| Sf. Gutt

Evrópumeistararnir halda áfram!

Evrópumeistarar Liverpool halda vörn sinni á Evrópubikarnum áfram eftir að hafa unnið magnaðan 0:2 útisigur í Salzburg. Liverpool vann riðilinn og heldur Evrópuvegferð sinni áfram. 

57. mínúta. Sadio Mané braust fram vinstra megin og stakk varnarmann af. Cican Stankovic, markmaður Red Bull, kom út en Sadio sá við honum með því að lyfta boltanum yfir hann og fyrir markið. Þangað var kominn Naby Keita og hann skallaði í markið. Frábær samvinna hjá Sadio og Naby sem áður léku með Red Bull. 

58. mínúta. Mohamed Salah fékk sendingu fram hægra megin. Markmaður Red Bull kom langt út á móti honum en Mohamed lék léttilega á hann. Egyptinn var kominn langleiðina að endalínunni við vítateiginn þegar hann skaut að marki og á ótrúlegan hátt náði hann að hitta markið. Stórkostlegt mark hjá Mohamed. 

Red Bull Salzburg:
Stankovic, Kristensen, Onguene, Wober, Ulmer, Junuzovic (Daka 68. mín.), Szoboszlai (Ashimeru 90. mín.), Mwepu, Minamino, Hwang, Haaland (Okugawa 76. mín.). Ónotaðir varamenn: Vallci, Prevljak, Ramalho, Coronel og Masaye.

Liverpool:
Alisson, Alexander-Arnold, Lovren (Gomez 53. mín.), van Dijk, Robertson, Wijnaldum, Henderson, Keita (Origi 87. mín.), Salah, Firmino (Milner 75. mín.) og Mané. Ónotaðir varamenn: Adrian, Oxlade-Chamberlain, Shaqiri og Jones.

Mörk Liverpool: Naby Keita (57. mín.) og Moahmed Salah (58. mín.). 

Gult spjald: Sadio Mané. 

Áhorfendur á Salzburg leikvanginum: 29.520.

Maður leiksins: Jordan Henderson. Fyrirliðinn var frábær á miðjunni. Hann var úti um allan völl og gerði góða hluti jafnt þegar sótt var og varist. 

Jürgen Klopp:
Ég dýrka liðið mitt. Hvernig liðsmenn hlusta á það sem fyrir þá er lagt og leggja svo gríðarlega hart að sér. Salzburg voru ótrúlega sterkir, sérstaklega í fyrri hálfleik, en það vorum við líka og við vorum tilbúnir í þennan slag.

Fróðleikur

- Liverpool vann riðil sinn og heldur áfram í keppninni. Napoli fór áfram úr riðlinum með Liverpool.

- Naby Keita skoraði annað mark sitt á leiktíðinni og það í öðrum leiknum í röð.

- Mohamed skoraði 11. mark sitt á keppnistímabilinu.

- Þetta var 20. mark hans í Evrópukeppni. Hann er nú búinn að jafna við Ian Rush í Evrópumörkum. Aðeins Michael Owen með 22 og Steven Gerrard sem skoraði 41 Evrópumark hafa skorað fleiri mörk á Evrópumótum en Mohamed. 

- Jordan Henderson lék sinn 50. Evrópuleik. Alls hefur hann leikið 345 leiki með Liverpool. 

- Bæði Sadio Mané og Naby Keita léku áður fyrr með Salzburg. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan