| Heimir Eyvindarson

Mascherano: Ég skoraði markið

Javier Mascherano þykir súrt í broti að fá markið sem hann skoraði gegn Everton, með góðri hjálp Joseph Yobo, ekki skráð á sig.
Mascherano er þeirrar skoðunar að hann eigi skilinn heiðurinn af markinu þar sem að það hafi svo sannarlega verið hans skot sem á endanum fór framhjá Tim Howard í marki Everton, jafnvel þótt boltinn hafi breytt hressilega um stefnu eftir að hann hafði viðkomu í Joseph Yobo varnarmanni Everton.

Englendingar þykja nokkuð harðir þegar kemur að skráningu sjálfsmarka og markið var umsvifalaust skráð á Yobo, en Mascherano er ekki sammála þeirri túlkun. Það er mjög skiljanlegt að hann berjist fyrir því að fá þetta leiðrétt þar sem honum veitir ekki af að bæta markahlutfall sitt hjá Liverpool, en hann hefur hingað til ekki skorað nema eitt mark fyrir félagið - í 108 leikjum.

,,Mér finnst að það eigi að skrá markið á mig. Það var ég sem skaut á markið og boltinn endaði í netinu", segir þessi 25 ára gamli harðjaxl.

,,Þetta var mjög mikilvægt augnablik fyrir mig og ég er frekar súr yfir því að fá þetta ekki skráð á mig. Ég reyni alltaf að gera mitt besta, en á þessu tímabili hef ég m.a. verið gagnrýndur fyrir markskot mín. Ég er alltaf að reyna að bæta mig og ég var mjög ánægður með minn leik í gær, þar á meðal markið."

Liverpool vann sem kunnugt er leikinn í gær með tveimur mörkum, en Hollendingurinn Dirk Kuyt gerði út um leikinn á 80. mínútu. Þessi úrslit þýða að Liverpool fór þrátt fyrir allt taplaust í gegnum nóvember mánuð og nú er bara að vona að öldudalurinn sé að baki.

Mascherano vonast til þess að nú sé Liverpool loks komið á beinu brautina eftir skrykkjótt gengi að undanförnu.

,,Þetta var virkilega mikilvægur sigur. Þetta var mjög erfiður leikur og baráttan um miðjuna var hörð, en við stóðum uppi sem sigurvegarar og vonandi tekst okkur að halda áfram á þessari braut."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan