| Sf. Gutt

Síðasti grannaslagurinn á Goodison Park!

Liverpool og Everton leiða saman hesta sína í 245. skipti í hádeginu á morgun. Þetta verður í síðasta sinn sem liðin leika saman á Goodison Park. Reyndar gætu liðin dregist saman á Goodison Park í FA bikarnum seinna á leiktíðinni en þetta verður í það minnsta síðasti deildarleikur liðanna á þessum sögufræga leikvangi. 

Af þeim sökum má búast við stríðsástandi innan vallar sem utan í rokinu sem spáð er á Mersey svæðinu á morgun. Stuðningsmenn og leikmenn þeirra Bláu munu án nokkurs vafa leggja allt í sölurnar til að vinna þennan síðasta leik á Goodison Park á móti þeim Rauðu. 

Anfield Road og Goodison Park eru samofnir sögu Liverpool Football Club og Everton Football Club. Frá árinu 1884 til ársins 1892 var Anfield heimavöllur Everton en deila um leiguverð olli því að forráðamenn Everton ákváðu að flytja frá Anfield yfir Stanley garðinn yfir á svæði sem kallast Goodison. Þar reisti Everton sér eigin leikvang sem hlaut nafnið Goodison Park.

John Houlding, sem átti Anfield, ákvað í framhaldinu að stofna knattspyrnufélag sem myndi eiga heimavöll sinn á Anfield. Svo var gert í mars 1892 og hlaut nýja félagið nafnið Liverpool Football Club. Félagið fékk svo formlegt leyfi til að hefja starfsemi 3. júní sama árs. 

Þetta verður 120. leikur Liverpool og Everton á Goodison Park. Eru þá allar keppnir taldar. Liverpool hefur að auki tvívegis leikið á Goodison í FA bikarnum á móti Manchester United. Þar með verður leikurinn á morgun númer 122 hjá Rauða hernum á Goodison.

Fram til þessa hafa Everton og Liverpool unnið 41 leik hvort lið á Goodison. Jafnteflin eru 37. Liverpool hefur skorað 147 mörk en Everton 141. Ótrúlega jafnt á komið í þessum 119 leikjum bæði með úrslit í leikjum og markatölu.

Ástæða þess að Merseybakka liðin mætast í síðasta skipti í deildarleik á Goodison Park í hádeginu á morgun er sú að næsta sumar flytur Everton með herbúðir sínar að bökkum Mersey árinnar á nýjan heimavöll. Leikvangurinn er enn sem komið er kenndur við hafnarsvæði sem nefnist Bramley-Moore. Hann á að taka 52.888 áhorfendur í sæti. Leikvangurinn er ekki ýkja fjarri Anfield og Goodison og telst í göngufæri.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan