Tap á Riverside
Annað tap liðsins í deildinni leit dagsins ljós í dag gegn Middlesboro á Riverside leikvanginum. Allt gekk liðinu í mót og fjölmörg ágæt færi fóru forgörðum.
Rafa Benítez stillti upp sterku byrjunarliði en ljóst var fyrir leikinn að þeir Fernando Torres og Alvaro Arbeloa yrðu ekki með vegna meiðsla. Martin Skrtel fékk það hlutverk að leysa hægri bakvarðastöðuna á meðan Sami Hyypia var í miðri vörninni ásamt Jamie Carragher. Nabil El Zhar lék í fyrsta sinn í byrjunarliðinu í deildinni á tímabilinu og Ryan Babel byrjaði einnig. Steven Gerrard var svo aftur með eftir næstum mánaðar fjarveru frá byrjunarliðinu vegna meiðsla.
Liverpool byrjaði betur í leiknum og eftir átta mínútur var Nabil El Zhar kominn í gott færi en skot hans var ekki nógu gott og Brad Jones í marki Middlesboro varði ágætlega. Stuttu síðar fékk Dirk Kuyt svo gott færi eftir sendingu frá Fabio Aurelio frá vinstri en ágætt skot hans var vel varið. Þriðja færið á þessum stutta tíma féll í skaut Ryan Babel sem hitti boltann ekki nógu vel og enn varði Jones. Steven Gerrard og Xabi Alonso áttu svo báðir langskot sem ekki ógnuðu marki heimamanna mikið.
Heimamenn vöknuðu aðeins til lífsins eftir því sem leið á hálfleikinn og Pepe Reina varði vel frá Gary O´Neil. Boro fengu svo hornspyrnu á 31. mínútu og Xabi Alonso varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Þetta mark kom þvert gegn gangi leiksins og heimamenn máttu prísa sig sæla með að vera komnir yfir. Það sem meira var þá var þetta fyrsta mark þeirra í deildini síðan 10. janúar og þurftu þeir mikla hjálp við að skora það. Fátt markvert meira gerðist í hálfleiknum og heimamenn gengu því kátir til búningsherbergja.
Síðari hálfleikur hófst eins og sá fyrri og hefði Nabil El Zhar átt að jafna leikinn er Gerrard sendi fyrir frá vinstri en Marokkóbúinn skaut yfir markið af aðeins 10 metra færi, sannarlega illa farið með gott færi þarna. Eftir því sem leið á hálfleikinn reyndu leikmenn Liverpool að brjótast í gegn til að ná jöfnunarmarki en það gekki illa og virtust leikmenn vera orðnir pirraðir á stöðu mála.
Það var svo ekki til að bæta ástandið þegar Middlesboro komust í 2-0 með marki frá Tuncay Sanli á 63. mínútu. Dirk Kuyt klúðraði svo dauðafæri stuttu síðar og þar með var Liverpoolmönnum orðið ljóst að þetta var ekki þeirra dagur. Pepe Reina bjargaði svo því að Middlesboro skoruðu ekki sitt þriðja mark er hann varði vel frá Marlon King. Middlesboro höfðu aðeins skorað 18 mörk í deildinni fram að þessum leik og það hefði verið hreint ótrúlegt ef þeim hefði tekist að skora þrjú mörk gegn Liverpool.
Steven Gerrard fékk svo högg og þurfti að fara af leikvelli þegar 15 mínútur voru til leiksloka. Leikurinn fjaraði smám saman út og lauk með 2-0 sigri heimamanna, sem höfðu ekki unnið leik í deildinni í síðustu 14 tilraunum ! Fréttir bárust svo af sigri Chelsea sem þýddi að Liverpool situr nú í þriðja sæti deildarinnar, 7 stigum á eftir Manchester United. Sannarlega dagur mikilla vonbrigða hjá Rafa Benítez og hans mönnum.
Middlesboro: Jones, Pogatetz, Wheater, Huth, Hoyte, Downing, Arca, Bates, O'Neil, Aliadiere, Sanli. Varamenn: Turnbull, Johnson, Emnes, King, Alves, Walker og Taylor.
Mörk Middlesboro: Xabi Alonso (sjálfsmark 31. mín.) og Tuncay Sanli (63. mín.).
Gul spjöld: Tuncay Sanli og Matthew Bates.
Liverpool: Reina, Carragher (Benayoun 71. mín.), Hyypia, Skrtel, Aurelio, Alonso, Mascherano, Kuyt, Gerrard (Leiva 76. mín.), Babel og El Zhar (Ngog 68. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Dossena, Riera og Darby.
Áhorfendur á Riverside leikvanginum: 33.724.
Dómari: Rob Styles.
Maður leiksins: Fyrirliðinn Steven Gerrard gerði það sem hann gat til að drífa sína menn áfram en algjört andleysi virtist einkenna leik liðsins.
Rafael Benítez: ,,Staðan var erfið fyrir leikinn og er mun erfiðari núna. Við sjáum til hvað gerist gegn Sunderland og reynum að bæta okkur en þetta er í höndunum á United núna. Ég mun ekki segja mikið en það er ljóst að við áttum nokkur góð færi á fyrstu 20 mínútum leiksins og maður verður að nýta þau ef maður vill vinna leiki. Við áttum í smá vandræðum, leikmenn voru þreyttir og aðrir meiddust en við fengum tækifæri og stjórnuðum leiknum fyrsta hálftímann. Middlesboro gerðu vel í síðari hálfleik."
Fróðleiksmolar: - Liverpool er í þriðja sæti deildarinnar. - Þetta var aðeins annað deildartap Liverpool á leiktíðinni. - Liverpool hefur ekki unnið á Riverside leikvanginum síðan 2002.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
-
| Sf. Gutt
Áramótakveðjur! -
| Sf. Gutt
Verðum að skrifa okkar eigin sögu! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Virgil van Dijk -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum