| Sf. Gutt

Stórsigur í síðustu umferð!



Liverpool lék frábærlega í síðasta deildarleiknum og vann 4:0 stórsigur á Brighton í Musterinu. Liverpool lauk leiktíðinni í fjórða sæti deildarinnar. Nú er hægt að fara að einbeita sér að undirbúningi fyrir úrslitaleikinn um Evrópubikarinn!

Tvær breytingar voru gerðar á byrjunarliðinu frá leiknum við Chelsea. Jordan Henderson og Dominic Solanke komu inn í liðið fyrir þá James Milner og Nathaniel Clyne. James er meiddur og eftir er að sjá hvort hann verður búinn að ná sér fyrir úrslitaleikinn í Kiev.

Frá fyrsta flauti dómarsins settu leikmenn Liverpool á fullt og eftir 15 sekúndur kom fyrsta hornspyrnan! Liverpool átti að fá víti á upphafsmínútunum þegar varnarmaður Brighton handlék boltann eftir fyrirgjöf Trent Alexander-Arnold. Á 19. mínútu var Mohamed Salah augljóslega felldur inn í vítateig en aftur sleppti dómarinn því að dæma víti. Dómarinn sá bæði atvik greinilega en ákvað samt að dæma ekki. Alveg með ólíkindum. Stórmerkilegt að Liverpool hefur aðeins fengið eitt víti í deildinni á leiktíðinni. 

Rétt eftir að Liverpool vildi fá víti slapp Sadio Mané inn í vítateiginn en markmaður Brighton varði frá honum. Sadio hefði þó átt að gefa á Roberto Firmino sem var frír við hliðina á honum. Hver sóknin á fætur annarri buldi á vörn Brighton og loks á 26. mínútu brustu varnir Mávanna. Trent kom fram völlinn og sendi fram á Dominic Solanke. Hann stýrði boltanum með skemmtilegri hreyfingu á Mohamed Salah sem tók eitt skref til vinstri áður en hann skaut boltanum beinustu leið neðst í vinstra hornið. Mögnuð afgreiðsla hjá Mohamed og markamet í höfn enda fagnaði hann ógurlega fyrir framan Kop stúkuna!

Eftir hálftíma komst Sadio aftur inn í vítateiginn. Nú ákvað hann að gefa boltann í stað þess að skjóta sjálfur. Hann sendi til hliðar á Mohamed en Mat Ryan náði að verja frá honum. Mohamed fékk boltann aftur og kom honum að markinu en Shane Duffy náði að henda sér fram og bjarga á línu með ótrúlegum hætti. Fimm mínútum fyrir leikhlé bætti Liverpool við marki. Eftir horn frá vinstri náði Brighton að hreinsa en ekki langt. Andrew Robertson fékk boltann vinstra megin og gaf góða sendingu fyrir á Dejan Lovren sem kom æðandi, stökk manna hæst í vítateignum og hamraði boltann í markið með föstum skalla. Magnað mark!


Liverpool hélt áfram á sömu braut í síðari hálfleik. Eftir fjórar mínútur átti Roberto gott langskot sem Mat varði í horn. Á 53. mínútu gerði Liverpool út um leikinn. Liverpool sneri vörn í sókn. Mohamed fékk boltann og lék fram að vítateignum. Rétt við vítateigslínuna renndi hann boltanum til hægri á Dominic Solanke sem þrumaði boltanum þversláin inn. Glæsilegt mark og ungliðinn fagnaði sínu fyrsta marki fyrir félagið innilega! Hann var líka búinn að bíða lengi eftir því!


Fimm mínútum seinna lagði Mohamed boltann inn í vítateignn á Roberto sem komst einn á móti Mat. Í stað þess að skjóta niðri ákvað hann að koma boltanum yfir  Mat en hann náði að verja. Yfirburðir Liverpool voru algjörir og þegar fimm mínútur voru eftir var sótt frá vinstri. Varamaðurinn Adam Lallana gaf á annan varamann Danny Ings sem sendi fyrir markið. Varnarmaður náði ekki að hreinsa almennilega frá og boltinn féll fyrir vinstri fótinn á Andrew Robertson sem skoraði rétt utan markteigsins. Fyrsta mark Skotans fyrir Liverpool sem hefur verið frábær á leiktíðinni. 

Mikill fögnuður braust út þegar dómarinn flautaði til leiksloka í blíðunni. Liverpool hafði tryggt sér sæti í Meistaradeildinni með sannfærandi hætti. Á þann hátt sem liðið hefur spilað alla leiktíðina. Frábær sóknarleikur og nokkur mörk! Eftir leikinn gengu leikmenn og þjálfarar heiðurshring. Allir voru í sólskinsskapi. Áhorfendur fóru glaðir heim og nú er hægt að fara hugsa um úrslitaleikinn í Kænugarði. Liverpool hefur spilað frábærlega á leiktíðinni og það væri óskandi að Evrópubikarinn myndi vinnast í sjötta sinn. Tækifærið á því má ekki fara til spillis!


Liverpool: Karius, Alexander-Arnold, Lovren, Van Dijk, Robertson, Henderson, Wijnaldum, Mane (Lallana 73. mín.), Salah (Woodburn 83. mín.), Firmino (Ings 83. mín.) og Solanke. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Clyne, Klavan og Moreno.

Mörk Liverpool: Mohamed Salah (26. mín.), Dejan Lovren (40. mín.), Dominic Solanke (53. mín.) og Andrew Robertson (85. mín.).

Brighton and Hove Albion
: Ryan, Schelotto, Dunk, Duffy (Goldson 71. mín.), Bong, Propper, Stephens, Kayal (Gross 57. mín.), Knockaert, March og Locadia (Murray 57. mín.). Ónotaðir varamenn: Krul, Suttner, Saltor og Ulloa.

Áhorfendur á Anfield Road:
 50.752.

Maður leiksins:
Mohamed Salah. Egyptinn sýndi sínar bestu hliðar og setti markamet. Hann á vonandi eftir að bæta við afrekakrá sína í Kænugarði!

Jürgen Klopp: Það var álag á strákunum og það er búið að vera geysilega mikið síðustu vikurnar. Það er frábært að hafa náð tilsettu marki í ár. Það er magnað afrek. Við náðum þessu með tilþrifum. Við lékum til sigurs frá fyrstu sekúndu leiksins. Það var nóg að ná einu stigi en ég hef eiginlega ekki hugmynd hvernig á að spila upp á eitt stig. Við verðum tilbúnir þegar að úrslitaleiknum kemur og nú er ég farinn að hlakka virkilega til hans. Við gátum ekki leyft okkur að hugsa um hann á meðan við vorum ekki búnir að tryggja okkur sæti í Meistaradeildinni fyrir næstu leiktíð.
  


Fróðleikur

- Liverpool endaði í fjórða sæti í Úrvalsdeildinni. Manchester City varð enskur meistari með 100 stig sem er metfjöldi. Swansea, Stoke og West Bromwich Albion féllu. 

- Mohamed Salah setti markamet í 38 leikja Úrvalsdeild með því að skora 32 mörk. Hann er kominn með 44 mörk í öllum keppnum.

- Enginn hefur áður skorað svo mörg mörk á sinni fyrstu leiktíð hjá Liverpool. 

- Dejan Lovren skoraði annað mark sitt á leiktíðnni. 

- Þeir Þeir Dominic Solanke og Andrew Robertson skoruðu sín fyrstu mörk fyrir Liverpool. 

- Það tók Dominic 27 leiki að skora sitt fyrsta mark.

- Liverpool hefur nú skorað 134 mörk á sparktíðinni.

- Aðeins einu sinni áður hafa svo mörg mörk verið skoruð hjá félaginu. Það var á leiktíðinni 1985/86 en þá skoraði Liverpool 138 mörk. Á keppnistímabilinu 1981/82 voru skoruð 129 mörk og 2000/01 127.

- Liverpool tapaði ekki deildarleik á Anfield á þessari leiktíð. Það hefur aðeins 11 sinnum gerst í sögunni.

- Í heimaleikjunum 19 þá vann Liverpool 11 og gerði 8 jafntefli. 

- Liverpool tapaði aðeins einum leik á heimavelli á leiktíðinni. Það var gegn WBA í FA bikarnum. 

- Liverpool skoraði 84 mörk í deildinni. Aðeins Manchester City skoraði fleiri mörk eða 106 sem er met í 38 leikja Úrvalsdeild. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér eru myndir af heiðurshring leikmanna eftir leikinn. 

Hér má 
horfa á viðtal við Jürgen Klopp sem tekið var eftir leikinn. 

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan