| Sf. Gutt

Jafntefli í síðasta leiknum!

Liverpool liðin skildu jöfn 2:2 í síðasta grannaslagnum á Goodison Park. Everton jafnaði þegar viðbótartíminn var að renna sitt skeið. Liverpool er eftir leikinn með sjö stiga forystu í efsta sæti deildarinnar þegar öll liðin hafa leikið jafn marga leiki.

Það var mikil spenna í loftinu fyrir leikinn. Það er auðvitað ekkert nýtt þegar grannaslagur á Mersey bökkum er í uppsiglingu. En að þessu sinni var aukaleg spenna vegna þess að þetta var síðasti leikur Liverpool og Everton á Goodison Park. Everton flytur á nýjan heimavöll á næsta keppnistímabili. 

Eins og gaf að skilja byrjaði leikurinn af miklum krafti. Bláliðar komust yfir á 11. mínútu. Everton fékk þá gefins aukaspyrnu rétt aftan við miðju. Jarrad Branthwaite tók aukaspyrnuna og stakk boltanum inn fyrir vörn Liverpool á Beto sem lék inn í vítateiginn og sendi boltann framhjá Alisson Becker. Vel útfært hjá Everton en vörn Liverpool steinsvaf á verðinum!

Rauðliðar fögnuðu fimm mínútum seinna. Mohamed Salah fékk boltann út til hægri. Hann sendi inn í vítateiginn og þar náði Alexis Mac Allister að skalla boltann aftur fyrir sig og neðst út í vinstra hornið. Vel gert hjá Argentínumanninum. 

Fram til leikhlés skiptust liðin á að sækja. Á lokamínútunni átti Dominik Szoboszlai fast skot utan vítateigs. Jordan Pickford varði en missti boltann frá sér. Jordan og varnarmaður náðu svo að bjarga í framhaldinu. Jafnt í hálfleik.

Everton var sterkari aðilinn framan af síðari hálfleik og á 54. mínútu skallaði Abdoulaye Doucouré framhjá í góðu færi í vítateignum. Liverpool náði svo betri tökum á leiknum þegar á leið og á 73. mínútu náðu þeir Rauðu forystu eftir harða sókn. Varamaðurinn Curtis Jones átt skot við vinstra markteigshornið. Jordan varði en boltinn barst til Mohamed sem skoraði viðstöðulaust frá markteigshorninu. Rauðliðar fögnuðu ógurlega enda full ástæða til. 

Liverpool gekk vel að verja forystu sína og leikslokin nálguðust. Mínútu fyrir leikslok gaf varamaðurinn Diogo Jota á Mohamed. Hann náði viðstöðulausu skoti í teignum en Jordan gerði vel í að slá boltann yfir. 

Fimm mínútum var bætt við og meiðsli tveggja leikmanna Everton ollu því að það lengdist í viðbótinni. Þegar átta mínútur voru komnar fram yfir auglýstan tíma var leikurinn enn í gangi. Gefið var fyrir frá vinstri og Tim Iroegbunam framlengdi boltann með skalla yfir til hægri. Boltinn kom niður við markteiginn og þar var James Tarkowski staddur. Hann tók boltann viðstöðulaust á lofti og hamraði hann upp upp í þaknetið. Allt gekk af göflunum hjá þeim Bláu. Þeir gátu þó ekki fagnað endanlega fyrr en búið var að skoða markið fram og til baka í sjónvarpinu. Það átti að dæma markið af vgna þess að ýtt var við Ibrahima Konaté aftan frá þannig að hann var ekki í jafnvægi til að verjast. Jafnteflinu sem varð var tryllingslega fagnað af stuðningsmönnum og leikmönnum Everton.

Abdoulaye Doucouré rauk í átt að stuðningsmönnum Liverpool til að fagna fyrir framan þá. Curtis Jones tók því illa svo ekki sé meira sagt og þeim lenti saman. Fleiri leikmenn skárust í leikinn og allt varð vitlaust. Þeir Abdoulaye og Curtis voru reknir af velli. Þegar upp var staðið höfðu þeir Arne Slot og Sipke Hulshoff, helsti aðstoðarmaður hans, líka fengið rauð spjöld. 

Kannski var jafntefli nokkuð sanngjarnt. En Liverpool átti að tryggja sér sigurinn úr því sem komið var. En viðbótartíminn var undarlegur og ekki er hægt að neita því að dómarinn átti sinn hlut í því. En leikmenn Liverpool áttu að halda út og ná öllum stigunum!

Everton: Pickford; O'Brien, Tarkowski, Branthwaite, Mykolenko; Gana (Iroegbunam 77. mín.), Garner (Young 87. mín.); Lindstrom (Alcaraz 77. mín.), Doucoure, Ndiaye (Harrison 25. mín.) og Beto. Ónotaðir varamenn: Begovic, Virginia, Keane, Sherif og Heath. 

Mörk Everton: Beto (11. mín.) og James Tarkowski (90 + 8. mín.).

Gul sjöld: Jesper Lindström, Idrissa Gana Gueye og Abdoulaye Doucouré.

Rautt spjald: Abdoulaye Doucouré.

Liverpool: Alisson; Bradley (Alexander-Arnold 61. mín.), Konate, Van Dijk, Robertson (Tsimikas 69. mín.); Gravenberch (Jones 61. mín.), Mac Allister; Salah, Szoboszlai, Gakpo (Núnez 69. mín.) og Diaz (Jota 88. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Elliott, Endo og Quansah. 

Mörk Liverpool: Alexis Mac Allister (16. mín.) og Mohamed Salah (73. mín.). 

Gul spjöld: Andrew Robertson, Conor Bradley og Curtis Jones.

Rauð spjöld: Curtis Jones, Arne Slot og Sipke Hulshoff. 

Áhorfendur á Goodison Park: 39.280.

Arne Slot: Hollendingurinn sat ekki fyrir svörum eftir leikinn.

Maður leiksins: Mohamed Salah. Egyptinn lagði upp jöfnunarmarkið með glæsilegri sendingu og kom svo Liverpool yfir. 

Fróðleikur

- Þetta var síðasta viðureign Liverpool og Everton á Goodison Park.

- Liðin mættust 120 sinnum á Goodison Park. Eru þá allar keppnir taldar.

- Hvort lið vann 41 leik. Jafnteflin urðu 38 talsins. 

- Alexis Mac Allister skoraði í fjórða sinn á keppnistímabilinu.

- Mohamed Salah skoraði 27. mark sitt á leiktíðinni. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan