| Sf. Gutt

Sannfærandi sigur!

Liverpool vann í kvöld sannfærandi 2:0 sigur á Newcastle United á Anfield Road. Liverpool hafði fullkomna stjórn á leiknum frá upphafi til enda. 

Tvær breytingar voru gerðar á liðinu frá sigrinum sterka á City í Manchester. Diogo Jota kom í sóknina og Curtis Jones fór á bekkinn Kostas Tsimikas leysti Andrew Robertson af. Arne Slot og Sipke Huls­hoff, nánasti aðstoðarmaður Arne, sátu uppi í stúku vegna leikbannsins sem þeir voru dæmdir í. Aðstoðarmaðurinn Johnny Heitinga stjórnaði liðinu af bekknum.

Leikurinn hófst í hellirigningu. Stuðningsmenn Liverpool voru vel með á nótunum enda hafði Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, hvatt þá til að gera Anfield að hræðilegum stað fyrir gestkomandi út leiktíðina. 

Liverpool tók völdin frá byrjun og boltinn lá í markneti Newcastle eftir 11 mínútur. Boltinn gekk fram völlinn vinstra megin. Luis Díaz fékk boltann til hliðar við vítateiginn og lék inn í vítateiginn. Hann var með varnarmann í móti sér. Snögglega sendi hann boltann til hliðar á Dominik Szoboszlai sem skaut að marki úr miðjum teig. Boltinn fór á milli fóta tveggja varnarmanna og framhjá Nick Pope í markinu. Skot Dominik var ekki sérlega fast og ótrúlegt að boltinn skyldi rata í markið. En markinu var innilega fagnað enda mikilvægt að fylga eftir sigrinum á móti Machester City.

Sem fyrr segir hafði Liverpool algjöra stjórn á leiknum en eftir hálftíma fékk Newcastle upplagt færi. Callum Wilson slapp óvænt í gegn. Hann lék inn í vítateiginn en skot hans fór vel framhjá. Eins gott!

Dominik ógnaði með skoti utan vítateigs sex mínútum seinna en boltinn fór rétt framhjá. Liverpool yfir í hálfleik og sannarlega verðskuldað. 

Sama var uppi á teningnum eftir hlé. Liverpool stjórnaði gangi mála. Ekki bara með linnulausum sóknum heldur líka með goðu spili og mikilli yfirvegun í leik sínum. 

Það má þó ekkert út af bera þegar eitt mark skilur. Staðan varð þægilegri á 63. mínútu. Mohamed Salah fékk boltann hægra megin í vítateignum. Varnarmenn sóttu að honum en hann náði að halda boltanum. Hann sendi svo stutt til vinstri á Alexis Mac Allister sem náði óverjandi viðstöðulausu skoti upp í vinstra hornið fyrir framan Kop stúkuna.

Ekkert ógnaði sigri Liverpool til leiksloka. Í viðbótartíma var varamaðurinn Cody Gakpo nærri því að skora. Hann náði valdi á boltanum og tók svo hljóhestaspyrnu sem fór rétt framhjá. Sigurinn sannfærandi og honum var auðvitað vel fagnað! 

Liverpool hélt áfram á sömu braut og á móti Manchester City. Liðið hafði fullkomna stjórn á leiknum og sigurinn var sannfærandi. Liverpool er nú með 13 stiga forystu í efsta sæti. Arsenal á þó leik til góða.  

Liverpool: Alisson; Alexander-Arnold (Quansah 77. mín.), Konate, Van Dijk, Tsimikas; Gravenberch (Endo 77. mín.), Mac Allister (Jones 87. mín.), Szoboszlai; Salah, Diaz (Nunez 87. mín.) og Jota (Gakpo 62. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Robertson, Elliott og Chiesa.

Mörk Liverpool: Dominik Szoboszlai (11. mín.) og Alexis Mac Allister (63. mín.). 

Newcastle United: Pope; Livramento (Trippier 69. mín.), Schar, Burn, Hall; Tonali (Miley 69. mín.), Guimaraes (Longstaff 88. mín.), Willock (Barnes 68. mín.); Murphy, Gordon og Wilson (Osula 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Ruddy, Dubravka, Krafth og Targett.

 

Gult spjald: Jacob Murphy.

Áhorfendur á Anfield Road: 60.374.

Maður leiksins: Dominik Szoboszlai var eins og kóngur í ríki sínu á miðjunni og reyndar víðar því hann lét víða til sínum taka á vellinum. Hann skoraði svo annan leikinn í röð. Framúrskarandi leikur!

Arne Slot: ,,Þetta var ekki fullkominn leikur. Mér fannst við missa boltann, í einföldum stöðum, oftar en venjulega. En andlegur styrkur liðsins var aftur og enn frábær. Liðsheildin var stórgóð. 

Fróðleikur

- Dominik Szoboszlai skoraði sjöunda mark sitt á leiktíðinni. 

- Markið var númer 100 hjá Liverpool í öllum keppnum.

- Alexis Mac Allister skoraði í fimmta sinn á sparktíðinni. 

- Liverpool hefur skorað tvö mörk eða fleiri í síðustu 18 leikjum sínum á Anfield.  

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan