| Sf. Gutt

Ákveðin skilaboð!

Jamie Carragher segir að Liverpool hafi sent helstu keppinautum sínum um Englandsmeistaratitlinn ákveðin skilaboð með því að vinna stórsigur á Aston Villa um helgina.

"Sigurinn sendi ákveðin skilaboð til United og Chelsea. Við þurfum ekkert að efast um að þar á bæ hafa menn fylgst með leiknum. Við vitum alveg að þó að við höfum skorað svona mörg mörk gegn Real Madrid og Manchester United þá náum við ekki að gera það í hverri viku. Þess vegna var það frábært afrek að skora fimm mörk gegn Villa. Tap United gegn Fulham hefði ekki komið okkur að miklu gagni ef við hefðum tapað stigum gegn Villa. En við náðum að færa okkur tap þeirra í nyt og leikmenn United vita núna að þeir þurfa að berjast fyrir deildartitlinum."

Fyrir nokkrum vikum virtist sem Liverpool væri búið að missa af Englandsmeistaratitlinum. Liverpool hafði leitt deildina í rúman mánuð en missti niður forskot sitt og vildu sumir meina að leikmenn liðsins þyldu ekki álagið sem fylgir því að leiða deildina. Nú er liðið aftur komið í baráttuna og Jamie telur að leikmenn Liverpool muni núna geta ráðið við spennuna.

"Við höfum þroskast og erum nú vanari öllu því sem þarf að fást við í titilbaráttunni. Við vorum á toppnum fyrr á leiktíðinni en réðum kannski ekki alveg nógu vel við álagið, sem því fylgdi, því við höfum ekki reynslu af því að vera í þeirri stöðu. Ég hugsa að við höfum af og til lent í erfiðleikum fyrr á leiktíðinni vegna þessa reynsluleysis. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að titillinn er enn í höndum Manchester United en við ætlum okkur að setja eins mikla pressu á þá í titilbaráttunni og við mögulega getum."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan