| Sf. Gutt

Enn met hjá Mohamed Salah!


Mohamed Salah beið ekki boðanna og setti met á fyrsta leikdegi leiktíðarinnar. Hann varð fyrstur leikmanna til að skora í fyrstu umferð í efstu deild á Englandi fimm keppnistímabil í röð. Magnað afrek hjá egypska Kóngnum!


Mohamed Salah skoraði í 0:3 sigri Liverpool á Carrow Road. Þar með skoraði hann á fyrsta leikdegi fimmta keppnistímabilið í röð. Hann byrjaði á opnunardegi leiktíðarinnar 2107/18 þegar Liverpool gerði 3:3 jafntefli við Watford á  Vicarage Road. Það var fyrsti leikur hans fyrir Liverpool. 


Á næsta keppnistímabili, 2018/19, kom West Ham United í heimsókn á Anfield á fyrsta leikdegi. Liverpool vann 4:0 og Mohamed skoraði fyrsta mark leiksins. Á leiktíðinni 2019/20 mætti Liverpool Norwich á Anfield í opnunarleik Úrvalsdeildarinnar. Mohamed hélt uppteknum hætti og skoraði í 4:1 sigri Liverpool. Á síðasta keppnistímabili, 2020/21, mættu nýbakaðir Englandsmeistarar Liverpool Leeds United í fyrstu umferð á Anfield. Liverpool vann 4:3 og gerði Mohamed sér lítið fyrir og skoraði þrennu. Sigurmarkið skoraði hann úr víti þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum. 

Mohamed Salah er nú búinn að skora sjö mörk í fyrstu umferð. Ian Rush kemur honum næstur í þessum efnum hjá Liverpool með sex mörk. Michael Owen skoraði fimm á fyrsta leikdegi. Tekið skal fram að hér eru bara talin mörk eftir að Úrvalsdeildin var stofnsett. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan