| Sf. Gutt

Landsleikjafréttir

Landsleikjahrotan, sem nú stendur yfir, er komin vel á veg. Fulltrúi Liverpool skoraði í snum fyrsta landsleik sem var sannarlega vel gjört. 

Curtis Jones lék sinn fyrsta landsleik, á fimmtudaginn, þegar England vann Grikkland 0:3 á útivelli. Hann var í byrjunarliðinu og skoraði síðasta mark leiksins þegar hann sendi boltann í markið með fallegri hælspyrnu úr miðjum vítateig. Hann var kosinn Maður leiksins. Ekki amaleg byrjun á landsliðsferli.

Ollie Watkins skoraði fyrsta mark enskra og það annað var sjálfsmark Odysseas Vlachodimos. Kostas Tsimikas var í liði Grikkja. Jarell Quansah var á bekknum hjá Englandi.

Caoimhin Kelleher var hetja Íra sem unnu Finna 1:0 í Dublin. Evan Ferguson hafði komið Írum í fyrri hálfleik en Finnar fengu svo víti á 77. mínútu. Joel Pohjanpalo tók vítið en Caoimhin henti sér til hægri og varði fast skot hans. Hann tryggði þar með Írum sigur í leiknum. Frábært hjá þessum magnaða markmanni!

Ibrahima Konaté var í góðu formi þegar Frakkar og Ísrael skildu án marka í París.

Argentína tapaði 2:1 í Paragvæ. Alexis Mac Allister kom inn sem varamaður. 

Í gærkvöldi unnu Skotar magnaðan 1:0 sigur á Króatíu á Hampden Park. Andrew Robertson var sem fyrr fyrirliði Skota og spilaði vel. Ben Doak, sem er núna í láni hjá Middlesbrough, var í byrjunarliðinu og var valinn Maður leiksins. Hann lagði upp sigurmarkið þegar hann braust fram hægra megin og gaf fyrir. Boltinn fór á John McGinn sem skoraði af stuttu færi. Þá voru aðeins fjórar mínútur eftir. Það var klappað vel fyrir Ben þegar hann fór af velli í viðbótartíma. 

Norður Írar unnu Hvíta Rússland 2:0 í Belfast. Conor Bradley var í byrjunarliðinu eins og síðustu mánuði. Hann spilaði vel. 

Wataru Endo leiddi Japan sem vann stórsigur 0:4 í Indónesíu. 

Holland vann stórsigur 4:0 á Ungverjum í Amsterdam í kvöld. Virgil van Dijk, Ryan Gravenberch og Cody Gakpo voru í byrjunarliði Hollands. Dominik Szoboszlai fór fyrir Ungverjum. Cody skoraði annað mark Hollendinga. Markið kom úr víti.

Ungliðinn Lewis Koumas, sem er í láni hjá Stoke, kom inn sem varamaður undir lok leiks Wales í Tyrklandi. Leiknum lauk án marka. Neco Williams og Harry Wilson, fyrrum leikmenn Liverpool, spiluðu með Wales.  

Darwin Núnez og Luis Díaz mættust með þjóðum sínum. Úrúgvæ vann Kólumbíu 3:2.

Hinn efnilegi Trey Nyoni spilaði sinn fyrsta leik fyrir enska undir 19 ára liðið. England vann Búlgaríu 2:1.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan