| Sf. Gutt

Spáð í spilin




Eftir brösótt gengi hjá Liverpool það sem af er árs gefst tækifæri núna á sunnudaginn til að setja kraft í málið. Í það minnsta á Liverpool kost á því að vinna tvo leiki í röð í fyrsta skipti á árinu. Til að það takist þarf Liverpool að vinna Burnley sem kemur í heimsókn.


Liverpool tapaði fyrri leik liðanna 2:0 í Burnley í ágúst og nú þarf að bæta úr. Burnley er í býsna góðri stöðu í deildinni eftir að hafa komið upp úr næst efstu deild í vor og ætti að halda stöðu sinni í deildinni. Liðið er gott dæmi um hversu lið, sem ekki hefur ýkja sterkum leikmönnum á að skipa, getur náð langt með samstöðu og baráttu. Burnley hefur náð flestum af stigum sínum á heimavelli og ef rétt er vitað hefur liðið enn ekki unnið útileik í deildinni. Það þarf að passa upp á að ekki verði breyting á því! Stigin þrjú sem Liverpool tapaði í Burnley eru í flokki þeirra sem tapast hafa á móti liðum sem eru eða voru á þeim tímapunkti í neðri hluta deildarinnar. Mætti setja hátt í 20 stig í þann flokk og vel má sjá fyrir sér alvöru baráttu um Englandsmeistaratitilinn til vors ef svo sem helmingur af þessum stigum hefðu náðst í hús.



Síðasti leikur Liverpool sýndi hvers liðið er megnugt á góðum degi. Arsenal, sem er í baráttu um efstu sætin, var tekið í gegn á Anfield um síðustu helgi og Liverpool vann öruggan 3:1 sigur. Í næsta leik á undan á Anfield vann Liverpool líka sterkan mótherja, þá Tottenham, sannfærandi 2:0. Eins lék liðið stórvel í 1:1 jafntefli á móti toppliði Chelsea og í útileik á móti Manchester United. Á móti koma töp fyrir Swansea, Hull og Leicester auk jafnteflis í Sunderland það sem af er ári og eru þá ekki hrakfarir í bikarleikjum taldar með. Rauði herinn hans Jürgen Klopp hefur nefnilega jafnan náð sínu besta þegar mótherjinn hefur verið hvað sterkastur en svo þegar lið í neðri hluta deildarinnar hafa verið annars vegar hefur alltof oft farið illa. 


Þetta munstur er öllum kunnugt og ef Liverpool ætlar að ná einu af fjórum efstu sætum deildarinnar þegar upp verður staðið í vor verður að lagfæra þetta undarlega munstur til loka keppnistímabilsins. Sumir hafa sagt leikinn við Burnley ákveðna prófraun á liðið eftir leikinn góða á móti Arsenal. Ég ætla að spá því að Liverpool brjóti blað á sunnudaginn og vinni í fyrsta skipti tvo leiki í röð á þessu Herrans ári. Liverpool vinnur 3:0 sigur. Sadio Mané skorar tvö mörk og Adam Lallana eitt!

Hér eru myndir frá æfingu Liverpool á Melwood í dag.

YNWA!




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan