| Heimir Eyvindarson

Er Arne Slot Bob Paisley 21.aldarinnar?

Jürgen Klopp var stundum líkt við Bill Shankly, af mörgum góðum ástæðum. En getur verið að við séum virkilega svo heppin að sagan sé að endurtaka sig varðandi eftirmenn þessara einstöku framkvæmdastjóra liðsins okkar?

Það er ekkert smá verkefni að taka við sigursælu stórliði af vinsælum knattspyrnustjóra. Sumum tekst það, öðrum ekki. Þar getur margt spilað inní. Að sjálfsögðu er ekki tímabært að bera Arne Slot saman við Paisley í neinni alvöru, en við værum líklega öll að ljúga ef við héldum því fram að árangur Slot það sem af er kæmi okkur ekki ánægjulega á óvart. Hingað til hefur honum gengið framar vonum það risavaxna verkefni að taka við af stjóra sem var elskaður og dáður af öllum stuðningsmönnum - og halda góðum dampi. Vert er að minnast þess að árangur Bob Paisley á sínum tíma kom stuðningsmönnum einnig verulega á óvart.

Hér verður því velt upp í hvernig ásigkomulagi framkvæmdastjórar hafa skilað liðinu af sér til eftirmanna sinna. Tók Graeme Souness t.d. við úr sér gengnu liði af Dalglish 1991, eins og sumir hafa haldið fram. Rétt eins og landi hans David Moyes á Old Trafford 2013. Eða var Souness, líkt og Moyes, einfaldlega ekki rétti maðurinn í svo stórt starf? Hvernig liði tók Arne Slot við af Klopp? Var það jafn gott og liðið sem Shankly eftirlét Paisley. Jafnvel nógu gott til að verða stórveldi í 10-15 ár?

Svona vangaveltum er erfitt að svara, nær ómögulegt er að bera saman lið ólíkra tíma af einhverju viti, en það má kannski finna einhver líkindi með eiginleikum stjóranna. Arne Slot virðist vera yfirvegaður og skipulagður og með virkilega gott auga fyrir leiknum. Rétt eins og Bob Paisley, sigursælasti stjóri Liverpool frá upphafi.

 Hér verður semsagt rýnt örlítið í það í hvernig ástandi Liverpool liðið var, utan vallar sem innan, þegar helstu stjóraskipti undanfarinna 50 ára áttu sér stað. Frá Paisley (1974) til Slot (2024). Yfirferðin er ekki vísindaleg, en þó verður rýnt í ýmsa fróðlega tölfræði sem að mestu er fengin af hinum frábæra vef Lfchistory.net 

 

 Gullöld Liverpool – formúlan fundin upp

Hjá Liverpool þarf að leita aftur til gulláranna frá 1975-1990 til að sjá stjóraskipti ganga upp aftur og aftur, þegar Paisley tók við af Shankly, Fagan af Paisley og Dalglish af Fagan og allt gekk eins og í sögu.

Á þessum tíma, frá seinni hluta Shankly tímans (1963-1973 um það bil) og fram til 1991 þegar Dalglish lét af störfum, ríkti mikill stöðugleiki hjá Liverpool. Það var ekki fyrr en Graeme Souness tók við liðinu, tveimur mánuðum eftir brotthvarf Dalglish, sem fór að halla undan fæti. Við tók langt tímabil, sem einkenndist af vandræðagangi og vantrú. Allt þar til Jürgen Klopp kom í október 2015 og tókst að gera liðið aftur að því stórveldi sem það var. Fékk okkur til að trúa aftur. 

En víkjum sögunni fyrst að manninum sem lagði grunninn. Manninum sem fékk stuðningsmenn Liverpool til að trúa á félagið og elska það. Og ekki síst að elska hann.  

Þótt Skotinn Bill Shankly, sem stýrði Liverpool frá 1959-1974 hafi kannski ekki unnið ýkja marga titla með Liverpool á sínum tíma er óumdeilt að hann er maðurinn sem reisti liðið upp úr öskustónni og gerði það að stórveldi. Rétt eins og Ferguson tókst hjá United og Jürgen Klopp hjá Liverpool. Besta tímabil Shankly hjá Liverpool hvað titla varðar var á 7. áratugnum, en þá vann liðið næst efstu deild (1962), Englandsmeistaratitilinn (1963 og 1965) og FA-bikarinn (1964).
Liðið gekk síðan í gegnum talsverða endurnýjun um 1970 og þá kom aftur góð titlahrina; vorið 1973 vann liðið bæði FA-bikarinn og UEFA-bikarinn (Evrópudeildin) og 1974 vann liðið ensku deildina í 3. sinn undir stjórn Skotans.

Bill Shankly með fyrsta Evrópubikar Liverpool (1973)

Shankly var risastór karakter sem var óhræddur að láta skoðanir sínar í ljós. Hann var sjarmerandi og mælskur og aðdáendur og leikmenn voru tilbúnir að vaða eld og brennistein fyrir hann. Kannski engin tilviljun að Jürgen Klopp hafi oft verið líkt við hann. Hér er til að mynda fræg tilvitnun frá Shankly, sem gæti allt eins hafa komið úr munni Klopp mörgum áratugum síðar:

'Since I've come here to Liverpool, to Anfield, I've drummed it into our players, time and again, that they are privileged to play for you. And if they didn't believe me, they believe me now'

Það þarf ekki að kafa djúpt ofan í heimildir til að sjá að stuðningsmenn Liverpool voru í sárum þegar hann hætti. Það þótti óhugsandi að einhver gæti fetað í hans risastóru spor. Hljómar kunnuglega, ekki satt? 

 

 Bob Paisley tekur við 

Það kom ýmsum á óvart að hinn hægláti Bob Paisley, aðstoðarþjálfari Shankly, skyldi taka við Liverpool þegar Shankly hvarf á braut. En árangur hans með liðið næstu árin var engu líkur. Hann er sigursælasti þjálfari Liverpool sögunnar og þó víðar væri leitað.  

Þótt Shankly hafi ekki náð að innbyrða sama magn af bikurum og eftirmaður hans er óumdeilanlegt að hópurinn sem Paisley tók við af honum var firnasterkur. Liðið var nýbúið að landa FA-bikarnum og meðalaldur þess var í kringum 26 ár. Elsti leikmaðurinn var Ian Callaghan, 32 ára, en restin af aðalliðshópnum var öll á besta aldri. Phil Thompson, sem var farinn að ýta við harðjöxlunum Emlyn Hughes (26) og Tommy Smith (29) í hjarta varnarinnar, var einungis 20 ára, Kevin Keegan var 23 ára, Ray Clemence og John Toshack 25 ára og Steve Heighway 26 ára, svo nokkur dæmi séu nefnd. Allir þessir leikmenn eru goðsagnir í hugum Liverpool stuðningsmanna sem muna þessa tíma. 

Það gerði Paisley þó dálítið erfitt fyrir að Shankly átti erfitt með að slíta tengslin við liðið. Sagan segir að hann hafi séð eftir því að hætta og hann mætti á allar æfingar þar sem leikmenn heilsuðu honum sem stjóra. Svo fór að Paisley bað sinn gamla lærimeistara að hætta að koma á æfingar. Við það og ýmislegt fleira í sambandi við viðskilnaðinn við félagið móðgaðist Shankly herfilega, sem endaði með því að hann hætti að mæta á leiki liðsins. 

Það leiðir reyndar hugann að öðrum Skota sem aðeins hefur verið minnst á hér, Alex Ferguson, sem situr alltaf á sínum stað í stúkunni á Old Trafford, misfýldur yfir frammistöðu liðsins. Hugsanlega dálítið ógnandi og óþægilegt fyrir þá fjölmörgu sem hafa reynt að stýra United á rétta braut síðustu árin, að hafa goðsögnina alltaf yfir sér. 

Alvöru stórveldi á öllum vígstöðvum

Paisley tókst hið ómögulega: Að gera enn betur með liðið en goðsögnin Shankly. Hann styrkti liðið umtalsvert, var glúrinn að krækja í góða leikmenn sem kostuðu ekki ýkja mikið en keypti líka einn og einn leikmann fyrir stórar upphæðir þegar sá gállinn var á honum. Til að mynda keypti hann Kenny Dalglish á metfé á þeim tíma, 440 þúsund pund, og skömmu síðar reiddi hann fram 300 þúsund pund fyrir óþekktan framherja frá Chester, Ian nokkurn Rush. 

En allt tekur enda og vorið 1983 hætti Paisley með liðið eftir að hafa tryggt liðinu 18 titla í öllum mögulegum keppnum á 9 tímabilum, þar af vann liðið ensku deildina sex sinnum. 

Helstu breytingar á hópnum í tíð Paisley:

Kaup: Ray Kennedy, Phil Neal, Terry McDermott, Alan Hansen, Kenny Dalglish, Graeme Souness, Alan Kennedy, Ronnie Whelan, Ian Rush, Bruce Grobbelaar, Craig Johnston, Mark Lawrenson, Steve Nicol

Sölur: Chris Lawler, Kevin Keegan, John Toshack, Ian Callaghan, Emlyn Hughes, Tommy Smith, Steve Heighway, Jimmy Case, Ray Clemence

Flestir þeir leikmenn sem fóru frá Liverpool á Paisley tímanum voru komnir vel yfir þrítugt og höfðu að mestu misst sæti sitt í liðinu. Einu leikmennirnir sem voru undir þrítugu og áttu fast sæti í byrjunarliðinu þegar þeir yfirgáfu félagið voru Keegan og Case. Ray Clemence var líka lykilmaður og þótt hann væri kominn yfir þrítugt átti hann nóg eftir eins og gjarnan er raunin með markmenn.  

Niðurstaða: Ef einungis er litið á kaup og sölur er morgunljóst að Paisley skilaði af sér liði í toppstandi. Þeir leikmenn sem Paisley keypti fylltu svo sannarlega skarð þeirra sem hurfu á braut. Og gott betur. Liverpool liðið hafði líklega aldrei verið betra.  

 

Liverpool formúlan verður til

 Liverpool ákvað að halda í hefðina og skipa Joe Fagan, sem hafði verið hægri hönd Paisley frá árinu 1979, framkvæmdastjóra. Fagan hafði starfað með Paisley og Shankly allt frá árinu 1959 og var þjálfari sem leikmenn báru ómælda virðingu fyrir. 

Og hefðin reyndist Liverpool vel. Fagan byrjaði ferilinn með miklum glæsibrag, gerði sér lítið fyrir og stýrði liðinu til sigurs í þremur keppnum tímabilið 1983-84; ensku deildinni, deildabikarnum og Evrópukeppni meistaraliða.

Hvernig var hópurinn sem Fagan fékk í arf?

 Ef litið er á hópinn sem Fagan tók við er óhætt að segja að hann hafi verið firnasterkur. Liðið var enskur meistari, meðalaldur 16 manna hópsins var um það bil 26 ár og meðalaldur þeirra 11 sem léku flesta leiki tímabilið 82-83 var sá sami. 

Bob Paisley hafði eins og áður segir verið glúrinn á leikmannamarkaði, eitt mesta afrek hans þar fyrir utan hið fullkomna framherjapar Dalglish og Rush var kannski að kaupa alls óþekktan markvörð frá kanadíska félaginu Vancouver Whitecaps. Fljótlega eftir að Grobbelaar kom til liðsins ákvað goðsögnin Ray Clemence að ganga til liðs við Tottenham, við mikla sorg stuðningsmanna. En þeir voru tiltölulega fljótir að taka gleði sína á ný þegar sprellarinn frá Zimbawbe var farinn að leika listir sínar milli stanganna.

Lykilmenn farnir að reskjast 

Þótt meðalaldur liðsins hafi verið í fínu lagi verður þó ekki litið fram hjá því að nokkrir af allra mikilvægustu mönnum liðsins voru farnir að eldast aðeins þegar Paisley hvarf á braut. Kenny Dalglish og Phil Neal voru 32 ára og Souness þrítugur. Hafa ber í huga að þótt 30 ár þyki kannski ekki hár aldur í boltanum í dag var öldin önnur á Englandi á þessum tíma. Dómarar leyfðu harðari brot, ástand vallana var verra, skiptingar voru færri, enginn pældi í næringarfræði og töluvert áfengissull var landlægt í enska boltanum þannig að upp úr þrítugu var yfirleitt farið að halla dálítið undan fæti hjá þeim leikmönnum sem mest mæddi á.

Það breytir því þó ekki að Fagan tók við sigursælum hóp sem hélt áfram að vinna stóra sigra undir hans stjórn. Liverpool formúlan virkaði fullkomlega.  

Heysel harmleikurinn 

Eftir þrjá titla á fyrsta tímabili Fagan gerðist það í fyrsta sinn í heilan áratug leiktíðina 1984-1985 að Liverpool vann enga keppni. Liðið endaði í 2. sæti í deildinni, 13 stigum á eftir Everton, datt út í undanúrslitum FA bikarsins fyrir Manchester United sem vann bikarinn að lokum og tapaði síðan fyrir Juventus í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða á Heysel leikvangnum í Brussel 29. maí 1985. Sá dagur er einn sá svartasti í sögu fótboltans, en eftir átök milli stuðningsmanna hrundu áhorfendapallarnir á hrörlegum Heysel vellinum með þeim afleiðingum að 39 manns létu lífið. Þrátt fyrir þetta var leikmönnum gert að spila leikinn. Svo fór að Juventus vann leikinn 1-0.

Fagan hafði ákveðið að draga sig í hlé þá um vorið og víst er að ekki hjálpaði leikurinn á Heysel honum við að skipta um skoðun. Fagan var þó tíður gestur bæði á Anfield og Melwood eftir að hann hætti störfum og óhræddur við að gefa góð ráð. Á sama hátt var eftirmaður hans, Kenny Dalglish, óhræddur við að þiggja góð ráð frá honum. 

 

Helstu breytingar á hópnum í tíð Fagan:

Kaup: Gary Gillespie, John Wark, Paul Walsh, Jan Mølby, Kevin McDonald

Sölur: Graeme Souness, Phil Thompson, David Fairclough

Phil Thompson og David “supersub” Fairclough voru vissulega í miklum metum hjá stuðningsmönnum en hvorugur spilaði stórt hlutverk hjá liðinu þegar þeir kvöddu. Skarðið sem Graeme Souness skildi eftir sig var aftur á móti býsna stórt. Þótt hann hafi verið kominn yfir þrítugt þegar hann ákvað að reyna fyrir sér hjá Sampdoria á Ítalíu var mikill missir af honum, enda var hann án efa einn allra mikilvægasti liðsins á gullaldarárunum. Hann var fyrirliði Liverpool frá 1981-84 og hans síðasta verk sem leikmaður var að lyfta Evrópubikarnum á loft í Róm.

 

Sammy Lee hefur sagt söguna af því þegar leikmenn sátu hálf litlir í sér í búningsherberginu fyrir úrslitaleikinn 1984, á troðfullum heimavelli ítalska liðsins. Þá tók Souness af skarið og ákvað að leikmennirnir skyldu labba hring í kringum völlinn á hlaupabrautinni og veifa til áhorfenda. Það tók stressið úr hópnum og kannski einhverjar tennur úr stuðningsmönnum Roma. Þarna sýndi Souness mikla leiðtoga hæfileika.

 Bestu kaup Fagans voru efalítið kaupin á Jan Mølby sem heillaði stuðningsmenn upp úr skónum næstu árin með gullsendingum og skemmtilegum töktum. Þá kom John Wark einnig sterkur inn, þótt hann nyti ekki eins mikilla vinsælda meðal stuðningsmanna og “Stóri Daninn”. 

Meðalaldur 16 manna hóps Fagan var yfirleitt í kringum 26 ár en algengur meðalaldur byrjunarliðsins var heldur hærri, eða 27,5 ár. Þar munaði mestu um aldursforsetana Neal og Dalglish, sem báðir voru 34 ára en spiluðu þó samtals 117 leiki í öllum keppnum tímabilið 1984-85. 

Niðurstaða: Þótt skarð Souness hafi verið stórt komu nokkrir öflugir leikmenn í staðinn. Á heildina litið má því vel halda því fram að Joe Fagan hafi skilað af sér nokkurn veginn jafn góðum hópi og hann tók við, af Bob Paisley. 

Fagan hættir og King Kenny tekur við

 Þegar Fagan lét af störfum vorið 1985 bjuggust kannski flestir við því að Ronnie Moran (t.v. á myndinni hér að neðan) tæki við. Moran hafði verið í þjálfarateymi Liverpool frá 1969 og þar áður var hann farsæll leikmaður og um tíma fyrirliði liðsins. Hann þekkti félagið út og inn og naut mikillar virðingar. En ýmsum að óvörum var það besti leikmaður félagsins á þessum tíma, Kenny Dalglish, sem var gerður að stjóra. Spilandi stjóra, sem var nýmæli hjá Liverpool.  

Dalglish var enn með töfra í tánum og spilaði töluvert fyrstu tvær leiktíðir sínar, en eftir það var hann að mestu á hliðarlínunni. Með Ronnie Moran og Roy Evans (til hægri á myndinni) sér við hlið. Dalglish hefur aldrei farið leynt með það að Moran var honum ómetanlegur styrkur í stjórastarfinu. Eins og áður hefur komið fram var Dalglish einnig óhræddur við að þiggja ráð frá forvera sínum Fagan.

Tvenna á fyrstu stjóratíð Dalglish 

King Kenny byrjaði stjóraferilinn með miklum glæsibrag. Liverpool vann tvöfalt, bæði deild og FA bikar, sem var eftirsóttasta tvennan í enska boltanum á þeim árum. Leiktíðina 1986-87 komu hins vegar engin verðlaun í hús. Liverpool endaði í 2. sæti í deildinni, 9 stigum á eftir Everton, og tapaði fyrir Arsenal í úrslitum Deildabikarsins. 

Ian Rush fór til Juventus á Ítalíu vorið 1987, hann hafði raunar verið seldur sumarið áður en var á láni hjá Liverpool út leiktíðina. Í hans stað fékk Dalglish hinn írska John Aldridge frá Oxford í janúar 1987 og um sumarið styrkti hann liðið enn frekar með kaupum á Ray Houghton, félaga Aldridge hjá Oxford, Peter Beardsley og John Barnes. 

Þarna var líklega orðið til eitt allra besta lið sem Liverpool hefur haft á að skipa. Aldridge tókst að fylla skarð Rush fullkomlega, meira að segja yfirskeggið var jafn glæsilegt. Barnes og Beardsley voru miklir töframenn og skoruðu eða gáfu stoðsendingar í svo að segja hverjum einasta leik. Samtals kom þetta nýja þríeyki að 100 mörkum í öllum keppnum á sinni fyrstu leiktíð og Aldridge endaði sem markakóngur deildarinnar. Sannarlega frábær kaup allir sem einn.

Besta lið í heimi?

Mynd úr myndasafni LFChistory.net

 Liverpool vann deildina þrisvar sinnum, FA bikarinn tvisvar og Góðgerðarskjöldinn fjórum sinnum undir stjórn Dalglish. Liðið var í banni frá Evrópukeppni eftir Heysel harmleikinn, en var örugglega eitt allra besta lið Evrópu á þessum tíma. Ef ekki það besta. Það hefði t.d. verið virkilega gaman að sjá hvar Liverpool lið Dalglish stóð í samanburði við firnasterkt lið AC Milan með Hollendingana Riikjard, Gullit og Van Basten í broddi fylkingar. En því miður fáum við aldrei að vita hvernig sá samanburður hefði orðið. 

Annar harmleikur varpar skugga á gullöldina 

Hafi 29. maí 1985 verið svartur dagur í sögu fótboltans er líklega ekki hægt að setja neinn lit á 15. apríl 1989. Þann dag létust 94 stuðningsmenn Liverpool (þrír til viðbótar létust síðar af sárum sínum) í undanúrslitaleik Liverpool og Nottingham Forest í FA bikarnum á Hillsborough vellinum í Sheffield. 

Þessi hræðilegi atburður markaði líf allra leikmanna og annars starfsliðs Liverpool fyrir lífstíð, en líklega engan jafn djúpt og Dalglish. Hann fór í allar jarðarfarir sem hann gat, heimsótti aðstandendur og studdi þá dyggilega í baráttunni við bresk yfirvöld, sem er sorgarsaga sem ekki verður rakin nánar hér.

Kóngurinn brennur út

Í febrúar 1991 var Dalglish orðinn algerlega uppgefinn og ákvað að taka sér frí frá knattspyrnu til að hlaða batteríin. Það var mikið reiðarslag fyrir stuðningsmenn enda hafði sigurganga liðsins haldið áfram þótt eftirleikar Hillsborough hafi tekið sinn toll. Liðið vann deildina vorið 1990 og sat á toppi deildarinnar þegar Dalglish hætti. 

Helstu breytingar á hópnum í stjóratíð Dalglish:

Kaup: Steve McMahon, John Aldridge*, Peter Beardsley, John Barnes, Ray Houghton, Ian Rush*, Steve Staunton, Glen Hysén, Ronnie Rosenthal, Jamie Redknapp

Sölur: Phil Neal, Alan Kennedy, Ian Rush*, Sammy Lee, John Wark, Paul Walsh, Jim Beglin, John Aldridge* 

*Ian Rush var aðeins eitt tímabil hjá Juventus. Var seldur á 3,2 milljónir punda en keyptur til baka á 2,8. John Aldridge var seldur til Real Sociedad í september 1989. 

Ýmsir söguskýrendur hafa haldið því fram að Liverpool hafi verið komið að fótum fram þegar Dalglish hætti. En það verður aldrei af honum tekið að liðið var ríkjandi meistari og á toppi deildarinnar þegar hann fór. Liðið var nú ekki verr statt en svo. Helst má finna að því að ekkert virðist hafa verið hugað að því að finna arftaka Bruce Grobbelaar í markinu. Grobbelaar var á 34. aldursári þegar Dalglish hætti og varamarkvörður var hinn 27 ára Mike Hooper sem hafði þá verið hjá liðinu síðan 1986 án þess að virka sannfærandi. Átti vissulega ágæta leiki inná milli, en var ekki á nokkurn hátt efni í markmann nr. 1 hjá besta liði Englands.

Það er á vissan hátt furðulegur sofandaháttur að Liverpool skyldi ekki vera búið að finna alvöru markmann til að taka við af Grobbelaar. Enda átti markmannsstaðan hjá Liverpool eftir að vera mikil vandræðastaða næstu árin. Allt þar til Benítez keypti Pepe Reina sumarið 2005. Þótt við munum auðvitað alltaf minnast Jerzy Dudek fyrir hetjulega frammistöðu hans í Istanbul.

Meðalaldur liðsins þegar Dalglish hætti var vissulega í hærri kantinum. Grobbelaar var eins og áður segir elstur (34) og elsti útileikmaðurinn var Svíinn hárprúði Glenn Hysén, 31 árs – jafngamall og David Speedie. Ian Rush, Steve McMahon, Ronnie Whelan, Ray Houghton og Steve Nicol voru allir 29 ára. Meðalaldur aðalliðshópsins var rúm 27 ár og algengur meðalaldur byrjunarliðsins var 28-30 ár. Sem er heldur há tala. Til samanburðar má geta þess að meðalaldur byrjunarliðs meistara Arsenal í báðum leikjunum gegn Liverpool á þessu tímabili var í kringum 26 ár. 

Alls léku 14 leikmenn 20 leiki eða fleiri á þessu lokatímabili Dalglish. Einungis 3 þeirra (21%) voru 25 ára eða yngri. Yngstur þeirra (22 ára) var Steve Staunton sem var í byrjunarliðinu í 29 leikjum og kom inná sem varamaður í 4 leikjum til viðbótar. Eitt fyrsta verk Graeme Souness sem stýrði liðinu frá 16. apríl 1991 var auðvitað að selja Staunton, ásamt reynsluboltunum Beardsley, McMahon og Houghton.  

Niðurstaða: Kenny Dalglish skildi eftir sig lið í toppbaráttu, fullt af góðum leikmönnum og leiðtogum en einstaka lykilmenn voru farnir að lýjast. Eftir á að hyggja var stóra málið að kerfið í kringum klúbbinn var staðnað og full ástæða til að innleiða nýja hugmyndafræði, sem eftirmaður hans Graeme Souness reyndi. Með litlum árangri.

 

Souness tekur við og ræðst strax í breytingar

Þegar Dalglish hætti vildi félagið halda sig við Liverpool formúluna og bauð því Ronnie Moran starfið. Hann var tregur til en samþykkti að lokum með semingi að taka það að sér tímabundið. Hann stjórnaði liðinu þar til Graeme Souness tók við liðinu um miðjan apríl 1991. Þá var liðið búið að missa flugið aðeins, en átti þó ennþá smá möguleika á að vinna deildina. Souness stýrði liðinu í 5 síðustu leikjum tímabilsins, tveir töpuðust og þrír unnust og liðið endaði í 2. sæti, 7 stigum á eftir Arsenal.

Souness gerði sér grein fyrir því að menningin hjá Liverpool, eins og öðrum liðum í enska boltanum, var um það bil að komast á endastöð. Töluverð drykkja viðgekkst og menn úðuðu í sig óhollum mat, jafnt fyrir og eftir leiki sem og æfingar. Hann vissi líka að það var þörf á endurnýjun á hópnum. En hann fór of geyst í breytingarnar og gekk afleitlega að vinna traust leikmanna, starfsliðs og stuðningsmanna. 

 Í janúar 1994 játaði Souness sig loks sigraðan eftir mikið strögl, hjartaáfall, viðtal við Sun og margt fleira vesen. Við keflinu tók Roy Evans, sem hafði verið í þjálfaraliði félagsins síðan 1974.

Helstu breytingar á hópnum í stjóratíð Souness:

Kaup: Mark Wright, Dean Saunders, Walters, Jones, Thomas, James, Clough, Ruddock, Dicks

 Sölur: Steve McMahon, Ray Houghton, Peter Beardsley, Gary Gillespie, Steve Staunton, Glen Hysén, Gary Ablett, David Burrows

Niðurstaða: Til að gæta einhverrar sanngirni í garð Souness var full þörf á því að gera ýmsar breytingar hjá félaginu þegar hann tók við. En hann var einfaldlega ekki rétti maðurinn til að gera þær. Hann hefur sjálfur sagt að það hafi reynst sér erfitt að breyta kúltúr sem hann sjálfur var stór partur af sem leikmaður. Eins var hann of ákafur í að yngja upp liðið. Souness segist sjá eftir tíma sínum sem stjóri Liverpool og hann lítur ennþá á liðið okkar sem sitt lið, eins og kemur fram í umfjöllun LFChistory. Mestu mistök hans í leikmannamálum voru að selja Peter Beardsley til Everton, ekki síst í ljósi þess að Beardsley var stakur bindindismaður! Hjá Everton fór Beardsley á kostum næstu tvö árin og átti svo fjögur ágæt ár hjá Newcastle. Hann skoraði til að mynda 25 mörk fyrir Newcastle leiktíðina 1993-1994. 

 

Souness má þó eiga það að hann var duglegur við að gefa ungum leikmönnum tækifæri. Jamie Redknapp, Steve McManaman og Robbie Fowler eru gott dæmi um það.

Ef og hefði?

Það má telja víst að Kenny Dalglish hefði haldið áfram með Liverpool liðið í einhver ár til viðbótar, ef Hillsborough slysið hefði ekki orðið. Hann sneri aftur í þjálfun í október 1991 þegar hann tók við liði Blackburn sem þá var í næst efstu deild og gerði liðið að meisturum vorið 1995. 

Við sem munum þessa tíma höfum líklega öll velt eftirfarandi spurningum fyrir okkur: Hvað hefði orðið um Liverpool liðið ef Dalglish hefði haldið áfram? Hvað ef Ronnie Moran hefði fengið að halda áfram með liðið? Hvað ef Roy Evans hefði fengið traustið þá en ekki þremur árum síðar, þegar Souness var búinn að umturna öllu? Þessar spurningar leituðu reglulega á stuðningsmenn Liverpool næstu árin og áratugina, enda liðu heil 30 erfið ár þar til Liverpool vann ensku deildina næst. Kannski voru örlög klúbbsins óumflýjanleg, en kannski hefði kóngurinn náð að halda skipinu gangandi eitthvað lengur. Ef og hefði?

Þrautagangan í stuttu máli

Vandræðagangurinn á Liverpool liðinu utan vallar sem innan hélt svo að segja óslitið áfram allt þar til Jürgen Klopp tók við liðinu í október 2015. Þó rofaði einstaka sinnum til. Förum yfir það helsta í stuttu máli. 

 

Roy Evans

Það vantaði ekki stemninguna og skemmtilegheitin hjá Liverpool liðinu undir stjórn Roy Evans, en það var kannski aðeins of gaman til að hægt væri að ætlast til að liðið næði árangri. Töluvert djamm var á leikmönnum og frammistaðan í ágætu hlutfalli við það. Eina stundina afleit, aðra stórkostleg.

Sumir leikmenn liðsins birtust reglulega á forsíðum slúðurblaða, Robbie Fowler var sagður í sambandi með Emmu Bunton í Spice Girls, Jamie Redknapp var fallegasti fótboltamaður veraldar og liðið fékk á sig hinn fræga Spice-Boys stimpil, eftir að þeir bættu til leiks á Wembley í sérsaumuðum hvítum jakkafötum. Og svo framvegis.

Eftir nokkur ár af Evans virðast forráðamenn Liverpool loks hafa gert sér grein fyrir því að menningin væri óheilbrigð og fengu franska skólastjórann Gérard Houllier til að aðstoða Evans við að koma skikki á mannskapinn í byrjun tímabilsins 1998-99. Það samstarf gekk engan veginn upp og svo fór að Evans tók pokann sinn í nóvember og Houllier tók alfarið liðinu og stýrði því til vors 2004.
Helstu kaup Evans: Patrik Berger, Stan Collymore, Jason McAteer, Danny Murphy, Paul Ince, Karl-Heinz Riedle, Phil Babb, John Scales.

 

Houllier tekur til  

Eins og áður segir var Liverpool liðið á þessum tíma fullt af góðum leikmönnum. Sóknarlega gat liðið verið leiftrandi skemmtilegt, en vörn og markvarsla hafði ekki verið í forgangi hjá Evans. Houllier réðst strax í að breyta því og fyrr en varði var orðið hrútleiðinlegt að horfa á liðið. 

Franski skólastjórinn tók líka verulega til hvað varðar agamál, mataræði, drykkju og djamm. Hann náði reyndar mun betur til yngri leikmanna hvað það varðaði, en þeirra eldri, Jamie Carragher snarminnkaði til að mynda djammið eftir föðurlegt tiltal frá Houllier og sömuleiðis ber Steven Gerrard Frakkanum afar vel söguna. Bæði Carragher og Gerrard minntust Houllier af mikilli virðingu og hlýju þegar hann lést, í desember 2020.

Houllier boðaði fimm ára uppbyggingarplan fyrir klúbbinn. Hann stóð fyrir miklum endurbótum á æfingaðstöðunni á Melwood, losaði við sig slatta af leikmönnum sem honum fannst ekki sýna nægilegan metnað og keypti heilan helling í staðinn. 

Það var kannski þar sem hans helstu veikleikar komu í ljós. Hann var í raun einstaklega seinheppinn í leikmannakaupum. Sem dæmi má nefna Norðmanninn Frode Kippe, Senegalana El Hadji Diouf og Salif Diao og Frakkana Jean-Michel Ferri, Bernard Diomede, Antony Le Tallec, Florent Sinama-Pongolle og Bruno Cheyrou, sem Houllier sagði að væri Zidane framtíðarinnar. Svo aðeins örfáir hæfileikalitlir Frakkar sem Houllier keypti séu nefndir. 

Houllier átti þó til að gera góða hluti í leikmannamálum. Líklega var hans snjallasta verk í þeim efnum að fá tvo frábæra leikmenn á frjálsri sölu sumarið 2000. Annars vegar hinn 36 ára Gary McAllister og hins vegar þýska landsliðsbakvörðinn Markus Babbel, sem var einungis 28 ára gamall. McAllister og Babbel voru lykilmenn í Liverpool liðinu sem vann FA-bikarinn, Deildabikarinn og UEFA bikarinn tímabilið 2000-2001.   

Margir stuðningsmenn Liverpool fögnuðu brotthvarfi Houllier mjög. Honum verður þó seint fullþakkað allt það góða sem hann gerði fyrir félagið. Fjórir bikarar, endurbætt æfingaaðstaða og nýr og faglegri hugsunarháttur var það sem hann skildi eftir fyrir eftirmann sinn. Það er í það minnsta eitthvað. 

Helstu breytingar á hópnum í stjóratíð Houllier:

Kaup: Sami Hyypiä, Vladimir Smicer, Stephane Henchoz, Didi Hamann, Emile Heskey, Gary McAllister, Markus Babbel, Igor Biscan, John Arne Riise, Jerzy Dudek, Milan Baros, Steve Finnan, Harry Kewell

 Sölur: Jason McAteer, Steve McManaman, Paul Ince, Robbie Fowler, Jamie Redknapp, David James

 

Rafael Benitez 

Eftirmaður Houllier var Spánverjinn Rafa Benitez. Hann gerði sér lítið fyrir og landaði sigri í Meistaradeildinni strax á fyrstu leiktíð sinni og var eftir það tekinn í hálfgerða guðatölu hjá stuðningsmönnum. Eitthvað fór það fyrir brjóstið á Houllier sem ýjaði að því í viðtölum að sigur í Meistaradeildinni væri einfaldlega eðlilegt framhald á því góða starfi sem hann hefði unnið. En er kannski eitthvað hæft í því? Skoðum aðeins nánar hversu góðu búi Benitez tók við af Houllier. 

Misvægi í stöðum helsti veikleikinn

Meðalaldur liðsins þegar Benitez tók við því var rúm 27 ár. Elstu menn liðsins voru Dudek, Hyypiä og Hamann sem voru rétt skriðnir yfir þrítugt. Aðrir voru á besta aldri. Hins vegar var breiddin ekkert sérstök og eins voru sumar stöður talsvert verr mannaðar en aðrar. Gerrard, Hyypiä og Owen, sem var á leið til Real Madrid, voru líklega einu heimsklassa leikmennirnir og Carragher og Hamann stóðu vel fyrir sínu. Bakverðirnir Riise og Finnan voru mistækir, Dudek í markinu sömuleiðis þótt hann væri líklega besti markvörður Liverpool frá því að Grobbelaar hætti 10 árum áður. Lítið kom út úr Heskey í framlínunni þegar þarna var komið sögu, Kewell var meira og minna meiddur og restin var í besta falli undir meðallagi.

Niðurstaða: Þótt Houllier hafi tekist að koma góðu lagi á hlutina hjá klúbbnum og Benitez hafi að því leyti tekið við góðu búi er óhætt að segja að leikmannahópurinn hefði vel mátt vera sterkari. Það er þess vegna frekar hæpið að halda því fram að sigur í Meistaradeildinni ári eftir brotthvarf franska skólastjórans hafi verið eðlilegt framhald af hans góða starfi, en auðvitað á hann sinn þátt í þeim árangri. 7 af 11 leikmönnum byrjunarliðsins í Istanbul voru leikmenn sem Houllier keypti og sumir þeirra höfðu öðlast dýrmæta reynslu af úrslitaleikjum.

 

Áfram upp og niður, aldrei alla leið

 Það gekk ágætlega hjá Benitez fyrstu árin. Árangurinn í deildinni leiktíðina 2004-5 var reyndar enn slappari en hjá Houllier árið áður, en það gleymdist allt í Istanbul um vorið. Tímabilið 2005-6 endaði liðið í 3. sæti í deildinni með 82 stig og vann FA bikarinn. Tímabilið 2006-7 hófst með sigri á Chelsea í leiknum um Góðgerðarskjöldinn og endaði með tapi fyrir AC Milan í úrslitum Meistaradeildarinnar. Staðan var í sjálfu sér ágæt.

Gillett og Hicks 

Góðgerðarskjöldurinn 2006 reyndust síðasti bikarinn sem Liverpool landaði undir stjórn Benitez. Liverpool liðið sýndi mikinn óstöðugleika í flestum keppnum og Benitez lenti nokkuð oft í allskonar átökum, ekki síst við Bandaríkjamennina Gillett og Hicks sem keyptu Liverpool í febrúar 2007 og eru án efa óvinsælustu eigendur félagsins frá upphafi. Benitez fékk þó að eyða töluverðu í leikmannakaup, sem sum reyndust vel en önnur ekki. Eins og gengur. 

Rétt eins og Houllier var Benitez duglegur að kaupa samlanda sína, en Spánverjarnir reyndust þó aðeins betur en Frakkarnir, nema auðvitað Josemi. Á myndinni hér að neðan sést Josemi þessi fagna manna mest í Istanbul, með spænska fánann um sig miðjan. Hann tók að vísu engan þátt í leiknum og nánast engan þátt í Meistaradeildinni yfirhöfuð, en hann var glaður.

Nokkru síðar ákvað Benitez að skipta Josemi út fyrir litlu minni snilling, Hollendinginn Jan Kromkamp. Já, Benitez átti sína vondu daga á leikmannamarkaðnum eins og Houllier, en hann átti mun fleiri góða daga þar en Frakkinn. Keypti reyndar mun fleiri leikmenn líka. Kaup Benitez á löndum sínum Xabi Alonso, Pepe Reina og Fernando Torres voru til að mynda virkilega góð. Allir heimsklassa leikmenn.

 Leiktíðina 2008-2009 endaði liðið í 2. sæti deildarinnar með 86 stig, sem var besti árangur félagsins frá gullaldarárunum. Þá var liðið orðið firnavel mannað, sterkasta byrjunarliðið samanstóð af Reina, Arbeloa, Aurelio, Carragher, Hyypiä/Skrtel/Agger, Mascherano/Leiva, Alonso, Gerrard, Benayoun, Kuyt og Torres. Býsna góður hópur. 

Leiðin liggur niður á við

Það gekk margt undarlegt á síðustu árum Benitez. Eitt það skrýtnasta var kaupin á Robbie Keane, en hann var keyptur á 19 milljónir í ágúst 2008 og seldur aftur til Tottenham á 16 milljónir í janúar 2009 eftir 28 leiki og 7 mörk. Þá var aðdáun Benitez á miðjumanninum Gareth Barry, sem lék sömu stöðu og Xabi Alonso, dálítið vandræðaleg. Talsverður pirringur var orðinn milli Benitez og stjórnarinnar á þessum tíma, hann fékk ekki að eyða eins miklu og áður enda Kanarnir um það bil að sigla skútunni í þrot. Vorið 2010, þegar allt var endanlega komið í skrúfuna hjá félaginu, aðallega utan vallar, skildu leiðir Liverpool og Rafa Benitez loks og þá tók nú ekki betra við.

Helstu breytingar á hópnum í stjóratíð Benitez:

Kaup: Luis Garcia, Scott Carson, Xabi Alonso, Fernando Morientes, Antonio Nunez, Jan Kromkamp, Momo Sissoko, Peter Crouch, Daniel Agger, Jermaine Pennant, Craig Bellamy, Alvaro Arbeloa, Lucas Leiva, Fernando Torres, Andryi Voronin, Youssi Benayoun, Ryan Babel, Dirk Kuyt, Martin Skrtel, Javier Mascherano, Philipp Degen, Andrea Dossena, Glen Johnson, Alberto Aquilani, David N´Gog, Sotirios Kyrgiakos, Maxi Rodriguez, Raheem Sterling

 Sölur: Danny Murphy, Vladimir Smicer, Milan Baros, Didi Hamann, Chris Kirkland, Jerzy Dudek, Djibril Cissé, John Arne Riise

 

Roy Hodgson

Þessum tíma höfum við flest gleymt. Lesendum sem vilja kynna sér feril Hodgson hjá Liverpool er bent á internetið

Það verður þó að taka fram, af því að efni þessa langhundar snýst um það í hvernig ástandi liðið hefur verið við stjóraskipti fortíðarinnar, að í rauninni skilaði Benitez af sér ágætlega mönnuðu liði sumarið 2010 þrátt fyrir allt sem var í gangi á bak við tjöldin. Vissulega ekki eins sterku og 2008-2009, munaði þar mestu um að 30 milljónunum sem fengust fyrir Alonso sumarið 2009 ákvað Benitez að eyða í Alberto Aquilani og Glen Johnson, sem hvor um sig kostaði 17 milljónir punda. 

Að öðru leyti var liðið ágætt á pappír, en tíð meiðsli góðra leikmanna á besta aldri eins og Fabio Aurelio og Daniel Agger rýrðu gildi hópsins nokkuð. Meðalaldurinn var tæp 27 ár, Carragher var elstur, 33 ára, Gerrard 31 en restin á fínum aldri. 

Niðurstaða: Ytri umgjörð liðsins var í mun verra standi en leikmannahópurinn. Hvað sem erfiðum aðstæðum líður ætti þó öllum að vera ljóst að Roy var ekki maðurinn til að reisa félagið við. 

 

 

Hilmir snýr aftur

Í janúar 2011 var Liverpool komið í fallbaráttu. Gamli Roy var rekinn og kóngurinn Kenny tók að sér að stýra liðinu út leiktíðina. Dalglish tókst að rífa liðið í gang og Liverpool endaði í 6. sæti deildarinnar, sem var prýðisgóður árangur miðað við það sem á undan var gengið. Nýir eigendur Liverpool launuðu Dalglish með nýjum samningi í maí 2011, en sögðu honum upp ári síðar. 

Það var vitanlega risastór og erfið ákvörðun fyrir FSG að reka sjálfa goðsögnina Kenny Dalglish. Liðið vann deildabikarinn og komst í úrslit FA bikarsins vorið 2012, en árangurinn í deildinni var sá versti í áratugi.

Mörgum eldri stuðningsmönnum sárnaði meðferðin á Dalglish, en hefðu örugglega brugðist mun verr við ef hann hefði ekki fengið að halda áfram eftir björgunina árið áður. Nýir eigendur sáu Dalglish líklega aldrei fyrir sér sem framtíðarstjóra og því fór sem fór. 

 Helstu breytingar á hópnum í seinni stjóratíð Dalglish:

 Kaup: Luis Suarez, Andy Carroll, Jordan Henderson, Charlie Adam, Stewart Downing, Jose Enrique, Sebastian Coates

 Sölur: Ryan Babel, Fernando Torres, Raul Meireles

 

Brendan Rodgers

Brendan Rodgers var ungur og spennandi þjálfari sem passaði vel inn í hugmyndafræði eigendanna. Hann var þjálfari spútnikliðs Swansea, sem var eitt skemmtilegasta sóknarlið deildarinnar á góðum degi. Einn besti maður Swansea var Gylfi Sigurðsson og töluvert var slúðrað um það að hann gæti verið á leið til Liverpool. Svo fór þó ekki.

Það er dálítið erfitt að meta ástandið á félaginu í heild þegar Rodgers tók við, því uppbyggingarferlið eftir Gillet og Hicks var tiltölulega stutt á veg komið. Það ríkti þó töluvert meiri bjartsýni í herbúðum félagsins en undanfarin ár. 

Leikmannahópurinn sem Rodgers fékk í hendurnar var óneitanlega dálítið laskaður. Carragher var kominn á síðasta snúning og Gerrard var 33 ára, en samt ennþá besti maður liðsins. Allt of margir slakir leikmenn höfðu bæst við hópinn í tíð Hodgson og Dalglish og ljóst að það þyrfti að gera verulegar breytingar til að ná árangri. 

Dalglish hafði reyndar unnið heilmikið hreinsunarstarf eftir Hodgson og losað félagið við Poulsen, Konchesky og Jovanovic en á móti kom að þegar upp var staðið voru Suarez og Henderson einu alvöru leikmennirnir sem voru keyptir í seinni stjóratíð kóngsins. Og gæði Henderson komu reyndar ekki í ljós fyrr en löngu eftir að Dalglish hætti.  

Brendan Rodgers tókst að byggja upp eitt skemmtilegasta sóknarlið allra tíma, með Suarez, Sturridge og Sterling frammi og Coutinho og Gerrard þar fyrir aftan. En hann gerði mörg mistök og var líklega örfáum númerum of lítill til að stýra félagi sem taldi sig ennþá vera stórveldi.

Það munaði grátlega litlu að liðið ynni deildina vorið 2014, en eftir brotthvarf Suarez sumarið 2014 var allur vindur úr liðinu. Í október 2015 var komið nóg af Rodgers og þá fóru hlutirnir loksins að gerast. 

Helstu breytingar á hópnum í stjóratíð Rodgers:

Kaup: Fabio Borini, Joe Allen, Oussama Assaidi, Daniel Sturridge, Philippe Coutinho, Luis Alberto, Iago Aspas, Simon Mignolet, Kolo Touré, Aly Cissokho, Mamadou Sakho, Rickie Lambert, Adam Lallana, Emre Can, Lazar Markovic, Dejan Lovren, Divock Origi, Alberto Moreno, Mario Balotelli, Joe Gomez, Danny Ings, James Milner, Roberto Firmino, Christian Benteke

Sölur: Alberto Aquilani, Dirk Kuyt, Charlie Adam, Andy Carroll, Jonjo Shelvey, Stewart Downing, Luis Suarez, Pepe Reina, Daniel Agger, Suso, Raheem Sterling

 

Jürgen Klopp, hvað getur maður sagt?

Við vitum öll hvað Jürgen Klopp gerði fyrir okkur, þannig að hér verður farið mun hraðar yfir sögu en hann á skilið. En lítum aðeins á hópinn sem hann fékk í hendurnar.

Suarez og Sterling voru farnir og Carragher og Gerrard hættir. Coutinho, Henderson og Sturridge voru einu klassa leikmennirnir sem voru eftir af 2013-14 liðinu, en Sturridge var mikið frá vegna meiðsla. Rodgers var búinn að kaupa haug af leikmönnum, flesta vel undir pari, en hann fékk James Milner á frjálsri sölu sem reyndist himnasending og pungaði út talsverðu fé fyrir Roberto Firmino, sem reyndist hverrar evru virði og vel það. Stórkostlegur leikmaður, sem Rodgers kunni reyndar ekkert að nota samkvæmt Firmino sjálfum.

Niðurstaða: Þótt Rodgers hafi vissulega skilið nokkra góða leikmenn eftir fyrir Klopp voru of margar stöður illa mannaðar í liðinu. Sturridge var eini alvöru framherjinn og hann var meira og minna á annarri löppinni, Mignolet var aldrei nógu góður markmaður fyrir Liverpool og Alberto Moreno verður ekki minnst fyrir gæða frammistöður í vinstri bakverðinum. Svo fáein dæmi séu tínd til. 

 

From doubters to believers

Eins og áður segir fær Klopp mun minna pláss í þessari grein en hann á skilið, en það þarf engan vísindamann til að sjá það út að Liverpool liðið var ekki á góðum stað þegar hann kom til félagsins í október 2015. Þegar hópurinn sem hann tók við er skoðaður betur kemur í ljós að einu mennirnir sem hann gat notað af einhverju viti voru Joe Gomez, Firmino, Milner, Coutinho, Henderson, Lallana, Origi og Can. Ég ætla ekki að taka mér gömul orð Guðjóns Þórðarsonar í munn og segja að Klopp hafi tekist að búa til kjúklingasalat úr kjúklingaskít, en hann gerði akkurat það sem hann lofaði okkur í upphafi: Fékk okkur til að trúa aftur. Takk fyrir allt, enn og aftur.

 

Arne Slot – nýr kóngur á Anfield?

Látum þessari yfirferð um söguna lokið í bili og skoðum hvernig búi Arne Slot tók við af Jürgen Klopp. 

Samanburður milli ólíkra tímabila eins og hér hefur verið reyndur er auðvitað alltaf dálítið skakkur og skældur. Varamenn og innáskiptingar þekktust til að mynda varla í tíð Shankly og Paisley og það var ekki fyrr en á seinni hluta 9. áratugarins sem leyft var að hafa fimm varamenn á skýrslu og skipta inn tveimur, þannig að eðlilega fengu færri leikmenn tækifæri. 

Eins voru reglur um fjölda útlendinga mun stífari eitthvað fram á 10. áratuginn, sem skýrir til dæmis að hluta til þá umdeildu ákvörðun Souness að selja Írann Steve Staunton á sínum tíma. Svo einhverrar sanngirni sé gætt. Á tíma Jürgen Klopp með Liverpool var skiptingum fjölgað úr þremur í fimm, þannig að þar er ólíku saman að jafna. En þessi samantekt er jú frekar til gamans gerð - og ekki hávísindaleg. 

Jürgen Klopp lét af störfum í lok maí 2024. Á síðustu leiktíð hans með Liverpool lék 21 leikmaður 20 leiki eða fleiri. Þar af voru 13 leikmenn 25 ára eða yngri og fjórir leikmenn 30 ára eða eldri. Elsti leikmaður liðsins var Virgil Van Dijk, sem var á 34. aldursári þegar Klopp lét af störfum. Þess má geta að Van Dijk var eini leikmaður Liverpool sem komst í lið tímabilsins á Englandi þegar lokaleiktíð Klopp var gerð upp. Liverpool endaði í 3. sæti deildarinnar með 82 stig, árangur sem 7 sinnum hefur dugað til sigurs í Úrvalsdeildinni. Auk þess vann liðið Deildabikarinn, gegn Chelsea á Wembley eftir framlengingu.  

Thiago og Matip hættu báðir í vor, en þeir eru báðir búnir að leggja skóna á hilluna og skildu því ekki eftir sig stórt skarð. Eini leikmaðurinn sem hefur komið til félagsins (þegar þetta er ritað) eftir að Slot tók við er Chiesa, en hann hefur lítið komið við sögu. Að öðru leyti er liðið óbreytt.

Stigasöfnun liðsins í deildinni er líka svipuð og á sama tíma í fyrra. Eftir 14 leiki á síðasta tímabili var Liverpool komið með 32 stig, en er með 35 stig í ár. Núna trónir liðið á toppnum, en var í 2. sæti á sama tíma í fyrra. Þá er liðið með fullt hús stiga í Meistaradeildinni og trónir aleitt á toppnum þar líka. 

Niðurstaða: Það er morgunljóst að Klopp skilaði af sér frábæru búi. Þegar litið er yfir söguna, eins og hér hefur verið gert, hafa sennilega bara Fagan og Dalglish fengið betri lið í hendurnar. Að því leyti að þeir tóku við fullmótuðum liðum, stútfullum af sigurvegurum og leiðtogum. 

Helstu breytingar á hópnum í stjóratíð Klopp:

Kaup: Sadio Mané, Lloris Karius, Joel Matip, Gini Wijnaldum, Mo Salah, Allison Becker, Andy Robertson, Alex-Oxlade Chamberlain, Dominc Solanke, Virgil Van Dijk, Naby Keita, Xherdan Shaqiri, Fabinho, Harvey Elliot, Takumi Minamino, Thiago, Diogo Jota, Ibrahima Konaté, Luis Diaz, Darwin Nunez, Cody Gapko, Alexis Mac Allister, Dominik Szoboszlai, Wataru Endo, Ryan Gravenberch

Sölur: Joe Allen, Daniel Sturridge, Philippe Coutinho, Lucas Leiva, Mamadou Sakho, Simon Mignolet, Christian Benteke, Emre Can, Alberto Moreno, Dejan Lovren

Kannski lifi ég enn og aftur í draumaheimi þegar kemur að liðinu mínu. En ég trúi því að það sé álíka bjart framundan á Anfield og á tímum Bob Paisley. Eins og margoft hefur verið bent á er margt líkt með Shankly og Klopp og svei mér þá ef það eru ekki líka heilmikil líkindi með Paisley og Slot. 

YNWA!

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan