| Heimir Eyvindarson

Þarf ekki að sanna neitt fyrir Mourinho

Lazar Markovic var sterklega orðaður við Chelsea áður en hann gekk til liðs við Liverpool í sumar. Serbinn segist ekki þurfa að sanna sig sérstaklega fyrir Mourinho í kvöld.

Í fyrrasumar mun Chelsea hafa átt í viðræðum við Benfica um kaup á Markovic. Viðræðurnar gengu ekkert allt of vel, einkum vegna tregðu Jose Mourinho að því er heimildir herma, þannig að þegar Liverpool bauðst til að borga þær 20 milljónir punda, sem klásúlan í samningi Serbans hljóðaði uppá, stóð ekki á Benfica. 

Flest slúðurblöð í fótboltaheiminum voru á þessum tíma búin að slá því föstu að Markovic endaði í Lundúnum, en annað kom á daginn.

,,Ég veit í sjálfu sér ekkert um það hvað gekk á í samningaviðræðunum. Það var mikið talað um það að ég væri á leið til Chelsea, en ég veit ekki hversu langt það ferli var komið. Ef Mourinho vildi mig ekki þá er það bara hans mál. Ég mun ekki mæta í leikinn til þess að sýna mig eitthvað sérstaklega fyrir honum. Ég spila þennan leik eins og hvern annan leik, reyni að gera mitt besta til að hjálpa liðinu." 

Þetta er raunar ekki í fyrsta sinn sem Markovic er orðaður við Chelsea. Meðan hann var hjá Partizan í Belgrad fór hann í skoðunarferð hjá Chelsea og vitað er að forráðamenn Lundúnaliðsins fylgdust grannt með honum. Þegar Serbinn fór síðan frá Partizan til Benfica var haft eftir þáverandi forseta serbneska liðsins að Chelsea hefði ákveðið að lána Markovic til Benfica í 2 ár, sem hleypti eðlilega af stað sögusögnum um það að Serbinn væri í raun eign Lundúnaliðsins. Þessi yfirlýsing forsetans fyrrverandi var síðar dregin til baka með þeim skýringum að um mistúlkun og tungumálaerfiðleika hefði verið að ræða.

,,Orð forsetans komu mér á óvart á sínum tíma. Ég fór í skoðunarferð til Chelsea og hafði gaman af. Hitti m.a. vini mína og samlanda Matic og Ivanovic. En ég vissi aldrei til þess að ég væri eign félagsins."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan