Jafntefli í ótrúlegum leik!
Liverpool og Newcastle United skildu jöfn 3:3 í ótrúlegum leik á St James´ Park í kvöld. Hvort lið hefði getað skorað fleiri mörk en líklega voru úrslitin sanngjörn.
Skjórarnir byrjuðu af geysilegum krafti vel studdir af stuðningsmönnum sínum. Strax í byrjun leiks átti Sandro Tonali skot utan við vítateiginn sem Caoimhin Kelleher varð að hafa sig við að verja í horn. Liverpool náði loks að ógna á 14. mínútu. Alexis Mac Allister skaut þá við vítateiginn en Nick Pope varði vel í horn. Upp úr horninu var Argentínumaðurinn aftur á ferðinni, kom sér í skotstöðu en skot hans fór í utanverða stöngina og framhjá.
Á 22. mínútu átti Jacob Murphy skot utan vítateigs hægra megin sem fór í utanverða stöngina. Newcastle komst yfir á 35. mínútu og kom það ekki á óvart miðað við gang leiksins. Alexander Isak fékk þá boltann vel utan vítateigs. Hann lék nær teignum og hamraði boltann svo upp undir þverslána. Glæsilegt mark og Caoimhin átti ekki möguleika. Rétt á eftir náði Anthony Gordon boltanum af Joe Gomez. Hann lék að markinu en Caoimhin var yfirvegaður í markinu, beið eftir skotinu og varði. Newcastle yfir í hálfleik og það sanngjarnt.
Leikmenn Liverpool höfðu verið í vandræðum í fyrri hálfleik en eftir aðeins fimm mínútur náði toppliðið að jafna. Mohamed Salah fékk boltann út til vinstri. Þar lék hann sig í fyrirgjafastöðu og gaf fyrir á Curtis Jones sem smellti boltanum upp í þaknetið úr vítateignum. Það var varla að nokkur eygði boltann fyrr en hann lá í markinu. Frekar óvænt mark en sannarlega fallegt! Fjórum mínútum seinna gaf Cody Gakpo þvert fyrir markið, Darwin Núnerz renndi sér á eftir boltanum en rétt missti af honum þannig að hann náði ekki að stýra honum í markið.
Liverpool spilaði mun betur en í fyrri hálfleik. Það kom því gegn gangi mála að heimamenn komust yfir á 62. mínútu. Anthony fékk boltann í vítateignum. Hann náði að snúa Joe af sér og skjóta boltanum út í hægra hornið. Hann fagnaði innilega þrátt fyrir að vera stuðningsmaður Liverpool eins og upplýsist í sumar þegar Liverpool sýndi honum áhuga.
Fimm mínútum seinna skipti Arne Slot um þrjá leikmenn. Trent Alexander-Arnold, Luis Diaz og Dominik Szoboszlai leystu Joe Gomez, Cody Gakpo og Ryan Gravenberch af hólmi. Mínútu síðar jafnaði Liverpool. Trent fékk færi á að gefa fyrir frá hægri. Varnarmaður komst fyrir en Trent fékk boltann aftur og reyndi á nýjan leik. Hann hitti beint á Mohamed sem renndi boltanum viðstöðulaust út í vinstra hornið. Enn á ný skorar Egyptinn!
Hraðinn í leiknum hélt áfram sem aldrei fyrr. Á 73. mínútu komst Jacob í góða stöðu við vítateiginn. Caoimhin kom lengst út úr markinu en sem betur fer hitti Jacob ekki autt markið. Níu mínútum fyrir leikslok lék Mohamed á varnarmann hægra megin í vítateignum og skaut svo út í fjærhornið en boltinn hafnaði í stönginni rétt neðan við vinkilinn. Algjör óheppni að Liverpool kæmist ekki yfir en það gerðist svo tveimur mínútum seinna. Trent sendi inn í teiginn á Mohamed frá hægri. Hann lék framhjá varnarmanni og skoraði svo örugglega út í hægra hornið. Gestirnir fögnuðu nú ógurlega enda full ástæða til!
Liverpool hafði nú allt í hendi sér en heimamenn lögðu ekki árar í bát. Á lokamínútunni fékk Newcastle augaspyrnu frá hægri. Boltinn var sendur hátt í átt að fjærstöng. Caoimhin hefði vel getað gripið boltann eða slegið hann frá. En hann ákvað á láta boltann svífa í markspyrnu. Þar misreiknaði hann sig því Fabian Schar hafði fylgt á eftir, renndi sér á boltann og stýrði honum í autt markið. Heimamenn gengu af göflunum. Enn og aftur jafnt. Mikil mistök hjá Caoimhin en það er varla hægt að reiðast honum of mikið því hann er búinn að standa sig svo vel á leiktíðinni.
Liverpool sótti af krafti í viðbótartímanum. Alexis átti þrumuskot sem fór í aftanverðan upphandlegg varnarmanns og vildu Rauðliðar að sjálfsögðu fá víti. Ekkert var dæmt sem hefði kannski átt að gera því handleggurinn var ekki upp við líkamann og boltinn komst ekki sína leið. Jafntefli varð niðurstaðan og líklega var það sanngjarnt.
Liverpool átti lengi vel erfitt uppdráttar í leiknum og þá sérstaklega fyrir hlé. En liðið sýndi styrk með því að jafna í tvígang og komast svo yfir. Liverpool hefði átt að hafa sigur en það tókst ekki. Frábær leikur og niðurstaðan sanngjörn þegar allt er tekið.
Áhorfendur á St James´ Park: 52.237.
Maður leiksins: Mohamed Salah. Egyptinn skoraði tvö mörk og lagði upp eitt. Stöngin kom í veg fyrir þrennu. Mögnuð framganga.
Arne Slot: ,,Eftir að við jöfnuðum eitt eitt í síðari hálfleik fannst mér við spila mjög vel. Við sköpuðum mörg færi og sum mjög góð. Svo vorum við þrjú tvö yfir þegar mínúta var eftir og þá er maður vonsvikinn að missa tvö stig.
Fróðleikur
- Curtis Jones skoraði annað mark sitt á leiktíðinni.
- Curtis var að spila sinn 150. leik með Liverpool. Hann er búinn að skora 18 mörk í þeim.
- Mohamed Salah er kominn með 15 mörk á keppnistímabilinu.
- Mohamed er búinn að skora í sjö leikjum í röð.
- Þetta var í 37. sinn sem Mohamed skorar og leggur upp mark í sama leiknum. Það er nýtt met í Úrvalsdeildinni.
- Alexis Mac Allister var bókaður og er þar með kominn í eins leiks bann í deildinni.
- Argentínumaðurinn missir líka af næsta Evrópuleik Liverpool vegna leikbanns.
-
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Mohamed Salah -
| Sf. Gutt
Af spjöldum sögunnar! -
| Sf. Gutt
Grannarimmunni frestað! -
| Sf. Gutt
Síðasti grannaslagurinn á Goodison Park! -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Nýt hverrar mínútu hérna! -
| Sf. Gutt
Darwin tryggði sigur í blálokin!