Liverpool kjöldróg Real Madrid!
Liverpool lék sinn besta leik á leiktíðinni og kjöldróg Real Madrid í seinni leik liðanna í Meistaradeildinni. Liverpool fór algjörlega á kostum og vann 4:0. Sigurinn hefði reyndar getað verið enn stærri. Liverpool vann 5:0 samanlagt og er komið í átta liða úrslit í keppninni.
Hefðu einhverjir haldið að Liverpool ætlaði að halda fengnum hlut eftir 1:0 sigur í Madríd þá sáu þeir sömu strax að það stóð ekki til. Leikmenn Liverpool mættu gríðarlega ákveðnir til leiks og stefnan var greinilega sú að gera endanlega út um rimmuna og það sem allra fyrst! Strax á 3. mínútu sendi Steven Gerrard sendingu upp að vítateig Real. Þar tók Fernando Torres við boltanum og skildi Ítalann Fabio Cannavaro eftir með stórkostlegri hreyfingu. Fernando komst inn á teig og hugðist renna boltanum neðst í hornið en Iker Casillas varði frábærlega í horn. Upp úr horninu tókst Real ekki að hreinsa. Javier Mascherano náði boltanum rétt utan teigs og þrumaði að marki. Boltinn stefndi upp upp í þaknetið en Iker varði meistaralega með því að slá boltann í þverslá og þaðan fór hann yfir markið. Stórkostleg byrjun og segja má að mark frá Liverpool hafi legið í loftinu.
Markið skilaði sér á 16. mínútu. Jose Reina hóf sókn með því að senda á Jamie Carragher. Jamie þrumaði boltanum hátt fram að vítateig Real. Fernando stökk upp með varnarmanni Real og vann boltann. Varnarmaður náði ekki að koma boltanum frá sem fór út til hægri á Dirk Kuyt. Hollendingurinn renndi boltanum þvert fyrir markið þangað sem Fernando var kominn og honum urðu ekki á nein mistök þegar hann sendi boltann í markið af miklu öryggi fyrir framan stuðningsmenn Real Madrid. Ekki spillti það gleði Fernando, sem fyrrum leikmanns Atletico Madrid, að hann skyldi skora gegn Real! Leikmenn Real mótmæltu því þeir töldu að Fernando hefði brotið á Pepe en staðreyndin var sú að hann snerti varla varnarmanninn þegar þeir börðust um boltann.
Yfirburðir Liverpool voru algerir og fimm mínútum seinna átti Martin Skrtel skalla sem Iker gerði vel í að verja. Á 23. mínútu náði Liverpool frábærri sókn. Fernando fékk boltann vinstra megin í teignum. Hann hrasaði en stóð eldsnöggt upp, skildi varnarmann eftir og sendi fyrir markið. Þar kom Steven í miðjum teignum og renndi sér á boltann en Iker varði enn einu sinni. Á 28. mínútu kom næsta mark. Sending kom yfir á teiginn til hægri frá Xabi Alonso. Alvaro Arbeloa tók boltann á brjóstið og af honum hrökk boltinn í upphandlegginn á Gabriel Heinze. Dómarinn dæmdi vítaspyrnu en Gabriel mótmæti mjög. Litlu mátti muna hvort boltinn færi í upphandlegg eða öxl en dómurinn stóð þótt harður væri. Steven Gerrard tók vítaspyrnuna og skoraði af miklu öryggi framhjá Iker sem fór í rangt horn. Yfirburðir Liverpool voru sem fyrr algerir og liðið lék alveg frábærlega. Jose Reina sýndi líka að hann vel vakandi þegar Real fékk aukaspyrnu vel utan teigs. Wesley Sneijder tók aukaspyrnuna en Jose varði frábærlega í horn. Stuðningsmenn Liverpool voru alveg í skýjunum þegar flautað var til hálfleiks og sannast sagan hefði Liverpool getað verið fjörum eða fimm mörkum yfir.
Ekki byrjaði Liverpool síðari hálfleikinn síður en þann fyrri. Eftir tveggja mínútna leik fékk Ryan Babel boltann úti á vinstri kanti. Hann tók góðan sprett og sendi svo góða sendingu fyrir markið. Í miðjum teig tók Steven Gerrard við boltanum á lofti og hamraði boltann í markið án þess að Iker kæmi nokkrum vörnum við. Frábært mark! Á 51. mínútu sendi Sergio Ramos fyrir mark Liverpool. Raul var á undan Jose að boltanum en hann skaut yfir. Þremur mínútum síðar endaði glæsilegur samleikur Liverpool með því að Steven átti hörkuskot utan teigs sem Iker varði frábærlega. Liverpool slakaði heldur á klónni í framhaldinu en Real náði aldrei að ógna marki Liverpool verulega. Á 82. mínútu fékk Fernando boltann utarlega í vítateignum hægra megin. Hann náði góðu skoti sem stefndi í fjærhornið en Iker varði glæsilega með því að slá boltann framhjá.
Liverpool átti samt eftir að ná einu marki í viðbót þegar tvær mínútur voru eftir af þessum magnaða leik. Liðið náði þá góðri sókn upp hægra megin. Uppi við vítateiginn renndi Ryan boltanum út til hægri á Javier. Argentínumaðurinn sendi hárnákvæma sendingu fyrir á varamanninn Andrea Dossena sem renndi boltanum í markið fyrir miðju marki. Fyrsta mark Ítalans fyrir Liverpool og markið kórónaði stórkostlegan leik Liverpool og stórsigur á spænska stórliðinu. Real Madrid hugði á hefndir, þegar liðin drógust saman, fyrir úrslitaleikinn um Evrópubikarinn 1981 þegar Liverpool vann 1:0. Ekkert varð úr hefndum og þessi sýning Liverpool á Anfield Road verður lengi í minnum höfð!
Liverpool: Reina, Arbeloa, Skrtel, Carragher, Aurelio, Alonso (Leiva 60. mín.), Mascherano, Kuyt, Gerrard (Spearing 74. mín.), Babel og Torres (Dossena 83. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Hyypia, Ngog og Kelly.
Mörk Liverpool: Fernando Torres (16. mín), Steven Gerrard (28. mín. víti og 47. mín.) og Andrea Dossena (88. mín.).
Gul spjöld: Steven Gerrard, Javier Mascherano og Andrea Dossena.
Real Madrid: Casillas, S. Ramos, Cannavaro (Van der Vaart 64. mín.), Pepe, Heinze, Robben (Marcelo 46. mín.), Diarra, Gago (Guti 77. mín.), Sneijder, Raul og Higuain. Ónotaðir varamenn: Dudek, Saviola, Metzelder og M. Torres.
Gul spjöld: Pepe, Gabriel Heinze og Marcelo.
Áhorfendur á Anfield Road: 42.550.
Maður leiksins: Fernando Torres. Þessi magnaði Spánverji var alveg rosalegur í leiknum. Varnarmenn Real Madrid réðu ekkert við hann og hann hefði getað skorað fleiri mörk en það eina sem hann skoraði. Hann skóp það mark að stórum hluta sjálfur og það var alveg ótrúlegt að sjá hann fífla varnarmenn Real hvað eftir annað. Svo kom hann aftur á völlinn hvað eftir annað til að hjálpa til. Stórkostleg framganga hjá ,,Stráknum."
Rafael Benítez: Já, ég veit að fólk á Spáni heldur að lið sem ég stjórna spili ekki sóknarleik. Þeir hinir sömu ættu að taka eftir þessum úrslitum og þeim 119 mörkum sem við skoruðum á síðustu leiktíð. Þetta sannar að álit þessara er ekki rétt. Við erum efstir á styrkleiklista evrópskra liða og það er mjög ánægjulegt að vinna svona sigur gegn jafn mögnuðu félagi og Real Madrid. Við spiluðum mjög vel frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og ég gleðst mjög fyrir hönd stuðninsmanna okkar. Þeir Fernando Torres og Steven Gerrard léku mjög vel. Ég vil þó ekki taka einn eða tvo leikmenn út og hrósa þeim. Allir menn okkar léku mjög vel.
Fróðleiksmolar: - Liverpool vann 4:0 og sló Real Madrid út samanlagt 5:0. - Fernando Torres skoraði tíunda mark sitt á leiktíðinni. - Steven Gerrard skoraði tvívegis og hefur nú skorað seytján mörk á keppnistímabilinu. - Andrea Dossena skoraði sitt fyrsta mark fyrir Liverpool. - Steven Gerrard lék sinn 100. Evrópuleik fyrir Liverpool. - Aðeins Jamie Carragher hefur leikið fleiri Evrópuleiki með Liverpool. Hann hefur leikið 113. - Steven hélt áfram að bæta Evrópumarkamet sitt. Hann hefur nú skorað 32 Evrópumörk fyrir Liverpool - Xabi Alonso lék sinn 200. leik með Liverpool. - Fjórir Spánverjar voru í byrjunarliði Liverpool.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni