| Sf. Gutt

Jafntefli í Tælandi

Liverpool gerði 1:1 jafntefli við tælenska landsliðið í Bangkok í dag. Fyrsta markið á undirbúningstímabilinu kom loksins en tveir leikmenn Liverpool fóru meiddir af velli.

Það var ekki að spyrja að áhuga heimamanna á Liverpool og áhorfendur fylltu Rajamangala leikvanginn. Flestir voru greinilega komnir til að sjá Liverpool vinna sigur.  

Liverpool hefði getað lent undir snemma leiks þegar einn leikmaður Tælands fékk boltann eftir að Diego Cavalieri mistókst að sparka frá marki sínu en Tælendingurinn hitti ekki markið. Ryan Babel var skotvissari á 6. mínútu þegar hann fékk langa sendingu inn á vítateiginn frá Jamie Carragher. Hann tók vel við boltanum og renndi honum neðst í vinstra hornið. Þetta var fyrsta markið sem Liverpool skorar á undirbúningstímabilinu og var því vel fagnað af áhorfendum. Ryan hefði átt að bæta við marki nokkru seinna en skot hans var varið. Annars var fyrri hálfleikurinn tíðindalítill.

Seinni hálfleikurinn byrjaði illa því þeir Martin Skrtel og Nabil El Zhar, sem komu til leiks í leikhléi, urðu báðir að fara snemma af velli vegna meiðsla. Liverpool hafði lengst af góð tök á leiknum og markmaður Tælands varði vel bylmingsskot frá Javier Mascherano á 62. mínútu. Markmaðurinn var heppinn að fá skotið beint á sig því annars hefði hann líklega ekki varið. Heimamenn náðu óvænt að jafna á 72. mínútu. Varamaðurinn Panupong Sutee skoraði þá af öryggi eftir að hafa komist inn á vítateig eftir gott samspil. Rétt á eftir náði Andrea Dossena að komast inn á teiginn en skot hans var ekki fast og það var varið.

Þeir Jose Reina, Albert Riera og Fernando Torres komu til leiks þegar um tíu mínútur voru eftir og var Fernando gríðarlega vel fagnað. Hann lét strax að sér kveða og var næstum kominn í gegn rétt eftir að hann kom inn á. Hann sendi svo góða sendingu inn á Andryi Voronin en Úkraínumaðurinn fór illa með færið og skaut framhjá. Það fór kliður um mannskapinn í hvert skipti sem Fernando kom við boltann og litlu munaði að áhorfendur fengju að sjá hann skora en skalli hans fór rétt framhjá. Leiknum lauk því með jafntefli 1:1 og voru leikmenn sáttir við að komast af velli enda hellirigndi undir lokin. Landsliðsþjálfari Tælands var þó líklega manna ánægðastur. Sá er Peter Reid sem lék lengi með Everton. Hann hélt reyndar með Liverpool sem ungur drengur!

Liverpool: Cavalieri (Gulacsi 45, Reina 79), Plessis (Mascherano 45), Agger (Skrtel 45, Dossena 54), Degen (Kelly 45), Nemeth (Voronin 45), Kuyt (El Zhar 45, Arbeloa 57), Babel (Riera 80), Lucas (Spearing 45), Insua (Johnson 45), Carragher (San Jose 45), Ngog (Pacheco 45, Torres 80).

Áhorfendur á Rajamangala leikvanginum: 50.000.

Maður leiksins samkvæmt Liverpoolfc.tv.: Ryan Babel.

Daniel Agger sneri aftur til leiks eftir meiðsli en Yossi Benayoun og Xabi Alonso voru sagðir meiddir. Ekki er enn vitað um hversu alvarleg meiðsli þeirra Martin Skrtel og Nabil El Zhar. 

Hér má lesa um hina tvo æfingaleikina sem eru búnir.

St Gallen

Rapid Vín

 

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan