| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Brosið hefur ekki farið af andlitum stuðningsmanna Liverpool síðustu vikurnar. Ástæðan er sú að liðið þeirra á möguleika á að vinna Englandsmeistaratitilinn. Þennan möguleika höfðu margir stuðningsmenn liðsins afskrifað í síðasta mánuði. Eftir góða sigra og hagstæð úrslit í síðustu leikjum er bjartsýni ríkjandi. Það er þó fullljóst að Liverpool á mikið verk óunnið áður en titilinn eftirsótti gæti unnist. Manchester United er enn með öll spil á hendi. En það sem veldur bjartsýninni hjá stuðningsmönnum Liverpool er sú staðreynd að vonin um titilinn lifir. 

Landsliðsmenn Liverpool snúa nú heim eftir erfiða leiki og ströng ferðalög. Liverpool nær efsta sæti deildarinnar með útisigri á Fulham en þar lá Manchester United í síðustu umferð. Liverpool má ekki falla í sömu gildru og United! Liverpool leiddi deildina í kringum áramótin en óhagstæð úrslit gáfu United færi á að saxa á forskotið. United færði sér hvert tækifæri í nyt sem gafst og náði toppsætinu. Nú þarf Liverpool að gera það sama. 

Fróðleiksmolar...

- Liverpool er í öðru sæti deildarinnar á eftir Manchester United.

- Liverpool hefur unnið fjóra síðustu leiki sína.

- Í þeim leikjum hefur liðið skorað fimmtán mörk.

- Fulham hefur gert sjö marklaus jafntefli í deildinni á þessari leiktíð.

- Jose Reina hefur haldið marki sínu hreinu 100 sinnum fyrir Liverpool.

- Hann náði þeim áfanga gegn Aston Villa í sínum 197. leik og er það nýtt félagsmet.

- Þeir Jose Reina, Jamie Carragher og Dirk Kuyt hafa leikið alla deildarleiki Liverpool á leiktíðinni. Þeir eru einu leikmenn Liverpool sem hafa gert það.

- Steven Gerrard er markahæsti leikmaður Liverpool á leiktíðinni með 21 mark.

- Þrettán af þeim mörkum hafa komið í deildinni.

- Einn fyrrum leikmaður Liverpool er nú í liði Fulham. Þetta er Danny Murphy. Hann er nú að spila á sinni annarri leiktíð með Fulham.

- Síðasti deildarleikur liðanna á Craven Cottage. 19. apríl 2008. Fulham : Liverpool 0:2. Mörk Liverpool: Jermaine Pennant (17. mín) og Peter Crouch (70. mín.). 

Spá Mark Lawrenson

Fulham v Liverpool

Ég held að þetta tveggja vikna landleikjahlé í Úrvalsdeildinni muni ekki gera Liverpool gott. Flestir leikmenn liðsins eru búnir að spila erfiða leiki og hafa að auki þurft að ferðast vítt og breitt. Fyrsti leikur eftir landsleikjahlé er alltaf erfiður og það er snúið að spila á Craven Cottage. Heimamenn eru með mjög snjallan framkvæmdastjóra. Vegna alls þessa ætla ég að spá jafntefli. 

Úrskurður: Fulham v Liverpool 1:1.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan