| Sf. Gutt

Glæsilegur sigur á Þýskalandsmeisturunum!

Liverpool vann í kvöld glæsilegan sigur á Þýskalandsmeisturum Bayer Leverkusen. Eftir markalausan fyrri hálfleik bauð Rauði herinn upp á flugeldasýningu á Brennukvöldi Breta og vann 4:0 í Musterinu!

Xabi Alonso fékk góðar móttökur þegar hann kom út að varamannabekkjunum áður en flautað var til leiks. Ekki að undra enda mjög vinsæll hjá stuðningsmönnum Liverpool eftir glæsilegan feril hjá félaginu. Hann hefði alveg getað verið við varamannabekk Liverpool en hann ákvað að sýna Bayer Leverkusen hollustu þegar hann var nefndur til sögunnar sem arftaki Jürgen Klopp fyrr á árinu. Hann er auðvitað orðinn goðsögn hjá Leverkusen núna eftir að hafa unnið þrjá titla með félaginu á þessu ári. 

Leikmenn léku með sorgarbönd í minningu um fólkið sem fórst í flóðunum á Spáni á dögunum. Fyrir leikinn var mínútu þögn.

Bayer Leverkusen hafði fyrir leikinn aðeins tapað tveimur leikjum frá upphafi síðustu leiktíðar. Það sýndi sig í fyrri hálfleik að liðið er mjög sterkt. Liðin skiptust á þreifa fyrir sér án þess að fá opin færi. Liverpool fékk reyndar gott færi á síðustu mínútu hálfleiksins. Curtis Jones lagði þá upp færi fyrir Cody Gakpo en hann skaut beint á markmanninn úr vítateignum. Ekkert mark í hálfleik. 

Segja má að Liverpool hafi tekið öll völd frá upphafsflauti síðari hálfleiks. Hver sóknin rak aðra í átt að Kop stúkunni. Á 57. mínútu lék Ryan Gravenberch á þrjá leikmenn þýska liðsins utan við vítateiginn. Hann sendi svo á Mohamed Salah en hann hitti ekki markið við markteiginn. Fjórum mínútum seinna komst Liverpool yfir. Curtis sendi stórkostlega sendingu inn í vítateiginn. Hann hitti beint á Luis Díaz. Markmaður Bayer kom æðandi út á móti Luis en Kólumbíumaðurinn sýndi snilli sína með því að lyfta boltanum yfir hann og í markið. Snilldarlega gert hjá Luis! Tveimur mínútum seinna gaf Mohamed fyrir markið frá hægri. Stuttu frá marki henti Cody sér fram og skallaði í markið. Það var stutt fagnað því dæmd var rangstaða. Eftir nákvæma skoðun kom í ljós að Cody var alls ekki rangstæður þó litlu mætti muna. Markið var því löglegt og hægt var upphefja fögnuð á nýjan leik!

Á 68. mínútu fékk Levrkusen fyrsta færi sitt í leiknum. Eftir fyrirgjöf frá hægri fékk Victor Boniface dauðafæri en hann skallaði framhjá. Liverpool bætti í á 83. mínútu. Mohamed fékk boltann hægra megin við vítateiginn og gaf inn á markteiginn á Luis. Hann tók boltann niður og skoraði af miklu öryggi. Örugg forysta!

Tveimur mínútum seinna átti Patrik Schick gott skot sem Caoimhin Kelleher varði vel. Sókn Leverkusen hélt áfram og Robert Andrich náði skoti en Írinn varði aftur vel. Hann hélt ekki boltanum en hættunni var bægt frá. 

Á lokamínútunni var Xabi Alonso hylltur af stuðningsmönnum Liverpool sem nafnið hans eins og þeir gerðu svo oft þegar hann var leikmaður Liverpool. Þegar tvær mínútur voru komnar fram í viðbótartímann komst Liverpool í skyndisókn. Darwin Núnez æddi fram völlinn og alla leið inn í vítateiginn. Þar skaut hann en boltinn fór í varnarmann. Af honum hrökk boltinn til Luis sem var á næstu grösum. Hann þakkaði gott boð og skoraði auðveldlega af stuttu færi. Hann skoraði eiginlega af sama stað og mark númer tvö. Glæsilegur stórsigur!  

Flugeldasýning hjá Rauða hernum á Brennukvöldi Breta. Það var skotið upp flugeldum um alla Liverpool borg. Liverpool bauð upp á flugeldasýningu innan vallar í síðari hálfleik. Fjögur mörk skoruð fyrir framan Kop stúkuna. Stórgóður stuðningur frá áhorfendum. Magnað Evrópukvöld!

Liverpool: Kelleher, Tsimikas (Robertson 80. mín.), van Dijk, Konaté (Quansah 88. mín.), Alexander-Arnold (Bradley 81. mín.), Mac Allister, Gravenberch, Jones (Szoboszlai 73. mín.), Gakpo, (Núnez 80. mín.), Díaz og Salah. Ónotaðir varamenn: Jaros, Davies, Endo, Gomez og Morton.

Mörk Liverpool: Luis Díaz (61., 83. og 92. mín.) og Cody Gakpo (63. mín.). 

Áhorfendur á Anfield Road: 59.790.

Bayer Leverkusen: Hrádecky, Hincapié, Tah, Tapsoba, Grimaldo (Tella 81. mín.), García (Andrich 73. mín.), Xhaka, Palacios (Hofmann 73. mín.), Frimpong, Boniface (Schick 81. mín.) og Wirtz. Ónotaðir varamenn: Kovár, Lomb, Onyeka og Arthur.

Maður leiksins: Luis Díaz. Kólumbíumaðurinn var bestur af mörgum góðum. Hann var vel vakandi í vítateignum og afgreiddi færin sín af miklu öryggi. 

Arne Slot: ,,Öll lið sem við mætum spila eins vel og þau geta. Ef á að takst að vinna leikina þurfum við að spila af fullum krafti. Það er ekki alltaf auðvelt að spila á fullum krafti en það dugar ekkert annað."

Fróðleikur

- Luis Díaz er kominn með níu mörk á keppnistímabilinu. 

- Cody Gakpo skoraði sjötta mark sitt á leiktíðinni. 

- Liverpool hefur aldrei tapað fyrir þýsku liði á Anfield. 

- Liverpool hefur þrívegis leikið gegn Bayer Leverkusen á Anfield. Allir leikirnar hafa unnist. 

- Liverpool hefur ekki tapað í síðustu 14 leikjum sínum gegn þýskum liðum.

- Þetta var aðeins þriðja tap Bayer Leverkusen frá byrjun síðustu leiktíðar.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan