| Grétar Magnússon

Aftur á sigurbraut

Frábær 0-3 sigur vannst á Middlesbrough á Riverside leikvanginum á miðvikudagskvöldið.  Liðið er nú aftur komið á sigurbraut sem er gott veganesti inn í jólatörnina sem framundan er.

Simon Mignolet var settur inn í byrjunarliðið á ný en eins og allir stuðningsmenn félagsins hefur umræðan um Loris Karius verið ansi mikil undanfarið og Klopp ákvað að taka markvörðinn unga aðeins úr skotlínunni og setti traust sitt á Mignolet.  Önnur breyting á vörninni var óumflýjanleg þar sem Joel Matip kenndi sér eitthvað meins eftir leikinn við West Ham og Ragnar Klavan tók sæti hans við hlið Lovren í miðri vörninni.

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn framan af en gestirnir meira með boltann eins og við var að búast.  Heimamenn voru þó þeir fyrstu sem áttu skot á markið er Fabio, vinstri bakvörður þeirra skaut að marki en Mignolet varði og hélt boltanum vel.  Gestirnir bættu aðeins í sóknarleikinn skömmu síðar en leikmenn Middlesbrough voru fjölmennir í vörninni og komust í veg fyrir allar skottilraunir Liverpool manna þannig að Victor Valdes markvörður þurfti ekki að hafa fyrir því að verja skot.  Mignolet var svo aftur vel á verði þegar Ben Gibson skallaði að marki, Belginn hélt boltanum vel sem var nauðsynlegt því leikmaður heimamanna var mættur til að taka frákastið.  Á 29. mínútu kom svo fyrsta markið.  Sadio Mané sendi boltann út til hægri á Clyne sem lék upp kantinn og sendi fyrir markið.  Sendingin var góð og Valdes í markinu hætti við að koma út, á fjærstönginni kom svo Adam Lallana aðvífandi og skallaði boltann í markið af krafti !  Virkilega vel gert hjá Lallana þarna og það má kannski segja að hann sé ekki vanur að skora með skalla en þetta var vissulega kærkomið.

Eins og svo oft áður slökuðu leikmenn Liverpool aðeins á eftir markið og heimamenn virtust heldur betur vakna við þetta.  Mignolet þurfti aftur að vera vel á verði þegar Viktor Fischer þrumaði óvænt að marki hægra megin úr teignum þegar allir bjuggust við því að hann myndi senda fyrir.  Heimamenn héldu áfram að pressa en að þessu sinni stóðust leikmenn Liverpool álagið og hefðu getað bætt við marki undir lok hálfleiksins þegar Mané fékk sendingu innfyrir, lék í átt að marki og skaut svo í fjærstöngina.  Origi náði frákastinu en skaut rétt framhjá.  Ekki svo löngu síðar var flautað til hálfleiks og gestirnir með 0-1 forystu.

Ef hægt er að segja að fyrri hálfleikur hafi verið jafn þá var allt annað uppá teningnum í þeim síðari.  Gestirnir áttu leikinn með húð og hári eftir hlé og sóttu án afláts á meðan heimamenn komust ekki oft framyfir miðju með boltann.  Mané byrjaði á því að komast í ágætt færi en hann náði ekki að koma skoti á markið.  Leikmenn Liverpool héldu áfram að ógna með skörpum sóknarleik þó án þess að skapa sér nein dauðafæri en oft vantaði uppá herslumuninn þegar inní vítateig var komið.  Eitthvað varð undan að láta og annað mark leiksins kom eftir klukkutíma leik.  Mané og Wijnaldum léku saman og sá síðarnefndi sendi innfyrir og Mané féll við og datt, það kom ekki að sök því Lallana var vel vakandi og náði boltanum í teignum, sendi fyrir markið þar sem Divock Origi átti auðvelt verk fyrir höndum að senda boltann í markið.  Virkilega vel gert og staðan orðin 0-2.  Spilamennskan var ekki síðri átta mínútum seinna þegar þriðja markið kom.  Aftur datt Mané í undirbúningnum og aftur kom það ekki að sök því Origi fékk boltann úti hægra megin og sendi fyrir markið.  Þar var Lallana mættur á fjærstöngina og hann setti boltann að sjálfsögðu í markið.

Eftir þetta virtust menn slaka aðeins á og heimamenn virtust hafa játað sig sigraða.  Klopp gerði þrjár breytingar seint í leiknum og leikmenn hans sigldu öruggum sigri í heimahöfn.  Kærkominn sigur eftir síðustu tvo leiki og ekki skemmdi fyrir að fyrsti sigur liðsins á þessum velli síðan 2002 leit dagsins ljós !

Middlesbrough:  Valdés, Barragán, Chambers, Gibson, Fabio, Forshaw, Clayton (Leadbitter, 56. mín.), de Roon, Traoré, Negredo (Rhodes, 77. mín.), Fischer (Downing, 56. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Guzan, Bernardo, Nsue, Nugent.

Gult spjald:  Gibson.

Liverpool:  Mignolet, Clyne, Lovren, Klavan, Milner, Lallana (Lucas, 82. mín.), Henderson, Wijnaldum (Ejaria, 87. mín.), Mané, Origi (Alexander-Arnold, 90. mín.), Firmino.  Ónotaðir varamenn:  Karius, Moreno, Stewart, Woodburn.

Mörk Liverpool:  Adam Lallana (29. og 68. mín.) og Divock Origi (60. mín.).

Áhorfendur á Riverside:  32.704.



Maður leiksins:  Adam Lallana stóð sig mjög vel í leiknum, skoraði tvö mörk og lagði upp eitt.  Sem fyrr var hann duglegur að hlaupa út um allan völl og það er morgunljóst að hann er gríðarlega mikilvægur hluti af þessu liði.

Jurgen Klopp:  ,,Það voru stundir í fyrri hálfleik þar sem við vorum ekki nógu hreyfanlegir og það var smá ruglandi fyrir mig að horfa á það.  Við gerðum mun betur í seinni hálfleik og hefðum getað skorað fleiri mörk.  Adam Lallana er að bæta sig jafnvel þó að hann skori ekki mörk en það er gaman að sjá hann skora mörk að sjálfsögðu.  Fyrir ári síðan ræddum við málin og ég sagðist vera ánægður með hann en hann sagði að hann væri ekki að skora mörk.  Ég sagði honum að hann væri ekki í réttri stöðu oft á tíðum.  Í kvöld var hann svo tvisvar sinnum réttur maður á réttum stað sem var virkilega ánægjulegt."

Fróðleikur:

- Adam Lallana hefur nú skorað 6 mörk í deildinni.

- Auk þess hefur hann lagt upp önnur 6 mörk.

- Divock Origi skoraði í sínum fimmta leik í röð og er nú kominn með fjögur mörk í deildini.

- Hann er nú markahæstur leikmanna félagsins með 7 mörk í öllum keppnum ásamt Sadio Mané.

- Trent Alexander-Arnold spilaði sinn fyrsta Úrvalsdeildarleik fyrir félagið.

- Divock Origi spilaði sinn 50. leik fyrir félagið í öllum keppnum og hefur hann til þessa skorað 17 mörk.

- Með sigrinum komst Liverpool upp í annað sæti deildarinnar með 34 stig eftir 16 leiki.

- Þetta var stærsta tap Middlesbrough á heimavelli síðan í október 2008.

Hér má sjá myndir úr leiknum.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan