of marga leiki í röð og það var því mikilvægt fyrir leikmennina að fá hvíld og njóta þess að vera með fjölskyldum sínum.  Við þurfum að vera klárir fyrir mikilvægar vikur framundan."

,,Leikurinn við City er stórleikur og við verðum því að einbeita okkur að honum og undirbúa okkur vel.  Þeir eru að skora mikið af mörkum en þeir fá einnig á sig slatta en þeir eru klárlega hættulegt lið.  Þeir eru með góða leikmenn eins og t.d. Robinho og Bellamy þannig að við þurfum að passa okkur á þeim sóknarlega."

Manchester United hafa nú leikið jafn marga leiki og Liverpool og forysta þeirra er 5 stig.  Þeir gætu verið komnir með 8 stiga forystu þegar Liverpool spilar sinn leik því United spila við Blackburn á laugardaginn kemur.  Benítez segir engu að síður að nóg sé eftir í kapphlaupinu um titilinn.

,,Við viljum auðvitað ekki tapa stigum og við reynum að vinna hvern einasta leik," bætti Benítez við.  ,,Maður veit ekki hvað mun gerast.  Maður getur tapað stigum einn daginn og nokkrum vikum síðar tapa önnur lið líka stigum.  Við verðum bara að halda áfram, hugsa um næsta leik og stigin þrjú, það er það eina sem við getum gert."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan