| Grétar Magnússon

Svekkjandi jafntefli

Liverpool náði aðeins stigi í dag gegn Manchester City á Anfield.  Sjötta jafnteflið á heimavelli er staðreynd og liðið færist fjær efsta sætinu.

Fyrir leikinn var ljóst að þeir Xabi Alonso og Steven Gerrard myndu ekki spila, sá fyrrnefndi vegna leikbanns en sá síðarnefndi vegna meiðsla.  Þrátt fyrir að vera án þessara tveggja sterku miðjumanna byrjaði Liverpool leikinn mun betur og voru sterkara liðið í fyrri hálfleik.  Nokkur hálffæri sköpuðust til að byrja með en þegar Liverpool fengu hornspyrnu á 22. mínútu héldu margir að boltinn væri á leiðinni í netið því hann datt inní markteig þar sem Dirk Kuyt og Albert Riera reyndu að koma boltanum á markið en því miður náðu varnarmenn City að bægja hættunni frá á síðustu stundu.

Um miðjan fyrri hálfleik sóttu leikmenn City hratt upp völlinn í skyndisókn, boltinn barst hægra megin í teiginn á Stephen Ireland sem átti slakt skot beint á Pepe Reina í markinu, Ireland fékk svo boltann aftur en skaut þá í hliðarnetið.  Þarna slapp Liverpool með skrekkinn og Ireland hefði svo sannarlega átt að gera betur.

Undir lok hálfleiksins fékk svo Albert Riera gott tækifæri á vítateigsjaðrinum eftir sendingu frá Fernando Torres en hann hitti ekki markið og boltinn fór hárfínt framhjá.  Fátt meira markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og staðan var því markalaus þegar Phil Dowd flautaði til loka hans.

Leikmenn Manchester City komu mun líflegri til leiks í seinni hálfleik og voru grimmari en leikmenn Liverpool í öllum návígjum.  City komu sér nokkrum sinnum í góða stöðu á vallarhelmingi Liverpool og í eitt skiptið barst sending inná teig á Vincent Kompany, sem var líklega rangstæður en línuvörðurinn sá ekki ástæðu til að flagga, hann kom boltanum út á Craig Bellamy sem skaut að marki.  Boltinn fór í Alvaro Arbeloa og tók þaðan góðan snúning í fjær hornið framhjá Reina sem kom engum vörnum við.  Markið staðreynd og Bellamy sá ekki mikla ástæðu til að fagna því.

Það tók heimaliðið næstum 20 mínútur að jafna sig eftir þetta mark og voru leikmenn City nánast líklegri til að skora annað mark heldur en Liverpool að jafna.  T.a.m. var mark réttilega dæmt af Stephen Ireland vegna rangstöðu en þó virtist það varla duga til að vekja leikmenn Liverpool af værum blundi.

Þegar leið á seinni hálfleikinn fór þó aðeins að lifna yfir liðinu og Yossi Benayoun skeiðaði upp vinstri kantinn 12 mínútum fyrir leikslok, náði sendingu fyrir markið þar sem Fernando Torres hitti boltann illa en sem betur fer barst boltinn til Dirk Kuyt sem gat lítið annað en potað boltanum í markið.

Rafa Benítez sendi svo Ryan Babel inná fyrir Javier Mascherano og nú átti að sækja til að ná sigurmarkinu, fyrr í hálfleiknum hafði Nabil El Zhar komið inná fyrir Albert Riera.  Dirk Kuyt komst næst því að skora sigurmarkið er hann átti skot fyrir utan teig en Shay Given varði vel.  Kuyt átti svo aftur skot hægra megin úr teignum framhjá markinu og þá er nánast upptalið þau tækifæri sem sköpuðust eftir jöfnunarmarkið.

Niðurstaðan er því enn eitt jafnteflið á heimavelli á tímabilinu og virðist það ætla verða liðinu að falli líkt og á síðasta tímabili.  Liðið hefur nú gert 10 jafntefli í 26 leikjum og því miður er það ekki nógu gott ef liðið ætlar sér að berjast um meistaratitilinn.

Liverpool: Reina, Dossena (Aurelio 76. mín), Carragher, Skrtel, Arbeloa, Riera (El Zhar 63. mín), Mascherano (Babel 83. mín), Leiva, Benayoun, Torres, Kuyt. Varamenn:  Hyypia, El Zhar, Babel, Ngog, Cavalieri, Aurelio, Spearing.

Mark Liverpool:  Dirk Kuyt (78. mín.).

Gult spjald:  Nabil El Zhar.
 
Manchester City: Given, Bridge, Dunne, Onuoha, Richards, Ireland, Kompany, De Jong, Zabaleta, Robinho (Caicedo 88. mín), Bellamy. Varamenn:  Vassell, Hart, Blumer, Weiss, Caicedo, Evans, Garrido.

Mark Manchester City:  Craig Bellamy (49. mín.).

Gul spjöld:  Richard Dunne og Vincent Kompany.

Áhorfendur á Anfield:  44.259.

Dómari:  Phil Dowd.

Maður leiksins:  Dirk Kuyt.  Kyut skoraði í sínum öðrum deildarleik í röð og var mun líklegri til að skora heldur en félagi hans í sókninni, Fernando Torres.  Að venju barðist hann vel fyrir liðið og skilaði sínu en því miður dugði það ekki til að þessu sinni.

Rafael Benítez:  ,,Þetta er ekki búið en við erum í erfiðari stöðu.  Ég hef trú á því að við getum unnið Middlesboro og Sunderland í næstu leikjum og þá gæti staðan verið öðruvísi.  Ef við ætlum okkur að minnka bilið þá verðum við að vinna næstu leiki og svo United í kjölfarið.

Fróðleiksmolar:  Fabio Aurelio kom inná sem varamaður og spilaði sinn 50. leik fyrir liðið í Úrvalsdeildinni.  Craig Bellamy gerði fyrrum liðsfélögum sínum skráveifu með því að skora og var það ekki í fyrsta sinn á þessu tímabili sem hann skorar gegn sínum gömlu félögum í Úrvalsdeildinni.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan