| Sf. Gutt

Áfram á sigurbraut!

Sigurganga Liverpool í Meistaradeildinni hélt áfram í kvöld þegar liðið lagði Lille að velli 2:1 á Anfield Road. Sigurinn þýðir að Liverpool leiðir Meistaradeildina með fullu húsi stiga þegar ein umferð er eftir af deildinni. Áframhald er í höfn en í síðustu umferð ræðast hvaða lið hlýtur efsta sætið. 

Fjórar breytingar voru gerðar á liði Liverpool frá sigrinum á Brentford. Darwin Núnez fékk sæti í byrjunarliðinu eftir mörkin dýmætu á laugardaginn. Hákon Arnar Haraldsson komst, með sæti í byrjunrliði Lille, í hóp Íslendinga sem hafa spilað gegn Liverpool.

Lille fékk fyrsta færið strax í byrjun. Gabriel Gudmundsson braust þá fram en skot hans fór framhjá. Eftir þetta tók Liverpool leikinn í sínar hendur. Samleikur liðsins var mjög góður en það var bið á opnum færum. Á 34. mínútu kom mark. Kostas Tsimikas vann boltann á miðjum sínum vallarhelmingi. Curtis Jones fékk boltann og sendi langa sendingu fram á Mohamed Salah sem slapp í gegn. Lucas Chevalie markmaður Lille kom langt út úr markinu en Mohamed sá við honum og sendi boltann yfir hann utan vítateigs og upp í vinstra hornið. Frábær afgreiðsla hjá Egyptanum! Sendingin hjá Curtis, sem skóp markið, var í hæsta gæðaflokki.

Tíu mínútum eftir markið var Mohamed aftur á ferðinni. Luis Díaz sendi fram á hann. Mohamed hafði betur í baráttu við Gabriel og komst inn í vítateiginn en skot hans fór rétt framhjá vinstri stönginni. Liverpool yfir í hálfleik.

Tveir varamenn, Harvey Elliott og Alexis Mac Allister, komu inn í hálfleik. Liverpool hafði algjöra yfirburði en án margra færa eins og fyrir hlé. Á 58. mínútu lagði Harvey upp færi fyrir Conor Bradley en hann skaut yfir úr vítateignum. Reyndar leit alveg eins út fyrir að hann væri að gefa fyrir. Rétt á eftir ógnaði Darwin en Lucas varði vel með fæti. En liðu nokkur andartök og þá var Aissa Mandi rekinn af velli. Hann fékk sitt annað gula spjald fyrir brot. 

Liverpool manni yfir en á 62. mínútu jafnaði Lille þvert gegn gangi leiksins. Eftir sendingu frá vinstri fékk Hákon skotfæri í teignum. Varnarmaður komst fyrir en boltinn hrökk fyrir fætur Jonathan David og hann sendi boltann rakleitt í markið af stuttu færi utan við markteiginn.

Ótrúlegt að staðan væri orðin jöfn. Það liðu þó bara fimm mínútur þar til Liverpool náði aftur forystu. Kostas tók horn frá vinstri. Boltinn var skallaður frá en lenti hjá Harvey utan við vítateiginn. Hann náði viðstöðulausu skoti sem hafnaði í markinu fyrir framan Kop stúkuna. Það hjálpaði mikið til að boltinn fór í varnarmann og breytti talsvert um stefnu. Markið ekki verra fyrir það og Harvey fagnaði vel. Það hefur ekki gengið mikið upp hjá honum á leiktíðinni. 

Á 79. mínútu náði Liverpool hraðri sókn. Mohamed komst í gegn en markmaðurinn varði frá honum með fæti. Þremur mínútum seinna lék varamaðurinn Federico Chiesa sig í færi í vítateignum en markmaður Lille varði enn og aftur vel. Liverpool hélt sínu án vandræða til leiksloka. Enn er Liverpool með fullt hús stiga. Mikið afrek!

Liverpool spilaði vel í kvöld og vann öruggan sigur þó aðeins einu marki hefði munað þegar upp var staðið. Sigurgangan í Meistaradeildinni er sannarlega glæsileg. 

Liverpool: Alisson; Bradley (Alexander-Arnold 86. mín.), Quansah, Van Dijk, Tsimikas; Jones (Mac Allister 46. mín.), Gravenberch (Elliott 46. mín.); Salah, Szoboszlai (Endo 64. mín.), Díaz (Chiesa 74 mín.) og Nunez. Ónotaðir varamenn: Kelleher, Jaros, Danns, Gakpo, Konate, Morton og Robertson.

Mörk Liverpool: Mohamed Salah (34. mín.) og Harvey Elliott (67. mín.).

Gul spjöld: Alexis Mac Allister og Harvey Elliott.

Lille: Chevalier; Mandi, Diakite, Alexsandro, Gudmundsson (Ismaily 74. mín.); Andre, Mukau (Bouaddi 74. mín.); Cabella (Sahraoui 64. mín.), Hákon Arnar, Bakker (Meunier 64. mín.) og David. Ónotaðir varamenn: Mannone, Caillard, Gomes, Bayo, Mbappe og Cossier. 

Mark Lille: Jonathan David (62. mín.).

Gul spjöld: Aissa Mandi og Benjamin André.

Rautt spjald: Aissa Mandi. 

Áhorfendur á Anfield Road: 59.782.

Maður leiksins: Darwin Núnez. Darwin skoraði ekki og lagði ekki upp mark en hann spilaði mjög vel í framlínunni. Spilaði boltanum vel og barðist eins og ljón. 

Arne Slot: ,,Við ætluðum okkur að vinna en við vildum líka reyna að dreifa álagi á mennina okkar. Það sem er mér efst í huga í kvöld er að við sleppum við að spila eina umferð í keppninni." 

Fróðleikur

- Mohamed Salah skoraði 22. mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Þetta var 50. Evrópumark hans fyrir Liverpool. 

- Harvey Elliott skoraði í annað sinn á leiktíðinni. 

- Þegar Lille skoraði hafði Liverpool haldið hreinu í 599 mínútur í Evrópuleikjum. Það er nýtt félagsmet. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan