| Grétar Magnússon

Tap gegn Leicester

Liverpool er úr leik í enska deildarbikarnum eftir 2-0 tap gegn Leicester City á útivelli.  Sem fyrr voru Liverpool mun betri framan af leik og mun meira með boltann en mótherjinn á hinsvegar ansi auðvelt með að skora.

Danny Ward stóð í markinu eins og við var búist og í vörninni stóðu þeir Flanagan, Klavan, Gomez og Robertson.  Þeir Grujic, Henderson og Wijnaldum voru svo saman á miðjunni og fremstir voru þeir Coutinho, Oxlade-Chamberlain og Solanke.

Fyrri hálfleikurinn var eign gestanna frá upphafi til enda en við höfum svosem séð það áður á þessu tímabili.  Menn náðu ekki að nýta sér þessa yfirburði til að skora mark og staðan í hálfleik var markalaus.

Coutinho fór af velli í hálfleik og Woodburn kom inná í hans stað.  Það tók kannski aðeins broddinn úr sóknarleik Liverpool og heimamenn unnu sig inní leikinn.  Fyrsta mark þeirra kom eftir 65 mínútur þegar boltinn barst út til hægri eftir hornspyrnu, þar tapaðist skallaeinvígi og svo aftur inná miðjum vítateig þar sem Okazaki var fyrstur til að átta sig og skaut boltanum framhjá Ward í markinu.  Eftir þetta reyndu leikmenn Liverpool að koma sér aftur í gang en það varð auðvitað ekki raunin og Slimani skoraði draumamark með skoti í vinkilinn á 78. mínútu.

Þar við sat og Liverpool hefur því lokið keppni í deildarbikarnum á þessu tímabili.



Leicester City:  Hamer, Amartey, Morgan, Dragovic, Chilwell, Albrighton, Ndidi (Choudhury, 84. mín.), Iborra, Gray, Ulloa (Okazaki, 53. mín.), Slimani.  Ónotaðir varamenn:  Jakupovic, Benalouane, Musa, Iheanacho, Mahrez.

Mörk Leicester:  Okazaki (65. mín.) og Slimani (78. mín.).

Gult spjald:  Iborra.

Liverpool:  Ward, Flanagan, Gomez, Klavan, Robertson, Grujic, Henderson, Wijnaldum (Ings, 73. mín.), Coutinho (Woodburn, 45. mín.), Oxlade-Chamberlain, Solanke.  Ónotaðir varamenn:  Karius, Moreno, Milner, Alexander-Arnold, Markovic.

Gul spjöld:  Klavan og Grujic.

Maður leiksins:  Það er erfitt að velja mann leiksins eftir svona leik en Philippe Coutinho bar af í fyrri hálfleik og leikmenn Leicester náðu ekki boltanum af honum.  Það er óvíst að úrslitin hefðu verið þessi ef Coutinho hefði spilað allan leikinn.

Jürgen Klopp:  ,,Við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik og hefðum átt að gera út um leikinn snemma.  Knattspyrna er hinsvegar spiluðu í 90 mínútur og við fáum á okkur mark með seinni bolta eftir hornspyrnu og aftur gerum við mistök þegar mótherjinn á innkast.  Ég er orðinn vel þreyttur á þessu."

Hér má sjá myndir úr leiknum.







TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan