| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Evrópukvöld sem fer í safn þeirra bestu í annálum félagsins. Þetta er leikur Liverpool og Olympiakos í hnotskurn.

- Milan Baros var aftur leikfær eftir meiðsli á hnésbótarsin og var settur beint í byrjunarliðið.

- Antonio Nunez var í fyrsta skipti í byrjunarliði Liverpool á heimavelli.

- Rivaldo var í liði Barcelona sem Liverpool sló út á leið sinni að sigri í Evrópukeppni félagsliða 2001. Liverpool mætti Olympiakos líka á þeirri sigurgöngu. Góðs viti!

- Olympiakos hafði, fyrir þennan leik, tapað öllum leikjum sínum á breskri grundu. Það breyttist sem betur fer ekkert!

- Rivaldo skoraði fyrsta mark Olympiakos á Englandi. Liðið hafði aldrei fyrr skorað mark í heimsóknum sínum til Englands.

- Tvö mörk voru dæmd af Liverpool. Það hefur nú ekki oft gerst að tvö mörk eru dæmd af í sama leiknum. Hingað til á leiktíðinni er búið að dæma, að mínu mati, fjögur lögleg mörk af Liverpool.

- Áhorfendur sungu, aldrei þessu vant, You´ll Never Walk Alone í hálfleik. Síðari hálfleikur hófst þegar þjóðsöngurinn var sunginn. Óvenjulegt en það vissi á gott!

- Florent Sinama-Pongolle skoraði með annarri snertingu sinni eftir að hafa komið inn sem varamaður rúmri mínútu áður. Þetta var fyrsta Evrópumark hans fyrir Liverpool.

- Neil Mellor skoraði með fyrstu snertingu sinni eftir að hafa komið inn sem varamaður um eitthundrað sekúndum fyrr. Þetta var fyrsta Evrópumark hans fyrir Liverpool! Það er greinilega staðurinn hans!

- Neil Mellor hefur nú skorað fimm mörk fyrir Liverpool. Fjögur þeirra hafa verið skoruð á Anfield Road og öll í markið fyrir framan The Kop.

- Steven Gerrard skoraði áttunda Evrópumark sitt fyrir Liverpool. Hann er markahæstur núverandi leikmanna Liverpool á Evrópumótum. Michael Owen á Evrópumarkamet Liverpool. Hann skoraði 22 Evrópumörk fyrir Liverpool.

- Fyrrum leikmenn Liverpool sáust ganga af göflunum, af fögnuði, um allar brekkur. Sjónarvottar sáu þá John Toshack, Ian Rush, Gary Gillespie, John Aldridge og Alan Kennedy brjálast af fögnuði. Einn sjónarvottur fullyrðir að þeir John, Ian og Gary hafi sungið Fields of Anfield í leikslok með The Kop og öðrum viðstöddum!

- Viðstaddir segja stemmninguna á Anfield Road hafa verið ólýsanlega! Svona gerist bara á Anfield Road!

Liverpool: Kirkland; Finnan (Josemi 85. mín.), Carragher, Hyypia, Traore (Sinama-Pongolle 46. mín.); Nunez, Gerrard, Alonso, Riise; Kewell, Baros (Mellor 78. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek, Henchoz, Diao og Warnock.

Áhorfendur á Anfield Road: 42.045.

Mörkin: Florent Sinama-Pongolle (47. mín.), Neil Mellor (80. mín) og Steven Gerrard (86. mín.).

Gul spjöld: Xabi Alonso, Jamie Carragher og Steven Gerrard (Fyrir brot á mótherjum). Steven verður í leikbanni í næsta Evrópuleik.

Maður leiksins samkvæmt Liverpool.is: Það er kannski ósanngjarnt að velja einn þegar allir leikmenn liðsins voru hetjur. En ég vel Steven Gerrard. Ummæli leiðtogans, fyrr um daginn, féllu ekki í of góðan jarðveg og það má segja að hann hafi stillt öllum tengdum Liverpool upp við vegg. En eins og svo oft áður þá lét Steven verkin tala inni á vellinum. Hann fór fyrir liðinu sínu með frábæru fordæmi og kórónaði svo stórleik sinn með því að skora markið sem kom Liverpool áfram upp úr riðlinum. Þvílíkt mark til að fullkomna verkið!

Jákvætt:-) Allir leikmenn Liverpool, sem tóku þátt í leiknum, voru hetjur. Utan vallar lagði Tólfti maðurinn sitt lóð á vogarskálarnar. Samsetning þessa alls framkallaði Evrópukvöld sem fer í flokk með þeim mögnuðustu í sögu félagsins og í þeim flokki er af mörgum góðum að taka! Það kemur enn bros á varirnar þegar maður hugsar til leiksins!

Neikvætt:-( Eftir svona leik má maður ekki nefna neitt neikvætt. Ekkert skal verða til þess að spilla þessari tæru sigurgleði sem maður er enn uppfullur af!

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Ótrúlegur leikur og þvílík kvöldstund. Liverpool byrjaði af miklum krafti og aðeins vafasamur dómur rændi Milan Baros marki á upphafsmínútunum. Það kom svo eins og köld vatnsgusa framan í alla þegar Rivaldo skoraði beint úr aukaspyrnu. Varnarvegguinn var gisinn og enn einu sinni fær Liverpool á sig mark úr föstu leikatriði. Florent Sinama-Pongolle kom inn. Hann breytti gangi leiksins og átti sinn besta leik fyrir Liverpool. Jöfnunarmark hans var í mínum huga ávísun á sigur Liverpool. Það var bara spurning um hvort hann yrði nógu stór. Sókn Liverpool þyngdist jafnt og þétt. Aftur var ranglega dæmt mark af Liverpool þegar Steven Gerrard skoraði með langskoti. Ekkert virtist ætla að ganga upp. Þeir Jamie Carragher og Sami Hyypia sáust æ oftar uppi við vítateig gríska liðsins. Ætlaði þetta ekki að ganga? En þá kom Neil Mellor til sögunnar. Hann kom Liverpool yfir með marki af stuttu færi með sinni fyrstu snertingu þegar míu mínútur lifðu af leiknum. Fjórar mínútur eftir. Neil skallaði boltann út á Steven Gerrard. Bylmingsskot hans, utan vítateigs, sá til þess að sigurinn varð nógu stór. Hann varð um leið sætari en nokkurt jólakonfekt!





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan