| Grétar Magnússon

Sigur í Lundúnum

Liverpool sóttu 3 stig í höfuðborg Englands með sigri á West Ham í annað sinn á þessu ári.  Þetta var annar útisigurinn í röð sem liðið vinnur 3-2.

Leikurinn byrjaði fjörlega og gaf til kynna það sem koma skyldi.  Jamie Carragher, sem í viðtali í vikunni sagði að liðið þyrfti að bæta sig varnarlega, gerði sig sekan um slæm mistök í öftustu línu og Zavon Hines komst einn í gegn.  Hann skaut að marki og hafnaði boltinn í stönginni hjá Pepe Reina sem náði svo frákastinu, þar skall hurð nærri hælum hjá gestunum.

Á 7. mínútu gerði Yossi Benayoun fyrrum liðsfélögum sínum næstum því skráveifu er hann komst í ágætt færi eftir sendingu frá Fernando Torres, Ísraelinn skaut hinsvegar beint á Robert Green, markvörð Hamranna.  Stuttu síðar vildi Torres fá vítaspyrnu er hann spyrnti boltanum í höndina á Herita Ilunga en dómarinn dæmdi ekki vítaspyrnu, sem hefði líklega verið strangur dómur því Ilunga var með hendur með síðum.

Gestirnir sóttu í sig veðrið eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og Emiliano Insua átti gott skot að marki af um 25 metra færi sem fór ekki svo langt framhjá hægri stönginni.  Glen Johnson var svo næstum búinn að skora í eigið mark og Carragher kom til bjargar á síðustu stundu þegar hann tæklaði boltann af Carlton Cole.  Það væri ekki ofsögum sagt að fyrri hálfleikur hafi verið ansi fjörugur.

Og áfram hélt fjörið.  Torres fékk boltann hægra megin í teignum frá Gerrard og náði skoti á markið sem fór rétt framhjá.  Spánverjinn gerði hinsvegar engin mistök þegar hann braust inná teig, vinstra megin, fór framhjá einum varnarmanni West Ham og náði skoti á nærstöngina sem Robert Green náði ekki að verja.  Glæsilega gert hjá Torres og stuðningsmenn Liverpool voru skiljanlega mjög kátir með sinn mann.

Útlitið var svo ekki mjög bjart fyrir heimamenn þegar þeir Valon Behrami og Matthew Upson þurftu báðir að fara af velli vegna meiðsla.  Það virtist hinsvegar aðeins styrkja þá og Zavon Hines fékk sendingu frá Cole upp vinstri kantinn, braust inná teig þar sem Carragher braut á honum, hlaut Carragher gult spjald fyrir vikið.  Dómarinn gat því lítið annað en dæmt vítaspyrnu og var það Ítalinn Alessandro Diamanti sem fór á punktinn, í sínum fyrsta heimaleik fyrir félagið.  Diamanti skoraði úr vítaspyrnunni en spyrnan var hinsvegar ólöglega tekin, því hann sparkaði tvisvar í boltann áður en hann hafnaði í markinu.  Leikmenn Liverpool mótmæltu en markið stóð.

Markið hefði getað slegið leikmenn Liverpool útaf laginu en þeir héldu áfram að sækja, á 41. mínútu unnu þeir hornspyrnu, Yossi Benayoun spyrnti fyrir og fyrirliðinn Steven Gerrard náði skalla að marki.  Dirk Kuyt stóð óvaldaður á fjærstönginni, náði að pota tánni í boltann og setja hann í markið.  Það má eiginlega segja að Kuyt hafi stolið markinu af Gerrard en það var ekki það sem skipti máli heldur sú staðreynd að Liverpool leiddi nú leikinn að nýju.

Áfram hélt þó darraðadansinn í fyrri hálfleik og heimamenn voru ekki búnir að segja sitt síðasta orð.  Martin Skrtel átti lélega sendingu útúr vörninni og Zavon Hines náði boltanum, Skrtel reyndi að sparka boltanum í burtu en gerði ekki betur en svo að hann braut á hinum unga Hines og fékk gult spjald að launum.  Diamanti tók aukaspyrnu sem hafnaði í varnarveggnum og uppskáru Hamrarnir hornspyrnu.  Spyrnan var tekin og Carlton Cole stökk manna hæst í teignum og skallaði í markið.  Enn og aftur höfðu leikmenn Liverpool fengið á sig mark eftir fast leikatriði á tímabilinu.

Staðan var orðin 2-2 og leikmenn héldu til búningsherbergja í hálfleik.  Bæði lið byrjuðu síðari hálfleikinn nokkuð varlega og ljóst var að liðin vildu ekki spila eins mikinn sóknarbolta og í fyrri hálfleik.  Það var ekki fyrr en á 63. mínútu sem eitthvað markvert gerðist þegar Yossi Benayoun prjónaði sig inná teiginn af vinstri kanti en því miður fyrir hann náði hann ekki skoti á markið.  Markið hefði verið stórglæsilegt ef það hefði orðið því Benayoun var búinn að fífla ansi marga varnarmenn West Ham uppúr skónum.

Ryan Babel kom inná fyrir Dirk Kuyt á 61. mínútu og fór hann á hægri kantinn, líkt og þegar hann kom inná á móti Debreceni í Meistaradeildinni á miðvikudaginn.  Á 75. mínútu braust Glen Johnson inná teiginn og skaut að marki en varnarmaður West Ham komst fyrir, eins og svo oft áður í leiknum.  Boltinn barst til Babel sem tók á rás upp kantinn og sendi fyrir markið.  Þar stökk Fernando Torres manna hæst og skallaði í markið, glæsilega gert og nú var liðið komið með forystuna í þriðja sinn í leiknum.

Sem betur fer hélt liðið þessari forystu út leikinn því heimamenn komust ekki mjög nálægt því að jafna leikinn, helsta hættan skapaðist þegar Carlton Cole náði að skalla fyrir markið og annar leikmaður náði svo að skalla að marki.  Pepe Reina náði að verja og bjarga svo í horn.

Þriðji deildarsigur liðsins í röð staðreynd og það má með sanni segja að nú sé það komið á beinu brautina.  Rafa Benítez þarf reyndar að skerpa aðeins á varnarvinnunni því leikmenn liðsins eru farnir að gera sig seka slæm mistök og varla þarf að minnast á slælega frammistöðu þegar kemur að því að verjast föstum leikatriðum mótherjanna.

West Ham:  Green; Ilunga, Tomkins, Upson (Gabbidon 25. mín.), Faubert; Hines, Behrami (Kovac, 27. mín.), Parker, Noble; Cole, Diamanti (Dyer, 65. mín.). Ónotaðir varamenn:  Kurucz, Nouble, Payne, Spector.

Mörk West Ham:  Alessandro Diamanti (29. mín. víti) og Carlton Cole (45. mín.).

Gul spjöld:  Scott Parker (31. mín.), Julien Faubert (36. mín.) og Carlton Cole (90. mín.).

Liverpool:  Reina; Insua, Johnson, Carragher, Skrtel; Lucas, Mascherano, Benayoun (Aurelio, 85. mín.), Kuyt (Babel 61. mín.), Gerrard; Torres (Riera, 90. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Cavalieri, Kyrgiakos, Degen, Dossena.

Mörk Liverpool:  Fernando Torres (21. mín. og 75. mín.), Dirk Kuyt (41. mín.).

Gul spjöld:  Jamie Carragher (29. mín.), Martin Skrtel (44. mín.) og Javier Mascherano (50. mín.).

Áhorfendur á Upton Park: 34.658.
 
Maður leiksins:  Fernando Torres spilaði frábærlega í leiknum og var fyrra markið hans einstaklega glæsilegt.  Torres sýndi tilþrif sem stuðningsmenn félagsins hafa varla séð síðan á fyrsta tímabili hans hjá liðinu.

Rafael Benítez: Við gerðum einstaklingsmistök og slíkt getur stundum gerst. En við brugðumst við á jákvæðan hátt með því að sækja allan leikinn og ná að skora þriðja markið. Svoleiðis á að bregðast við.


Fróðleikur...

Pepe Reina spilaði sinn 150. deildarleik fyrir félagið.

Fernando Torres skoraði 4. og 5. mark sitt á leiktíðinni og hafa þau öll komið í deildinni.

Dirk Kuyt skoraði sitt 4. mark á leiktíðinni, 3 þeirra hafa komið í deildinni.

Fabio Aurelio spilaði sinn fyrsta deildarleik á þessari leiktíð.

Annan útileikinn í röð vannst 3-2 sigur, í síðasta útileik voru Bolton lagðir af velli með sömu markatölu.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan