| Sf. Gutt

Mario Balotelli á braut


Það fór svo að Mario Balotelli komst frá Liverpool. Á síðasta degi áður en lokað var fyrir félagskipti gekk Ítalinn til liðs við franska liðið Nice. Þar á bæ verður gerð tilraun til að koma ferli þessa hæfileikaríka ítalska framherja í gang. Kannski verður það lokatilraunin í því efni. 


Hin útreiknaða áhætta sem Brendan Rodgers, fyrrum framkvmdastjóri Liverpool, tók sumarið 2014, þegar Mario var keyptur frá AC Milan, var langt frá því rétt reiknuð. Flestar forsendur fyrir útreikningunum reyndust rangar og Mario gerði lítið gagn hjá Liverpool. Hverju sem um er að kenna og líklega lagðist margt á eitt í því efni. Trúlega finnst flestum að hugarfar Mario hafi þar leikið stærsta hlutverkið.

 

Mario skoraði fjögur mörk fyrir Liverpool í 28 leikjum. Hann var í láni hjá gamla liðinu sínu AC Milan á síðustu leiktíð en lét lítt að sér kveða. Hann var orðaður við fjölmörg félög í sumar enda ljóst að hann var ekki ætlaður í lið Liverpool. Hann var skilinn eftir heima þegar liðshópur Liverpool hélt til Ameríku í sumar. Brendan Rodgers hafði hann heldur ekki með í fyrra þegar lagt var upp í æfingaferð. Segir það sína sögu. Þar kom að Nice tók áhættuna. Vonandi nær að hann gera gagn hjá franska liðinu. Mario fór á frjálsri sölu til Nice. 


Því miður verða kaupin á Mario, þó svo að hann hafi aðeins kostað 16 milljónir sterlingspunda sem er ekki ýkja mikið nú til dags, flokkuð með þeim verst heppnuðu á seinni árum og þó leitað sé lengi í sögu Liverpool. 

Hér má lesa allt það helsta um feril Mario Balotelli á LFChistory.net. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan