| Sf. Gutt

Jordan Henderson kveður Liverpool!


Jordan Henderson kvaddi Liverpool í dag með myndbandi sem hann birti á Instagram síðu sinni. Hann segist munu verða Rauðliði til dauðadags! 


Í myndbandinu fer Jordan Henderson yfir feril sinn hjá Liverpool frá því hann kom til félagsins frá Sunderland sumarið 2011. Hann segir að tíminn hjá Liverpool hafi bæði verið erfiður og ánægjulegur. Gleðistundirnar standi þó auðvitað upp úr þegar litið er um öxl.


Ein stærsta stund sín á knattspyrnuferlinum hafi verið þegar hann var gerður að fyrirliða Liverpool. Jordan segir þær stundir sem hann átti með félögum sínum og stuðningsmönnum Liverpool, sem hann segir þá bestu í heimi, mikilvægari en eitthvað sem snýr að honum persónulega. Lokaorð hans eru svo þessi. 


,,Það er erfitt að koma orðum að því hvernig þessi tólf ára hafa verið. Svo er ennþá erfiðara að kveðja. Ég mun verða Rauðliði til dauðadags. Ég þakka ykkur fyrir allt. Þú ert aldrei einn á ferð. - You’ll never walk alone. Jordan."

Hér er hægt að horfa á kveðjumyndbandið í heild sinni! 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan