| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Brosið hefur ekki farið af andlitum stuðningsmanna Liverpool síðustu dagana og skyldi engan undra. Í síðustu tveimur leikjum hafa Real Madrid og Manchester United legið í valnum og það steinlegið. Liverpool hefur skorað átta mörk gegn þessum stórliðum og aðeins eitt hefur verið skorað á móti. Það er því ekki að undra að stuðningsmenn Liverpool séu glaðir þessa dagana.

Sigur Liverpool á Old Trafford um síðustu helgi gaf Liverpool möguleika á að ná Manchester United í kapphlaupinu um Englandsmeistaratitilinn. Manchester United hefur enn öll spil á hendi og Liverpool verður að treysta á að United verði nokkrum sinnum á til loka leiktíðar. Það er þó ekki nóg að United verði á því Liverpool verður helst að vinna hvern einasta leik sem eftir er og það er ekki einu sinni víst að það dugi til. En á meðan nokkur von er þá verða leikmenn og stuðningsmenn Liverpool að halda í vonina. Sigur gegn Aston Villa á sunnudaginn héldi voninni lifandi og vonandi tekst að draga á United um helgina. Ekki má svo gleyma Chelsea því Lundúnaliðið er líka með í baráttunni um titilinn þennan og aðra til. Hver verður þó að huga að sínu og það gildir um Liverpool jafnt og hin liðin.

Fróðleiksmolar...

- Liverpool er í þriðja sæti deildarinnar á eftir Manchester United og Chelsea.

- Liverpool hefur unnið þrjá síðustu leiki sína.

- Í þeim leikjum hefur liðið skorað tíu mörk.

- Aston Villa hefur unnið einn af síðustu sex deildarleikjum sínum.

 - Liverpool hefur skorað minnst eitt mark í sjö af síðustu átta deildarleikjum sínum.

- Jose Reina hefur haldið hreinu í sjö af síðustu tíu deildarleikjum Liverpool á Anfield Road.

- Jose Reina hefur haldið marki sínu hreinu 99 sinnum fyrir Liverpool.

- Þeir Jose Reina, Jamie Carragher og Dirk Kuyt hafa leikið alla deildarleiki Liverpool á leiktíðinni. Þeir eru einu leikmenn Liverpool sem hafa gert það.

- Liverpool vann sinn 100. deildarleik undir stjórn Rafael Benítez þegar liðið vann Manchester United 4:1 á Old Trafford um síðustu helgi.

- Steven Gerrard er markahæsti leikmaður Liverpool á leiktíðinni með 18 mörk.

- Tíu af þeim mörkum hafa komið í deildinni.

- Tveir fyrrum leikmenn Liverpool eru í liði Aston Villa. Þetta eru þeir Brad Friedel og Emile Heskey. Brad kemur til með að leika sinn 182. deildarleik í röð sem er met eftir að Úrvalsdeildin var stofnsett.

- Síðasti deildarleikur liðanna á Anfield Road. 21. janúar 2008. Liverpool : Aston Villa 2:2. Mörk Liverpool: Yossi Benayoun (19. mín.) og Peter Crouch (88. mín.). Mörk Aston Villa: Marlon Harewood (69. mín.) og Fabio Aurelio, sm., (72. mín.).

Spá Mark Lawrenson

Liverpool v Aston Villa

Nú er allt í sóma á Anfield. Liðið hefur unnið þrjá frábæra sigra í röð. Það komst áfram í Meistaradeildinni, kom sér inn í baráttuna um titilinn og framkvæmdastjórinn er nýbúinn að skrifa undir nýjan samning. Aftur á móti hefur verið mótvindur hjá Villa. Liðinu hefur gengið illa í síðustu leikjum, það gengur illa að skora og hvort sem menn trúa því eða ekki þá bauluðu stuðningsmenn liðsins á liðið sitt í síðustu viku. Mér finnst það alveg ótrúlegt að slíkt hafi gerst því liðið hefur átt fínt keppnistímabil. Með allt þetta í huga þá spái ég Liverpool sigri.

Úrskurður: Liverpool v Aston Villa 2:0.

 

 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan