Áfram á toppnum!
Liverpool hélt efsta sætinu í ensku Úrvalsdeildinni með því að leggja Crystal Palace að velli 0:1 á Selhurst Park. Liverpool leiðir deildina nú þegar komið er að landsleikjahléi.
Áhorfendur voru varla búnir að átta sig á að leikurinn væri hafinn þegar heimamenn skoruðu eftir aðeins 22 sekúndur. Eddie Nketiah skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá hægri en hann var greinilega ragnstæður. Liverpool herti einbeitinguna eftir þetta og komst yfir á 9. mínútu. Kostas Tsimikas gaf fram vinstri kantinn á Cody Gakpo. Hann smellti boltanum fyrir markið á Diogo Jota sem skoraði örugglega fyrir miðju marki við markteiginn. Snaggarleg sókn!
Eftir hálftíma átti Trent Alexander-Arnold fast skot utan við vítateiginn en Dean Henderson varði vel með því að henda sér niður til vinstri. Liverpool réði lögum og lofum fram að leikhléi. Palace ógnaði fyrst rétt í lok hálfleiksins þegar Ismaila Sarr náði góðu skoti við teiginn en Alisson Becker var vandanum vaxinn og varði.
Ein breyting var gerð á liði Liverpool í hálfleiks. Alexis Mac Allister varð að fara af velli vegna þess að hann fann fyrir eymslum. Dominik Szoboszlai tók stöðu hans.
Liverpool réði áfram málum eftir hlé og á 62. mínútu gaf Trent fyrir frá hægri. Hann hitti beint á Diogo sem var stutt frá marki. Hann hefði átti að skora en skalli hans fór framhjá. Palace ógnaði tveimur mínútum seinna en Alisson varði skot frá Eddie. Alisson þurfti aftur að vera til varnar á 70. mínútu þegar Eberechi Eze þrumaði að verki utan teigs. Alisson stóð keikur og sló boltann frá.
Þegar um stundarfjórðungur var eftir kom boltinn inn í vítateig Liverpool. Alisson bjargaði með því að sparka boltanum upp í stúku. En um leið og hann var búinn að sparka frá lagðist hann niður. Brasilíumaðurinn náði ekki að halda áfram og leit út fyrir að hann hefði tognað aftan í læri. Á 79. mínútu fór Alisson af velli. Tékkinn ungi Vítezslav Jaros kom inn í hans stað. Alla jafna hefði Caoimhin Kelleher tekið stöðu Brasilíumannsins en hann var veikur heima. Fyrsti leikur Vítezslav fyrir Liverpool!
Vörn Liverpool var sterk en á 84. mínútu fékk Palace færi þegar Eberechi komst fram að vítateignum. Vítezslav hélt ró sinni, beið eftir skotinu og varði. Hann var mjög öruggur til loka leiks og átti sinn þátt í að Liverpool náði öllum stigunum.
Liverpool spilaði vel lengst af. En af því ekki náðist að auka forystuna áttu heimamenn möguleika til leiksloka. Allt fór vel og Liverpool hélt toppsætinu.
Crystal Palace: Henderson, Chalobah (Kamada 88. mín.), Guéhi, Lacroix, Mitchell (Mateta 60. mín.), Lerma, Wharton (Hughes 60. mín.), Muñoz (Clyne 17. mín.), Eze, Nketiah og Sarr. Ónotaðir varamenn: Kporha, Schlupp, Turner, Umeh og Ward.
Gul spjöld: Jefferson Lerma, Will Hughes, Ismaila Sarr og Eddie Nketiah.
Liverpool: Alisson (Jaros, 79), Van Dijk, Konate, Mac Allister (Szoboszlai, 46), Salah (Diaz, 73), Jones (Endo, 89), Gakpo, Jota, Tsimikas (Robertson, 79), Gravenberch og Alexander-Arnold. Ónotaðir varamenn: Gomez, Nunez, Quansah og Bradley.
Mark Liverpool: Diogo Jota (9. mín.).
Gul spjöld: Cody Gakpo og Alexis Mac Allister .
Áhorfendur á Selhurst Park: 25.125.
Maður leiksins: Virgil van Dijk. Fyrirliðinn var geysilega sterkur í hjarta varnarinnar.
Arne Slot: ,,Sóknarmennirnir og miðvallarleikmennirnir lögðu gríðarlega hart að sér. Nokkrir aðrir þættir voru líka til staðar. Svo má ekki gleyma hversu góða varnarmenn og markmann við eigum. Þetta leiðir til þess að við höfum svona oft náð að halda hreinu."
Fróðleikur
- Diogo Jota skoraði fjórða mark sitt á leiktíðinni.
- Arne Slot varð fyrstur framkvæmdastjóra Liverpool í sögunni til að stýra liðinu til sigurs í fyrstu fimm útileikjum sínum.
- Liverpool hefur ekki tapað í síðustu tíu heimsóknum sínum á Selhurst Park. Liverpool hefur unnið níu leiki og gert eitt jafntefli. Um er að ræða deildarleiki.
- Vítezslav Jaros lék sinn fyrsta leik með aðalliði Liverpool.
-
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Virgil van Dijk -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold